Kringum hnöttinn

eftir: Rúnar Berg Baugsson Sigríðarson og Skúla Pálmason

Á Íslandi

Kringum hnöttinn á átta mánuðum: Fréttainnskot frá víkurfréttum

23. ágúst 2007

Grindvísku frændurnir Rúnar Berg Baugsson og Skúli Pálmason ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Eftir eina viku leggja þeir af stað í heimsreisu um fjórar heimsálfur og stefna ekki á heimkomu fyrr en eftir átta mánuði. Þeir segja að það sé ævintýraþráin sem reki þá út í þetta langa ferðalag. Frændi þeirra, Þórður Snær Júlíusson, hefur farið í álíka reisu og gaf þeim góð ráð við skipulagninguna.

Í ferðalaginu verður stoppað í fjöldamörgum löndum. Fyrst koma þeir við í flestum löndum Mið- og Suður-Ameríku, þaðan ætla þeir til Páskaeyju og Tahiti, því næst til Nýja Sjálands og Ástralíu og svo upp í gegnum alla Suð-Austur Asíu. Lokahnykkur ferðarinnar er svo að taka Síberíuhraðlestina frá Peking til Moskvu og þaðan heim.

Undirbúningur ferðarinnar hefur staðið í eitt ár og hafa strákarnir þurft að fá margar vegabréfsáritanir og fara í fjöldamargar sprautur til að vera við öllu búnir í ferðinni. Þó segjast þeir ekki vilja plana ferðina of mikið og því er óráðið hversu lengi þeir munu stoppa á hverjum stað og meira að segja hvar þeir muni gista. „Við erum bara búinn að bóka fyrstu tvær næturnar sem við gistum í London,“ segir Rúnar og af svipnum að dæma þykir þeim mjög spennandi að fara út í óvissuna. Búast þeir við að ferðin muni kosta rúma eina milljón á mann og hafa þeir unnið fyrir henni á þessu ári sem undirbúningurinn tók.

Rúnar segist vilja prófa brimbretti og Skúli er mjög spenntur fyrir teygjustökki, en þess utan geta þeir varla sagt hvað þeir hlakki mest til að upplifa í ferðinni, af nógu er að taka. Frændurnir segja að flestir sem hafi frétt af ferðalagi þeirra hafi verið öfundsjúkir, og skal engan undra því það eru ekki allir sem geta tekið sér átta mánuði í að ferðast um heiminn. Strákarnir ætla að leyfa fólkinu hér heima að fylgjast með og munu reglulega senda inn pistla.

London – Er-Rachidia

Matareitrun, hirðingjar, sól, hiti, sviti og heilu skógarnir af Pálmatrjám

7. september 2007

Við frændurnir, Rúnar Berg og Skúli, höfum verið hér í Marokkó síðan laugardaginn 1. September. Casablanca tók við okkur við sólsetur eftir allt normalið í Lundúnum. Þar í bæ, London þar að segja, hlotnaðist okkur sá höfðinglegi heiður að verða vitni að Elísabetu Bretadrottningu aka úr Bökkinghamhöllinni frægu í átt að minningarathöfn Díönu prinsessu sálugri.

Endalausar strendur, snjóhvít eyðimörk, kús-kús, matareitrun, hirðingjar, sól, hiti, sviti og heilu skógarnir af Pálmatrjám. En Marokkó er bara svo miklu meira. Við eyddum ekki löngum tíma í Casablanca, rétt nóg til að skoða Hassam II moskuna, borða eina fajib-máltíð (sem við frændurnir vorum sammála um að væri einhver sú besta 400 krónu máltíð sem við höfum notið) og taka eina einkaskoðunarferð með hinum magnaða leigubílstjóra Haddim.

Marrakesh var næst á dagskrá. Það tók okkur þrjár og hálfa klukkustund að ferðast þangað í úttroðinni lest. Plássið var ekki meira en svo að aldrei höfum við kynnst öðrum eins þrengslum og eftir slíka ferð er hammam 1 himneskt. Djamaa el-fna-torgið í miðjum gamla bænum í Marrakesh var ekki sett á heimsminjaskrá UNESCO að ástæðulausu. Hin einstaka menningarupplifun sem á sér engan samanstað í heiminum var ástæðan. Og við fengum að kynnast þessari upplifun og það getum við svarið tunguna okkar upp á að frekar hefðum við viljað vera krossfestir í gær en að lifa ævina án þess að eiga minningu af þessu torgi. Sögur eins margar og misjafnar og mennirnir ganga á víxl með miklum undirtektum og klöppum áhorfenda, bongótrommur og rafmagnsfiðlur og þúsundir manns hvert einasta sólsetur er það sem gerir þetta torg svona sérstakt.

Skipulagsleysið varð til þess að við enduðum í Jeppa ásamt 3 öðrum farþegum í 3. daga leiðangur yfir fjöll, gegnum skóga og inn í þá eyðimörk sem ber nafnið Sahara. Leiðin var löng enda erum við að tala um 600 km. Í jeppanum kynntumst við líka Sachi frá Japan og Maríu og Símonettu frá Ítalíu sem ferðuðust með okkur þessa leið, ásamt 2 bílstjórum sem við, því miður, munum ekki nöfnin á. Fyrst ókum við í 2000 metra hæð yfir sjávarmáli upp á hinu Háa Atlas fjalli, svo sáum við nýmörg stórfengleg gljúfur sem samanstóðu af allt að 300 metra háum lóðréttum eyðimerkurklettum (sem áttu það til að kljúfa heilu fjöllin í tvennt) og læk sem rann í gegnum þau. Stundum hafði myndast dalur á milli klettana með pálmatréskógum svo grænum að þeir láta túborgdós blikna í samanburði. Nokkrar stórfenglegar köspur voru einnig á leiðinni m.a. sú sem margir kannast við í myndinni Babel sem Brad Pitt lék í. Inni í henni kynntumst við mjög vingjarnlegum teppagerðamanni af Berberætt. Hann var meira að segja var svo vinalegur að hleypa okkur 5 inn á heimilið sitt til að drekka te og skoða teppi. Hafði hann þau allmörg til sölu en brosið var ekki lengi á vörum hans eftir að við tilkynntum honum að við hefðum ekki áhuga á að kaupa af honum teppi. Guð blessi fröstreraða teppasölumanninn. Þannig er líka hinn týpíski Marokkóbúi, voðalega vinalegur og allt en það eina sem þeir eru á eftir eru peningar hins almenna túrista. Og þó virðast íbúarnir t.d. hér í Er-Rachidia (þar sem við erum ábyggilega fyrstu hvítu mennirnir sem sjást á götum úti síðan franski herinn fór héðan og íbúarnir því ekki mengaðir af túrismanum) sýna ósvikna vináttu og hjálpsemi.

Áður en við kvöddum vini okkar í jeppaleiðangrinum fórum við öll saman í úlfaldaleiðangur í saharamörkinni. Eins og Skúli orðaði það: „Að ríða úlfalda er pein in ðí es.“ Sjaldan hefur maður orðið jafn aumur í sitjandanum og eftir að hafa riðið þessum kvikindum í 4 tíma. Við skiptum þessu þó í tvennt því undir stjörnubjörtum eyðimerkurhimninum sváfum við eina nótt og tókum seinni tvo tímana í sólarupprás og riðum þá aftur í byggt ból.

Það eru augljóslega kosningar í nánd hér í Marokkó. Miðum í tonnatali sem segja manni að kjósa ekki höfrungaflokkinn er kastað yfir mann á meðan maður situr alsaklaus í úttroðnum grand-taxa (sem er ekki svo stór eins og nafnið gefur til kynna, heldur yfirleitt svona 20 ára gömul Benz bifreið) eftir að við kvöddum vini okkar 3 í Erfoud og tókum fyrrnefndan leigubíl hingað til Er-Rachidia. Þegar á áfangastað var komið hrundi annar okkar, Rúnar Berg, niður í götuna um leið og stigið var út úr bílnum. Upp var ekki stigið uns löngu seinna. Ástæðan var sú að löppin var óstarfhæf sökum blóðleysis sem plássleysi er gjarnt að valda, því hér í Marokkó er venjan sú að troða 7 farþegum í áðurnefndan bíl sem annars er hannaður fyrir 4. Við sjáum til hvernig þetta fer og þá hvort annar slíkur bíll verður nokkurn tímann brúkaður af okkur frændum. En hitt er ljóst að úrgangurinn okkar mun halda áfram að sturtast niður um holu á gólfinu þar til 16. næstkomandi, því þá förum við til Kúbu.

  1. Hammam er marakóskur siður sem lýsir sér svo: „Sérstakt baðsvæði þar sem fólk kemur saman og hreinsar sig og/eða hvort annað með náttúrulegri ólífusápu og vörmu vatni sem hellt er úr fötu. Dautt skinn er skrúbbað af og stundum er þessu svo lokið með nuddi. Venjuleg hammam baðferð gæti því farið svo: „Einn herramaður fer inn í hammam fyrir kynbræður. Hann borgar aðgangseyrinn 10 dirham og biður annan herramann um skrúbb og nudd. Báðir þessir herramenn klæða sig næst úr öllu nema undirfötunum og láta gæslumann geima klæðin á meðan baðið er tekið. Næst er haldið í lítið rými sem hefur að geima tylft af fötum, nokkra krana og sirka sex aðra hálfnakta herramenn. Annar herramanna fyllir fötu af vatni og vætir hinn og sápar hann svo liggjandi með ólífusápu. Því næst skrúbbar sá hinn sami herramanninn með þar til gerðum hanska uns lufsurnar af dauðu skinni lafa á líkamanum og gólfinu fyrir neðan. Svo er skolað og maðurinn, enn hálfnakinn byrjar að nudda herramanninn. Svo er herramaðurinn sápaður aftur og skolaður og þá loks getur hann klætt sig í fötin sín þar sem hann ilmar eins og ólífa og er eins mjúkur og rass á barni.“ — Mjög eðlilegt alltsaman.

Er-Rachidia – Rabat

Ramadan og aðrir mjög svo eðlilegir hlutir

15. september 2007

Ramadan er byrjuð og það sést á götum úti. Fyrir kristna menn að verða sér úti um mat fyrir sólsetur er hægara sagt en gert. Því brá annar okkar, Rúnar Berg sem fyrr, á það ráð að fasta einfaldlega með múslímska meirihlutanum hérna í Rabat. Ferðinni var svo heitið til Kenitra sem sögð var öruggur kostur fyrir þá sem vilja skella sér á brimbretti. Eins og víðast hvar í múslímsku löndunum voru nær allir veitingastaðir lokaðir í Kenitru, nema einn pítsastaður. Sem þýddi það að 8 klukkustunda löngu föstunni hans Rúnars var lokið.

Við dvöldum yfir kosningarnar í Er-Rachidia. Og marakkóskar kosningar eru engu líkar þeim sem við könnumst við heima. Þar er dansað, sungið og spilað á trommur og lúðra á meðan við étum pulsur, drekkum kaffi og spilum vist heima. Samt er öllum sama um kosningarnar hérna. Eða eins og einn Marakkóbúi orðaði það þegar við spurðum hann hverjir væru að vinna: „Það er enginn að vinna kosningarnar, trén halda það (hann benti í átt að slíkum látum að það mætti halda að Old Trafford væri hinum megin við götuna) en meiri hlutinn kýs með því að kjósa ekki. Því sama hverjir halda að þeir hafi unnið og sama hverju þeir lofa, þá gerist alltaf ekki neitt, og það er þess vegna sem göturnar hérna eru svona.“ (hann benti á götuna fyrir neðan okkur sem var lítið annað en malarhrúga.)

Ekki ósvipað lóninu okkar bláa heyrðum við af náttúrulegri laug 20 kílómetra í burtu. Þetta urðum við frændurnir að kíkja á, þarna var jú fallegt en að bera þetta saman við Bláa lónið er eins og að bera Jóda saman við sólgleraugu. Við tókum nokkra sundspretti og létum það nægja um sinn.

Daginn eftir fórum við til Azrou. Azrou er fimm klukkustundum frá Er-Rachidia, en samt héldum við báðir að við hefðum villst hinum megin við Gíbraltarsund, því meira að segja moskan í þessari 50.000 manna borg er líkari spænskri kirkju en nokkurn tíman þeim arkitektúr sem við höfum vanist hér í Marakkó. Það var ekki fyrr en við eftir 2 tíma göngu um umliggjandi skóga og fjalllendi (sem einnig voru evrópskir að líta) að ágætlega stór api varð á vegi okkar þegar við loksins áttuðum okkur á því hvaða heimsálfu við virkilega vorum staddir í.

Leiðin lá til Rabat, í gegnum Féz og Meknéz með viðkomu í hinni heilögu borg Mouley Idriss. Fornt, er orðið sem notað er til að lýsa þessum borgum (að Meknéz undanskilinni) því, m.a., stendur háskóli í völundarmedínunni í Féz sem var reistur á 9. öld. Og unnið er að því að gera hann aftur starfhæfan. Okkur lærðist líka mikilvæg lexía í Féz, þegar maður er með opinberan leiðsögumann að fylgja sér minnkar söluáreitið um 100%. Meknéz er ekki nærri því jafn spennandi og Féz, að því frátöldu að hin heilaga borg Mouley Idriss og hinar rómversku rústir í Vulubilis, eru steinsnar í burtu.

Það er ekki hægt að segja að sögumenn hafi sloppið við alla bakhnekki, eða alla vega ekki sá hluti okkar sem nefndur er Skúli. Á meðan hinn helmingurinn af okkur hefur svo gott sem sloppið við allan óþvera (matareitrun, moskítóbit o.s.frv.) hefur sá fyrri, allur út bitinn með tilheyrandi kláða, verið haldin misvægri matareitrun svo gott sem alla ferðina að fyrstu fjórum dögunum undanskyldum. Síðarnefndur höfundur, Rúnar Berg, varð svo næstum sprengdur í loft upp tvisvar sömu nóttina í Féz. Þruma varð í seinna skiptið til þess að vekja Skúla þar sem hann hélt að um sprengja hefði valdið hávaðanum, eða eins og sagt var: „Rúnar!!! Heyrðurðu þetta? Þetta var sprengja.“ (Hvort of mikill gullfoss valdi óhóflegri paranóju er fyrir vísindamenn að kanna.) Hin umrædda sprengjan var kannski örlítið alvarlegri en hún gerðist svo:

Leslampinn í hótelinu er ekki að fúnkera sem skildi og því tekur Rúnar það á sig að lagfæra hann svo Skúli eigi auðveldara með svefn á meðan sá seinni liggur við lestur. Peran er eitthvað skökk og ekki er unnt að hreifa hana á meðan glergaurinn er fyrir svo hann er tekinn af. Peran er líka tekin tímabundið frá og könnuð. Eftir að greiningin hefur leitt í ljós að ekki hægt að laga hana nema að skipta um stykki sem erfitt er að fá svo seint um nótt er hætt við viðgerðina og gengið frá lampanum í fyrra horf. Peran er sett á sinn stað hrakfallalaust. En þegar röðin er komin að glergaurnum kemur svo hár hvellur að rúðan skelfur og allt ljós hverfur í byggingunni. „Er allt í lagi með þig Rúnar?“ Spyr Skúli. En Rúnar getur engu svarað þar sem hann liggur í krampa, þesskonar krampa er hlátur kann að valda. Nokkrar mínútur líða þar til ljósið birtist á ný og þá sést brunablettur á málningunni þar sem lampinn var fyrir þetta skelfilega atvik og hola í vegnum á stærð við lítinn handbolta.

Engum varð þó meint af þessum bakhnykkjum og veiki hluti sögumanna er á batavegi.

Nýr mánuður hófst eftir að 1428 ár eru liðin síðan Gabríel engill byrjaði að bera orð Guðs til Múhameðs spámans. Þessi mánuður er nefndur Ramadan og venjan er að allir heilbrigðir múslimar fasti þennan mánuð. Um kvöldmatarleitið sáu sögumenn eitthvað sem þeir höfðu aldrei búist við að sjá í höfuðborg Marakkó. Göturnar voru tómar en þegar kvölda tók trylltust götur Rabat sem aldrei fyrr. Fyrr þennan dag höfðu sögumenn farið í misheppnaða brimbrettaferð til Kenitru og daginn þar áður var farið í misheppnaða bíóferð. Ramadan setur svo sannarlega króka á vegi manns.

Ekki er þó ætlunin að enda þennan pistill án þess að segja dálítið um Rómversku rústirnar í Volubilis og heilögu borgina Mouley Idriss. Á meðan Skúli lá lasinn á hótelinu í Meknés tók komst Rúnar að því að margir ofgreiða fyrir ferð á fyrrnefnda staði. Leigubílsstjórar hrúguðust að honum og buðu 3ja tíma sérferðir til þessara tveggja borga á aðeins 350 dírham. Í Volubilis þyrfti svo að greiða 10dh. í aðgangseyri og 120dh. fyrir leiðsögumann. Alls 480 dírham fyrir ferðina (3840kr.). Þess í stað borgaði sögumaður 10dh. í grand taxa (lýsingu á grand taxa er að finna í fyrsta pistli) til Mouley Idriss. Sú borg var byggð af fyrsta konungi Marakkó sem var uppi, var sögumanni tjáð, á 8. öld. Þegar þangað var komið í mannkynssögunni voru flestir Rómverjar farnir burt frá Norður-Afríku, enda Rómaveldi hrunið. En einhverjir voru enn eftir í Volubilis, en þeir hurfu þegar Arabarnir komu. Ferð með taxa kostaði svo 30dh. frá Mouley Idriss til Volubilis. Á gullöld Volubilis bjuggu þarna um 20.000 manns, bæði Berberar og Rómverjar, lífsviðurværi íbúanna virðist hafa verið útflutningur á ólífuolíu til Róm. Þrátt fyrir að borgin hafi verið notuð sem grjótnáma til að byggja upp nálægar Arababorgir og þrátt fyrir þá staðreynd að jarðskjálfti fór mjög illa með rústirnar á 18. öld, þá er borgin ótrúlega heilleg á að líta. Enn má sjá mósaíkið á gólfunum eins og það var lagt í gær og frá Volubilis er Mouley Idriss ótrúlega sérstök viðsjónar. Hún byggist efst uppi á bröttum hólum og má helst líkja henni við kamelhnúa.

Nú liggur leiðinn til Casablanca, þaðan sem við fljúgum til Kúbu. Að öllum líkindum verður næsti pistill skrifaður þaðan. Það er að segja ef Castró hleypir okkur inn í landið.

Insha’llaah Rúnar Berg og Skúli.

Madrid

Heimsreisufararnir aðskildir

18. september 2007

Ævintýrin virðast leita heimsreisufarana Skúla og Rúnar Berg uppi. Allavega er sá síðarnefndi núna fastur í Madrid á meðan Skúli heilsar upp á Kastró.

Heilt Atlandshaf skilur nú heimsreisufaranna frá Grindavík að. Á meðan Skúli ferðast um Karapíuhafseyjuna með nýju vinunum sem hann kynntist á Kúpu, situr Rúnar Berg og biður til Guðs um að redda sér flugmiða til Kúpu í Basilica San Francisco el Grande risavöxnu kirkjunni í Madrid.

Ástæðan fyrir þessu misræmi er lítill misskilningur varðandi vegabréfsáritun sem átti að vera búin að berast fyrir flugið til Madrid en gerði það ekki. Slíkt ætti nú samt að vera hægt að redda með því að færa flugið aðeins til á meðan gengið væri frá vegabréfsárituninni. En það var ekki unnt heldur sökum misræmis milli þeirra flugfélaga sem áttu í hlut.

Aðspurður sagði Rúnar Berg að þetta væri allt dæmigerður skrifstofublókarháttur og jafnvel eftir að hafa eitt yfir 5000 krónum í utanlandssímtöl til 5-6 landa bæði frá Marakkó og Spáni benda allir hvor á annan til þess eins að varpa vandamálinu annað í stað þess að leysa það bara þá og þegar.

Annar kostur var ekki í stöðunni fyrir Skúla en að nýta flugið og fara til Kúbu og til að bæta gráu ofan á svart vildi svo óheppilega til að hann fór með bæði flugmiðabúntin með sér, skiljandi Rúnar eftir í Madrid, eins og forlögin vildu, með enga flugmiða.

Rúnar er nú að leita leiða til að komast yfir til Karabíska hafið „sama hvort það sé til Mexíkó, Kúpu eða Texas“ á meðan Skúli rabbar hinn rólegasti við Kastró hinum megin Atlandshafsins.

Madrid – Havana

Romm, vindlar, systur og fleiri skemmtilegheit

28. september 2007

Það var alltaf til í stöðunni að leiðir okkur myndu skiljast einhvern tíma þessa átta mánuði sem við ferðumst. Reyndar töldum við það óhjákvæmilegt. Verst að það skyldi gerast þegar heilt haf skyldi á milli okkar. Vegabréfsáritunin sem á vantaði reddaðist á svipstundu þegar um það var að spyrja, en jafnvel í Kúbu voru við frændur aðskyldir og áttum erfitt með að sameina leiðir okkar, jafnvel þó við værum á sömu eyjunni. Reynslan sem við öðluðumst á Kúbu skiptist því í tvennt og sömuleiðis pistillinn að þessu sinni.

Skúli segir frá

Eftir að hafa reynt að breyta fluginu okkar félaganna til Kúbu án árangurs reyndi ég að tjékka mig inn í flugið svo að allavega annar okkar þyrfti nú ekki að kaupa nýjan flugmiða. Fljótlega komst ég nú að því að miðann til Havana vantaði af einhverjum óskiljanlegum ástæðum í flugmiðaheftið. Ég reyndi tvo mismunandi tjékk-inn bása en ekkert gekk. En, eins og einhver vitur maður sagði einhverntímann „allt er þegar þrennt er.“ Ég reyndi þriðja básinn og tjáði sú ágæta kona mér að það væri búið að loka fyrir tjékk-inn í flugið en henni tókst nú samt að redda þessu fyrir mig. Þannig að ég hleyp af stað, verkjandi í geirvörturnar af stressi og hleyp í sirka hálftíma í gegnum risavaxinn Madrid flugvöllinn. Löðrandi sveittur bankar litli ljóshærði Íslendingurinn á lokaða flugvélarhurðina og gengur inn skömmustulegur á svip. Jess, æ meid it.

Eftir rúmlega átta tíma flug lenti ég (með snyrtibudduna mína og megnið af fötunum í töskunni hans Rúnars í Madrid) í Havana og bað næsta leigubílsstjóra að skutla mér á hótel eða á Casa Particular (hálfgert bed&breakfast). Sá elskulegi bílstjóri tók mig heim til sín og bauð mér kaffi. Ég afþakkaði pent. Þá fór hann með mig upp þar sem ég gisti þá nóttina.

Daginn eftir fór ég á casað sem við Rúnar höfðum bókað og hitti þar fyrir tvær elskulegar stelpur; Tali frá Ísrael og Suzie frá Ástralíu. Þær stöllur drógu mig með sér í miðborg Havana þar sem við fórum á byltingarsafnið og í skoðunarferð í vindlaverksmiðju þar sem keyptir voru Cohiba vindlar (quality stuff). Stelpurnar spurðu mig svo hvort ég væri ekki til í að fara í smá roadtrip með þeim og ég lét nú slíkt tækifæri ekki úr greipum mínum renna. Við á bílaleigu og náðum í hinn ágæta Kia Rio sem var okkar í fimm daga. Morguninn eftir sóttum við svo hinn ávallt hressa Jeff frá Ástralíu og kúbverska hálfkærustu hans Jani. Þessi föngulega grúppa hélt síðan ótrauð af stað til Cienfuegos þar sem við tók einhver mesta leit að gistingu í manna minnum. Þannig er nefnilega mál með vexti að af einhverjum ástæðum mega bara vera tvö herbergi í hverju casa og einungis tvær manneskjur í hverju herbergi.

Þetta leystist þó þannig að við gistum í þremur mismunandi húsum í sömu götunni. Um kvöldið var auðvitað tekið í eitt stykki romm flösku sem var slátrað áður en haldið var á diskótek í plássinu. Þar var dansað og drukkið mojito þangað til að húsinu var lokað. Svona til að gera langa sögu stutta vöru næstu kvöld mjög svipuð; rommflöskur, dans og skemmtilegheit. Eitt kvöldið reyktum við síðan kúbverskan vindil sem var alls ekkert svo góður þrátt fyrir að vera kúbverskur. Eða kannski eru bara allir vindlar ógeð?

Á laugardagskvöldið komum við aftur til Havana og skiluðum bílnum. Kvöldið var mjög rólegt þar sem að Suzie átti flug eldsnemma um morguninn til Mexíkó og þaðan til New York. Þá vorum við Tali orðin ein eftir af hópnum góða. Næsta dag vorum við á röltinu og hittum mjög vinaleg systkini sem fóru með okkur á bar í nágrenninu. Þar drukkum við nokkra mojito, spjölluðum og reyndum að dansa salsa. Bróðirinn var mjög elskulegur að bjóða mér systur sína eins og ekkert annað væri eðlilegra. Svo þegar reikningurinn kom var mér ekki skemmt. Heilir 114 CUC sem samsvarar um 8000 kalli. “This is f***ing ridiculous” sagði ég en þá sagði bróðirinn “This a very famous place” við enduðum auðvitað á að borga þetta þar sem við nenntum nú ekki að lenda í einhverju veseni. Hrikalega svekkjandi að fólk hérna geti ekki bara verið vinalegt án þess að þurfa að kreista peningana út úr ferðamönnunum því ég veit að bróðirinn hefur verið að fá einhverja prósentu. Bölvað kvikindið.

Annars höfðum við Tali það bara gott síðustu daga í Havana. Áreitið hérna verður bara fyndið eftir nokkra daga þar sem óteljandi tilboð um vindla, taxa, veitingastaði, casas. “Hello my friend, where are you from?” var spurt mann á fimm skrefa fresti og við sögðumst alltaf vera frá Uzbekistan. Bara gaman það.

Í dag fann ég svo loksins Rúnar Berg sem lét frasa eins og „I don’t sell it cheaper than I bought it“ við snæðinginn og Tali yfirgaf mig og fór aftur heim til Ísrael. En á morgun förum við til Mexíkó. Það verður eflaust nýtt ævintýri.

Rúnar segir frá

Í morgun fór ég í messu í San Francisco el grande í Madrid. Kaþólsku messurnar eru ekki eins spennandi og ég hafði vonað. Þær eru meira svona að presturinn er blaðrandi eitthvað um föðurinn soninn og heilaga andann. Kvöldið áður hafði ég þar að auki skroppið á ísraelskt kvikmyndaþemakvöld í húsi fínna lista.

Jæja af þessum þrem kvöldum sem ég eyddi í Madrid fóru 2 seinustu í spænska bjórdrykkju. Madrid er ótrúlega samevrópsk borg. Eftirfarandi þjóðerni eru þau sem ég hitti þessi tvö kvöld: Spánn, Pólland, England, Írland, Svíþjóð, Þýskaland, Holland, Rúmenía, Danmörk og Frakkland, auk Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands. Á eina stelpu rambaði ég líka tvisvar á tvö mismunandi kvöld. Bea var hún kölluð, auðsjáanlega sænsk. Hún var líka þokkalega vinsæl hjá kyninu mínu, líklegast út af ljósa hárinu. Að mínu mati var nótt númer tvö í Madrid sú fjörugusta. En hún hófst á tveggja tíma göngu í leit að blúsi sem, þegar loksins ég komst á staðinn, var lokaður. Alveg dæmigerður ég líka því seinna komst ég að því að það voru 2 aðrir blúsar í kortersfjarlægð frá hostelinu. Ég ákvað nú samt að fara í bíó senna kvöldið frekar en blús. Þar sem maður kemst alltaf einhverstaðar á blús en það er svolítið sérstakt að horfa á ísraelskar kvikmyndir á Spáni, allavega hjálpar spænski textinn mér lítið að skilja hebreskuna. Bea, samt sem áður, kvaðst dást að hugrekkinu mínu. Að ferðast einn án þess að skilja tungumálið né hafa hugmynd um hvað ég eigi eftir að gera og samt sem áður kynnast nýju fólki, stunda kirkjur, pöbba og menningarviðburði með bros á vör.

Ég eldaði mér líka verstu máltíð sem ég hef nokkurntíman smakkað á ævinni. Þetta átti að vera einhverskonar hakk og spaghetti en þar sem eina kjöttegundin sem ég kann að bera fram á spænsku er carne de vaco (nautakjöt) varð ég að sætta mig við nautakjötssneiðar (frasaorðabókin mín hafði ekki orð yfir hakk). Þar ofan á var ekki til neitt smjör eða olía á hostelinu svo ég varð að steikja kjötið úr vatni, sem auðvitað brann fyrir vikið. Þess á milli sauð ég svo of mikið spaghetti og kartöflumús svo úr varð hin mesta drulla. Þegar ég ætlaði loks að koma þessu á matardisk sullaðist þetta svo út um allt. En sem betur fer var hostelið tómt svo enginn varð vitni að þessari travestíu.

Allt annað norm sem ég stundaði í Madrid er kannski ekki frásögu færandi, þar sem það var ósköp venjuleg borgarskoðun. Ég sparaði mér smá pening með að labba hana, sé ekki eftir því. Og svo fór auðvitað hellings peningur í að reyna að redda þessu bölvaða flugi. — En nú er því reddað.

Ég var þrjár nætur í Havana á meðan Skúli ferðaðist um landið. Mér líkaði eiginlega ekkert sérstaklega við borgina. Of mikil mengun er ástæðan þá aðallega túristamengun. Sökum hennar er ekki hægt að treysta neinum. „Vinur minn, hvaðan ertu?“ spyrja þeir, en eru á höttunum eftir því að þú borgir fyrir þá mojitos, borgir fyrir kynlíf með systrum þeirra, kaupir af þeim vindla (allir virðast vinna í vindlaverksmiðju), eða einfaldlega gefir þeim eitthvað, buxurnar þínar, tónhlöðuna eða einfaldlega peninga. Í rauninni eru 3 af hverjum fjórum Havanabúar sem yrða á mann að fyrra bragði að reyna að selja manni vindla, sem oftast eru þýfi eða gervi, hinir eru að reyna að plata mann í að gefa sér eitthvað.

Eftir 3 nætur í Havana er ég hér í Trinidad. Ég byrjaði að taka einfalda skoðunarferð um þessa merku nýlenduborg, þar sem fólkið í fátækar hverfunum hefur ekki einu sinni götur til að ganga á. Byggð af Spánverjum á 16. öld stendur hún nær eingöngu úr nýlenduhúsum. Og hér eru nær allir listamenn. Um kvöldið er ég staddur á trúbador. Tala þar við 3 sænskar stelpur sem eru í 3ja mánaða reisu um latnesku-Ameríku. Meðal annars ætla þær í Inkatrail mánuði á undan okkur Skúla. Spurning hvor ég eigi ekki eftir að hitta þær aftur seinna einhversstaðar í Gvatemala eða Nikaragva. Svo er það salsa. Ég er ekki maður í að taka þátt í dansinum en maður lifandi hvað fólkið hér dansar villtan dans.

Núna daginn eftir er ég ríðandi á hest í þjóðgarði skammt frá Trinidad. Þar er náttúruleg baðlaug með fossi og helli þar undir sem er líkara paradís en einhverju hér á jörðinni. Eftir gott bað er svo riðið aftur í borgina og fengið sér kennslu í salsadansi. Sú kennslu stund reynist hin mesta tímasóun. En rækjumáltíðin sem ég fæ eftir kennsluna er engri lík. Ég er ekki búinn að sitja lengi um mojito í casa de la música undir berum himni áður en blók kemur að mér og biður mér að gefa mér buxurnar sínar. Ég neita pent og horfi á villta dansinn að öðru sinni á meðan ég sit á spjalli við hollenskt kærustupar. Þjóðerni þeirra er engin tilviljun því í raun eru um 50% gesta evrópskir. Ég hafði rekist á diskó fyrr um kvöldið og finnst sjálfsagt að líta þar við eftir að salsanu líkur. Diskóið er staðsett í stærðar helli, sem gerir það mjög sérstakt. Helladroparnir rigna yfir mann á meðan maður er á dansgólfinu eins og ekkert sé eðlilegra. Að labba þangað er enginn hægðarleikur fyrir ölvaðan mann í sandölum, nefnilega liggur leiðin í gegnum þykkt hitabeltiskjarr sem Guð-veit-hvaða-skepnur leynast í. Heill á húfi panta ég mér bjór og sest á borð. Á borðinu við hliðin á situr svo verulega sæt stelpa. Eftir að hafa stappað í mér stálinu fer ég til hennar og býð henni upp í dans, á spænsku. „Sí“ segir hún, mér til mikillar ánægu. Þegar hún situr sem fastast eftir að ég hafði rétt henni höndina ítreka ég boð mitt, en átti mig þess í stað hversu ekkert ég kann í spænsku.

Ég geng í gegnum kjarrið í annað sinn og hitti svo nokkra strákpjatta að biðja mig um pening. „Nei!“ segi ég, „soy pobre,“ en nei fyrir þeim þýðir: „endilega þrengið meira upp á mig.“ Ég segi þeim að biðja frekar Kastró um pening en mig og upphef byltingu fyrir fólkið en hleyp loks burt eftir að þeir skipa mér að fokka mér.

Svo kemur nótt, svo morgun og loks nýr dagur. Skipulagsleysið nær nýjum hæðum þegar ég pakka í bakpokann minn og rölti af stað út í buskann. Leiðinn liggur mér-er-sama-hvert til eða frá Havana. Hitinn er óbærilegur og enginn bílar eru á götunni. Tók ég ranga beygju einhversstaðar? Er þetta bara einhver sveitavegur? Af hverju stoppar enginn fyrir mér? Ávaxtasali á götunni segir mér að það séu 80km í næstu borg. Kannski var þetta ekki svo góð hugmynd, þeir fáu bílar sem aka fram hjá eru fullir og þeir sem eru það ekki stoppa ekki.

En ég dey ekki, nei. Ég enda í Cianfuegos, þaðan sem ég tek taxa til Havana tveim dögum seinna. Í Cianfuegos geri ég mest lítið, tala við hippa og fer í leikhús sem er eitthvað það leiðinlegasta sem mun nokkurntíman gera.

Á tröppunum sit ég
í miðri Havana að bíða eftir
förunautnum.

Því einn hef ég ferðast.

Einn drakk ég í Madrid,
einn fór ég í hestbak í Trinidad,
einn dansaði ég í Trinidad,
einn lét ég plata mig í Havana,
einn húkkaði ég mér far til Cientfuegos,
og einn fór ég á ströndina í Cientfuegos.

En klukkan 3 verðum við tveir
í Capitulo í Havana.

Því tveir fljúgum við til Mexikó á morgun.

Havana – Tulum

Afslöppun, afslöppun…og já, auðvitað meiri afslöppun

4. október 2007

Frá því að við, undirritaðir, lentum á flugvellinum í Cancún, Mexíkó hefur ein tómstundariðja verið tekin fram yfir allt annað. Það er hengirúm. Og þegar við erum ekki liggjandi á hengirúmum erum við liggjandi á ströndinni. Í sannleika sagt er það ekki það eina sem við höfum gert síðustu vikuna, en er þó ekki langt frá því. Einstöku sinnum höfum við risið upp úr hengirúmunum (sem er hægara sagt en gert talandi af reynslu) og t.d. fengið okkur kvöldmat, náð í fleiri bjóra eða bara til að koma sér í háttinn. Svo og líka þessi ótalmörgu skipti sem við höfum farið að gera eitthvað skemmtilegt. Þar innan telst til dæmis sundferðir með köfunarpípur, skoðunarferðir til ævafornra indíánarústa og hellaskoðanir.

Við frændurnir sáum ekki fram á að geta notað kúbversku afgangspeningana okkar í neitt eftir að við færum þaðan svo við eyddum þeim öllum í 7 ára gamalt kúbverskt romm af bestu gerð, og gáfum svo afgreiðsludömunni í fríhöfninni ærlegt þjórfé fyrir afganginn. Og það var sko skálað um leið og fannhvítur strandsandurinn snerti okkar tuttugu tær í ferðamannanýlendunni á Kveney (Isla Mujeres). Daginn eftir var svo ljóst að ekki aðeins stútuðum við rommflöskunni, heldur kláruðum við líka fyllerískvótann næstu vikurnar. Og greyið Skúli varð óstarfhæfur daginn eftir því þar voru timburmenn að verki. Þann daginn var líka ekkert gert annað en að liggja á hengirúmum og ströndum til skiptis. Þann þriðja var Rúnar Berg svo óstarfhæfur vegna bruna. Og þann daginn brunuðum við um eyna á vespu milli þess sem við skoðuðum undur hafdjúpanna með köfunarpípu. Okkur báðum til furðu skiluðum við vespunni óbrotnir. Því það var svo sannarlega hlegið á götum úti af vankunnáttu okkar frændanna á þessu mótortæki.

Kveney er svolítið mjög sérstök eyja. Nokkrum kílómetrum út fyrir Cancún (sem er borg fræg fyrir pakka- útskriftaferðir með tilheyrandi álagningu) er Kveney meira bakpokaferðalanganýlenda með tilheyrandi hippamenningu. Það sem bætti svo við upplifun okkar heimsreisufarana á þessari eyju var stökkið frá Kúbu. Styttra en til Færeyja var flugið en samt mætti halda að við værum komnir á annan hnött. Hérna í Mexíkó er virkilega raunhæfur möguleiki að treysta fólki án þess að verða rændur, og ennfremur virðist fólk skilja að „no“ þýðir að maður vilji ekki láta þrengja meira að sér.

„Glætan að við séum í Mexíkó,“ var hugsun ofarlega í huganum á Kveney því okkur fannst við alls ekki vera staddir í Mexíkó þó við værum þeirra megin við landamærin. Svo við lofuðum okkur því að áður en við færum suður til Belís, myndum við dvelja í alvöru Mexíkó. Fyrst skoðuðum við þó eitt af hinum „nýju“ undrum veraldarinnar, Chichen Itzá. Þannig fögnuðum við mánaðarafmæli reisunnar. Greinilegar voru rústirnar ferðarinnar virði en ekki eins yfirgripsmikið og vonast var eftir. Eiginlega var aðalsmerki heimsminjanna, El Castillo (stærsti pýramídinn), eina markverða rústin sem hægt var að skoða. Og það má ekki einu sinni fara inn í hann (einhver blók reyndi víst í gamladaga að ræna steini úr pýramídanum sem skemmdi allt fyrir okkur hinum). Það hjálpaði mjög svo samt að við vorum komnir eldsnemma um morgunninn á undan bæði sólinni og, það sem mikilvægar er, öðrum túristum.

Seinna sama dag héldum við svo sunnar. Ekki alla leið til Belís, heldur til bæjar þar sem hengirúm er þjóðarsport. Tulum, heitir staðurinn. Að undanskyldri þeirri staðreynd að þessi pistill var skrifaður þar og einni hellaskoðun höfum við ekki stígið feti úr rúmunum sem hengd eru við tré. Fyrrnefnd hellaskoðun er ábyggilega sú áhugaverðasta sem við munum fara í í nánustu framtíð. Því þessi hellaskoðunarferð (Dos ojos heita hellarnir) var ekki farin á tveim jafnfljótum eins og venjan er þegar hellar eru skoðaðir, heldur með froskalöppum og köfunarpípu. Þessir hellar eru nefnilega fullir af ferskvatni, eða hálffullir réttara sagt, og því þarf maður að synda í gegnum þetta náttúruundur.

Framundan er lítið annað en meiri afslöppun því á morgun erum við hugsa um að fara til Belís, sem er víst eitthvað mest afslappaðasta land í heimi…

Tulum – Santa Elena

13. október 2007

Af hákörlum, innbrotsþjófum og meintum frumskógargöngum

Belís er smáríki í mið-Ameríku. Þar búa 295.000 íbúar af ýmsum kynþáttum, þá aðallega blönduðum afró-karabískum, indó-evrópskum og amerískum uppruna. Að vestri á landið landamæri að Gvatemala, að norðri er Yucatánskagi Mexíkó og í vestri er Karabíahafið. Belís er eina mið-Ameríkuríkið þar sem íbúar tala ensku, ef ensku er hægt að kalla því málið er líkara tælensku áheyrnar. Íbúar bera að mestu leyti innkomu sína af túrisma og erfiðisvinnu eins og skógarhöggi, sjómennsku eða bara lífið á götunni. Talað er um að yfir 30% íbúanna búi undir fátækramörkum. Margir velja jafnvel götuna yfir illa launaða erfiðisvinnu. Örvænting götulífsins, spilling yfirvalda og ráðandi hugmyndafræði um nauðsyn ofbeldis vinna saman að því að gera götur Belísborgar mjög hættulegar. Og já, Belís ber að varast

Við fórum örlítið seinna inn í Belís en áætlað var vegna þess að við kynntumst bara of svölu fólki í Tulum til að skilja það bara eftir sísvona. Englendingurinn (Spike), Frakkarnir (Vladi og Niko), Norðmennirnir (Erik og stelpurnar) og jafnvel Kóreubúinn (Han) voru svo öll farin á laugardeginum og hostelið samanstóð eingöngu af ísraelskum gestum (ætla má að Ísraelar séu þeir fjölmennustu í mið-Ameríku). Við gátum þó ekki búist við að hitta neina í Belís því stjórnvöld þar eiga víst eitthvað sökótt við þessa Guðs útvöldu þjóð.

Maður er nú ekki lengi að eignast nýja vini á ferðalögum. Við hittum Danina Anders og Jakob í chicken-bus á leiðinni til Belísborgar. Ef undirritaðir voru ekki nógu harðorðir um Belísborg áður þá lítur hún út eins og sumir hafa alltaf ímyndað sér Gvantanamófangelsið á Kúbu. Heyra má hótanir á götum úti, gaddavírar eru þar sem flestir myndu nægja að hafa runna, sjoppur og veitingastaðir vernda sig frá ránum með því að víggyrða starfsmenn og varning inni og svo er enginn púðluhundur sem sér um að vernda innbúin heldur mannvígur pitbull terrier. Úr einni sódómunni í aðra. Við frændurnir og Danirnir tveir fórum saman á bát til Caye Caulker næsta morgun. Og svei mér þá ef við vorum ekki komnir í minni útgáfuna af Kveney (Isla Mujeres sem lesa má um í fyrri pistlum). Eini munurinn er að í Belís er rigningatímabil og þá láta okkar líkan ekki sjá sig.

Dagur 1 í Caye Caulker:

Við fundum út að það væri ódýrast að deila allir fjórir einu herbergi og skelltum okkur síðan í köfun með kafpípu í nálægum þjóðgarði út á hafi. Við fengum að sjá þónokkuð marga kórala, og Skúli varð yfir sig glaður að fá að synda með stingskötum á stærð við stóra rakka. Ólýsanleg upplifun hreint út sagt.

Dagur 2 í Caye Caulker:

Rétt eftir að við vöknuðum fórum við strax aftur út á sjó. Í þetta sinn til að veiða fiska. Anders varð eftir á eyjunni þar sem hann er enginn sérstakur áhugamaður um fiskveiðar. Eftir að hafa veitt beituna með beitunni sem við veiddum til að ná í beituna var línunni kastað og beðið við stöngina. Og svo var beðið, og beðið meira og við vorum farnir að velta því fyrir okkur hvílík peningasóun þessi veiðiferð hafi verið þegar allt í einu var bitið á. Fyrsti fengurinn var hvorki meira né minna en hákarl dreginn í hlað af Rúnari. Jakob átti næsta feng, geddu. Og svo tók Skúli þrjár geddur í röð áður en haldið var í land. Ein geddan hans Skúla varð fyrir valinu í kvöldmatinn.

Dagur 3 í Caye Caulker:

Ef einhver dagur fór í að gera ekkert þá var það þessi. Fyrir utan að glápa á imbann og hlægja að bandarískum auglýsingum var mesta afrekið að standa upp úr rúmunum til að fara út á strönd.

Dagur 4 í Caye Caulker:

Það vöknuðu eflaust einhverjir gestir á hótelinu þegar fjórir ungir menn öskruðu eins og einhver væri kominn að myrða þá. Ástæðan fyrir öskrunum var skuggi sem sást hreyfast í einu hótelherberginu. Og undirritaðir verða að viðurkenna þátt sinn í þessum öskrum. Þeir vöknuðu við blótsyrði sem Anders lét út úr sér: „What the fuck are you doing here,“ litu við og sáu þennan skugga. Einn byrjaði að öskra, svo annar og loks öskruðu allir af lífs og sálar kröftum því í herberginu var óboðinn gestur sem líklegast ætlaði að gera sig líklegan til að ræna okkur á meðan við svæfum. Við teljum að öskrin hafi fælt hann burt því út lét hann sig fara um leið. Öndinni var varpað léttar eftir að gengið var í skugga um að allir væru óhultir og engum verðmætum hefði verið stolið. Skelfileg lífsreynsla.

„Bless bless Belís. Eitthvað mikið þarf að ganga á til að við komum til þín aftur. Halló halló Gvatemala.“

Chicken-bus (gamlir bandarískir skólabílar sem frægir eru fyrir óþægindi og þrengsli) í þrjá tíma að landamærunum og mini-bus, sem eru enn óþægilegri, í aðra þrjá tíma í frumskógarsveitina í El Remate. Anders og Jakob fóru með okkur. Þetta var eins og að ferðast aftur í tíman. Eldiviður var notaður til að elda, geitur og hænur voru í garðinum og til að komast í banka þurfti að taka rútu í borgina (Santa Elena).

Hin nýju sjö undur veraldar saman standa af Petru í Jórdaníu, Kriststyttunni í Ríó, Kínamúrnum í Kína, Machu Picchu í Perú, risahausunum á Páskaeyju, ? og Chichen Itzá í Mexíkó skv. einhverri bjálfalegri netkönnun. Hvers vegna Tikal er ekki þarna í stað Chichen Itzá er álíka stór spurning og hvernig Mayunum tókst að byggja þessa risapíramída í miðjum frumskóginum. Við ætluðum að sjá sólina rísa frá stærsta píramídanum í Tikal en chicken-bussarnir eru bara ekki áreiðanlegri en svo að við misstum af sólarupprásinni. En við vorum þó á undan túristastraumnum sem gerði þessa upplifun svo geðveika að undirritaðir ætla ekki að nota fleiri orð yfir hversu geðveikar þessar 800 ára gömlu rústir eru. Á toppi stærsta píramída frumskógarins, þegar undirritaðir voru að skoða, alsaklausir og gáttaðir á fegurðinni, eitthvert það magnaðasta útsýni sem fyrir finnst í allri Norður-Ameríku, læddust tveir Spánverjar að okkur sem við höfðum áður hitt á ströndinni í Caye Caulker og þar á undan deilt herbergi með í Tulum. Svo síendurteknar áhittingar fá mann til að hugsa hvort allir bakpokaferðalangar fari ekki sömu leið í gegnum mið-Ameríku, þ.e. (Kúba), Kveney, Tulum, Caye Caulker, Tikal, Flores, Cobán, Xela og/eða Antigua. Sem er nokkurnvegin leiðin sem við höfum ákveðið að ferðast. Þegar þessi pistill er svo skrifaður eru undirritaðir, ásamt Anders og Jakob sem við höfum ákveðið að ferðast með alla leið til Xela núkomnir úr tveggja daga „göngu“ um frumskóginn. Ó hve þvílík skógarferð varð sú frumskógarferð. Og við lærðum tvo nýja hluti ferðinni. Númer 1: aldrei skipuleggja ferð á máli sem þú skilur ekki og númer 2: Aldrei borga leiðsögumanninum allt saman fyrirfram. Þessi svokallaða ganga byrjaði á rútuferð. 15 sekúndu ferð á pallbíl að rútuskýli, svo fórum við með rútu hálfa leiðina til Belís. Þá biðum við eftir því að einhver svokallaður vinur leiðsögumansins myndi pikka okkur upp. Þegar við vorum búnir að bíða í 2 tíma eftir að þessi svokallaði vinur myndi birtast ákváðum við að labba síðustu 11km. Svo reyndum við að ganga í skugga um að við þyrftum ekki að ganga þennan veg aftur til baka, en þá kom í ljós að við þyrftum að greiða 1500 kall aukalega fyrir það sem aldrei var talað um í byrjun. Jæja, við settum heimferðina á ís, gerðum næturstöðvarnar tilbúnar og fórum af stað í það sem við héldum að yrði tveggja daga frumskógarganga. En nei, ekki í gegnum frumskóginn að þar sem hinir sterkustu komast af og hinir veikustu verða fæða jagúara og öskurapa, nei. Heldur í gegnum víða túristastíga gerða fyrir þá sem vilja skoða Mayarústirnar Yaxhá. Rústirnar voru fagrar (ekki jafn fagrar og Tikal en mun fegurri en Chichen Itzá) og sömuleiðis útsýnið yfir nærliggjandi lón, það verður ekki tekið af þeim. Og eftir að hafa gengið ósköp venjulegan hring í gegnum rústirnar, sem við hefðum getað gert sjálfir var sofið í hengirúmum í einskonar frumskógarkofum, sem var reyndar þokkalega svalt en álíka notalegt og að ríða úlfalda. Daginn eftir náðum við svo miður fallegri sólarupprás uppi á einum píramídanum því það var skýjað og reynt að fá út úr leiðsögumanninum hvert ætti að halda næst. „Tveggja kílómetra ganga, svo bíll næstu 11 og þar sem skoðað verður einn hlutur í sirka 30 mín. Og haldið heim með mini-bus,“ sagði hann. Við ákváðum að sleppa síðasta skoðunartúrnum eftir að komið var í ljós að þessir 11km. með bíl voru í raun ganga þar til pallbíll myndi taka okkur uppí (á vegi þar sem umferðin er 0,1 bíll á klukkustund). Og af þessari tveggja daga frumskógargöngu var gengið í gegnum þéttan skógartroðning í sirka tvær mínútur.

Þar til næsti pistill verður skrifaður eru nokkrir hlutir sem við frændurnir munum passa okkur að gera.

  1. Læsa alltaf herbergjunum áður en við förum að sofa<
  2. Halda okkur fjarri Belísborg
  3. Læra spænsku
  4. Borga aldrei fyrir túr fyrirfram
  5. Ráða ekki heimskan leiðsögumann
  6. Eignast helling af vinum, skemmta okkur, lenda í fleiri ævintýrum og gera hluti sem aðrir geta ekki látið sig dreyma um að gera svo lengi sem þeir halda sér á klakanum.

Santa Elena – Xela

Tajamulco, Champuche og fátækir Mayabændur

24. október 2007

Frá því síðast hafa þeir frændurnir verið í tvennu lagi, en samt ekki. Frá Flores fóru þeir með Dönunum Anders og Jakob til Kobán og í Kobán fóru þeir í tvær mismunandi ferðir. Anders, Jakob og Skúli fóru í dagsferð að skoða mjög sérstæð lón á meðan Rúnar Berg fór í þriggja daga sveitaferð í nálægum hverfandi skýjaskógum. Allir hittust þeir svo aftur í Quetzaltenango, eða Xela, sem er önnur stærsta borg Gvatemala með 110.000 íbúa í 2300 hæð yfir sjávarmáli. Daginn sem Rúnar kom svo seinastur til borgarinnar voru hinir þegar búnir að koma sér fyrir á þrem mismunandi stöðum og sóttu allir spænskuskóla á meðan sá sem seinna kom ákvað að sleppa honum og koma sér fyrir á fjórða staðnum í borginni. Því voru þeir allir dreifðir um borgina en hittust þó reglulega. Síðasta laugardag sameinuðust Rúnar og Anders fjallgönguföruneyti sem saman stóð af níu öðrum þátttakendum og fjórum leiðsögumönnum í sjálfboðastarfi. Skúli og Jakob fundu fyrir veikindum og slepptu því göngunni en síðar kom í ljós að Jakob var hrjáður sníklum og var settur á 6 mismunandi lyf næstu fimm daga. Gangan tók 2 daga, þar var tjaldað í 4000 metra hæð, vaknað klukkan þrjú um morguninn gengið síðustu hundruð metrana og horft á hina undurfögru sólarupprás frá hæsta punkti mið-Ameríku, Tajamulco. Skúli og Jakob voru komnir með nóg af þessari borg og litu svo á að spænskan og slappleiki varð þeim um megn svo þeir flúðu að vatninu Lago Atitlan 2 dögum fyrir áætlun á meðan Anders og Rúnar, nýkomnir niður fjallið, skemmtu sér konunglega með fjallgönguföruneytinu næstu tvö kvöld.

Það sem Rúnari fannst merkilegast við Tajamulco var hversu íslenskt landslagið var. Þessi gígantíski gígur er meira svona 4000 útgáfan af Íslandi. Þar fyrir utan þótti honum mikið koma til sólarupprásarinnar sem og fannst honum merkilegt útvarpsmastrið merkilegt þar sem það var notað til að senda upplýsingar til skæruliða í borgarastyrjöldinni, því þarna stóðu þeir af sér veðrir í þessum öfgaskilyrðum sem veðrið og hæðin halda við. Það er ekki hægt að hætta að tala um þessa ferð nema að gefa ferðaskrifstofunni Quetzaltrekkers hrós.

Eins og áður kom fram fór Skúli í dagsferð að undrafallegum lónum að nafni Champuche með Dönunum tveimur. Það sem var merkilegt við þessi lón var að þau mynduðust þar sem feiknarstór á rann neðanjarðar 300 metra. Leiðsögumaðurinn okkar fór með okkur niður sleipan stiga inn í hellinn þar sem áin rann með ógnarkrafti. Á íslandi hefði maður verið bundinn, með hjálm og örugglega björgunarvesti líka en ef maður hefði misst gripið biði ekkert annað en dauðinn fyrir neðan. Fyrir utan þessa dagsferð hefur Skúli gert lítið annað en að liggja og lesa eða glápa á sjónvarpið sökum veikinda.

Nú er bráðum tími til að kveðja Gvatemala. Mér þykir það leitt því mér finnst vera svo margt sem þarf að gera fyrir þetta land, og það sem verra er að mér finnst ég geta hjálpað en geri það ekki af einhverjum ástæðum. Í þessu tilviki er það ég, Rúnar Berg sem talar í 1. pers. et. Það er gild afsökun að ég hélt í þessa ferð í þeim tilgangi að ferðast en ekki til að stunda sjálfboðastarf. Það er líka afsökun að ég veit að ég þarf að halda mér innan tímamarka. En samt líður mér illa. Ég hef það á tilfinningunni að landið eigi bara eftir að halda niður á við. Þið hafið eflaust öll heyrt í fréttunum ykkar um Pérez Molina forsetaframbjóðandann sem lofar þjóðaröryggi með hreyfanlegu hervaldi innan borgarmarka. Fréttirnar ykkar sögðu líka eflaust að þessi maður var gerður útlægur frá Gvatemala vegna þátttöku hans í þjóðarmorðunum árið 1982 og mætti því með réttu ekki einu sinni bjóða sig fram. Fátækur, upplýsingasnauður og örvæntingabrenglaður almúginn kýs þennan mann og hann mun að öllum líkindum sigra og opna veginn að hækkandi dánartíðni (sem þó er allt, allt of há í augnablikinu) því hann veit ekki betur og enginn er að gera neitt til að upplýsa hann. Á meðan friðarverðlaunahafi Nóbels, Menchú, fær fæst allra atkvæða. En eins og ég segi, er ég ábyggilega ekki að segja neitt nýtt því fréttirnar ykkar eru eflaust búnar að fjalla um þetta margoft.

Í sveitaferðinni minni kynntist ég svolitlu sem ég mun eflaust aldrei gleyma. Alvöru fátækt. Ég borgaði óháðum samtökum einhvern pening fyrir að vera milliliður í að koma mér þangað. Þessi samtök vinna að því að bjarga skógum frá rányrkju. Því í þessum darwiníska heimi þar sem fátækir eru dæmdir til að verða fátækari er engin leið fyrir bændur af indíánaætt upp á fjöllum að lifa nema annaðhvort að snúa aftur í 100% sjálfsþurftarbúskap eða rækta meiri maís. Til að rækta meiri maís þarf að stækka ræktlandið og eina leiðin til að gera það er að brenna skóga. Vesturveldin eru ekki reiðubúin að borga sanngjarnt verð fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir frá fátæku Ameríku og því mun það ávallt verða skógurinn sem mun lúta í lægra haldi því brátt mun hann hverfa allur ef ekkert verður að gert. Það sem fyrrnefnd samtök vinna svo að er í meginatriðum að borga bændum fyrir að láta skóginn eiga sig. Þau þjálfa karlmennina á bóndabæjunum sem leiðsögumenn og fá svo túrista til að borga fyrir þjónustuna. Ef skógarnir myndu hverfa, hefðu bændurnir ekkert til að sýna túristunum og því myndu þeir verða af þessu dýrmæta fé sem við komum með. Lífsskilyrðin eru hræðileg sem þau búa við. Sá nálægasti vegur er vart hægt að kalla veg, samgöngur á honum eru stundaðar aftan á pallbíl þar sem fólk hrúgast saman, en fyrst þarf þó að ganga í sirka 2 tíma til að komast á veginn frá bænum. Bærinn er meira átta plankar með bárujárni hér og þar heldur en alvöru hús. Við það er ekkert rafmagn tengt og fyrir hvert sólsetur þurfa börnin (tveggja til átta ára) að ganga þó nokkra vegalengd til að sækja vatn. Svo þarf að sækja brennivið, mala tortillur og fullt af annarri erfiðisvinnu. Mér var tjáð að flest börn nái í gegnum þriðja bekk hér í Gvatemala og byrja svo jafnt og þétt að týnast burt frá menntaveginum. Eina skemmtunin þeirra, var fótbolti. En í svo mikilli fátækt verður að nota samanbundna plastpoka.

Ég hitti stelpu á hostelinu sem vinnur sjálfboðaliðastarf í svona sveit eins og þessari. Hennar starf er að upplýsa fólkið um alnæmi, svo virðist sem stjórnvöld séu óviljug til verksins. Umheiminum er sama um þetta land svo lengi sem landbúnaðarafurðirnar haldast lágar í verði og þau einu sem vilja eitthvað gera eru ungmenni sem hafa fengið nóg af því að vera stöðugt sagt hversu dásamlegur heimurinn sé. Ég er búinn að ákveða að í næstu ferð set ég mér engin tímamörk, engar fyrirfram pantaðar ferðir eða bókaðir áfangastaðir. Þá ferðast ég bara með flugvél til einnar borgar og vinn út ferðina þaðan. Ef ég hefði gert það svoleiðis núna væri ég bókað lengur hér í Gvatemala að leggja mitt af mörkum.

Við kveðjum þennan pistill með því að upplýsa lesendur um þá staðreynd að hann er skrifaður á 21 afmælisdeginum hans Rúnars, þann 24. okt. sem einnig er kvennafrídagurinn og því óskum við öllum konum til hamingju með daginn með baráttukveðjum frá Gvatemala.

Xela – Utila

Af hæstu tindum niður á dýpstu dýpi

05. nóvember 2007

Með meirihlutann hrjáða timburmönnum skröltu þeir með túristarútu frá Atitlánvatni til Antigua. Mikil afmælisveisla var að baki. Hjólreiðaferð um hina stórhættulegu vegi í kring um vatnið í umhverfi þar sem ekki einu sinni heimamenn nota vegina því bæði eru rán þar sem fátækir glæpamenn miða byssu á bifreiðar og reiðhjól saklausra vegfarenda. „Never, ever, ever take the bus,“ segja þeir og ráðleggja manni að taka bátinn sem er hvort eð er fljótari yfir. Rúnar og Anders þrjóskuðust samt og uppskáru drulluveg sem hinir íslensku torfærubílar ættu í basli með að drífa. Þar sem þetta var verst fór vegurinn í 60 gráðu halla upp 5–600 metra háar brekkur. Fleiri en ein, „en það afmæli.“ En þegar litið var á fegurðina og afrekið er hægt að fullyrða að þetta var allt þess virði. Báturinn heim og beint á fínan veitingastað til að halda upp á afmæli. Þaðan á dúndrandi fyllerí, allir saman, því Rúnar Berg var orðin tuttugu og eins árs maður.

Sammála voru þeir um eitt. „Antigua er megaflottur staður. Gallinn er bara að bakpokalingur þarna er 100% líklegur til að fá anorexíu.“ Slíkt er maturinn dýr að sögur fara upp í 450 kall fyrir hamborgara með frönskum plús 70 kall fyrir kók. Þvílíkt og annað eins rán. Og ferðin hélt áfram. Næstu daga áttu fjórmenningarnir eftir að eyða mestum sínum tíma sitjandi í ókristilega löngum rútum því þangað sem ferðinni var heitið voru x margir kílómetrar sem samsvarar samanlagt 17 klukkutímum í samgöngureiðum, deild niður í 2 til 3 daga. Stopp var planað í Cobán rústunum Hondúrasmegin landamæranna þaðan sem Skúli og Jakob skoðuðu aðrar merkilegustu (að sögn sérfræðinga) Mayarústirnar. Sammála voru þeir um að þessar rústir væru ekki peninganna virði að sjá. Annað stopp í La Ceiba var þeirra eini valmöguleiki því ferjan til Roatán (sem er ein þriggja Flóaeyja, þekkt fyrir ódýrustu kafanir heims) hafði verið felld niður vegna veðurs. Næsta morgun var henni aftur frestað og það var ekki fyrr en um kvöldið sem þeir komust til Roatán. Langri ferð var loks lokið. Eða hvað? Næsta morgun tóku þeir meðvitaða ákvörðun að Roatán, eða allavega West End, væri ógeðslegur staður sem kostaði allt of mikið að vera á. Ferðinni var því heitið til baka til La Ceiba, og frá La Ceiba með ferju til Utila, sem er önnur eyja í Flóaeyjaklasanum sögð henta bakpokalöngum betur.

Ef enginn hafði getið sér til um þá var tilgangurinn með þessu langa ferðalagi langt út úr leið að kafa. Og það höfum við frændurnir líka stundað af kappi, núna er Skúli lengra kominn kafari og Rúnar náði sínu fyrsta köfunarleyfi sem virðist ekki ganga með öllu eins og það ætti því maðurinn verður alltaf súrefnislaus. Og nú þegar þessum punkti ferðarinnar er búinn fer öðru tímabili að ljúka. Við frændurnir höfum 6 vikur til að komast til Lima og á leiðinni eigum við eftir að sjá Amazón regnskóginn, Ekvador, Kólumbíu, Panamaskurðinn, Kosta-Ríka, Nígaragúavatn og Trujillo sem er staðurinn sem Kólumbus landaði fyrst að meginlandi Ameríku og svo náttúrulega allt það sem er á leiðinni þangað. Svona þröngur tímarammi kostar fórnir. Frumskógarsvæði hérna aðeins Austar sem kennt er við bölvað moskítókvikyndið er til dæmis ein af þessum fórnum. Í stað þess að fara í gegnum þennan svo til seinasta alvöru frumskóg mið-Ameríku eins og Jakob ætlar sér, þá förum við túristaleiðina til León í Nígaragúa með rútu á stórum fjölförnum vegum sem einhvernvegin hljómar ekki jafn spennandi og að fara til León í Nígaragúa aftan á pallbíl eða pramma í gegnum þröngan og fáfarinn frumskóg.

Eftirsjáin er ekki eini óvinurinn sem við höfum eignast. Enn skæðari eru bölvaðir skorbastarðarnir og sýklarnir sem aldrei geta látið okkur í friði þó ekki væri nema í einn sólarhring. Jafnvel þó við gefum þessum bölsköpum þeirra lífsviðurværi halda þau áfram að eitra í okkur magann, smita okkur af þessum óteljandi viðbjóðssjúkdómum sem þau bera og skilja okkur loks eftir í skítnum þeirra með blóðrautt og útklórað skinn svo ekki sé minnst á heilu metrana af bólum á okkar hvítu og viðkvæmu húð. Ég sver til skaparans að ef eitthvað af þessum bastörðum svo mikið sem hugsar sér að smita mig af malaríu, þá mun ég efna til helferðar og mun ekki hætta fyrr en síðustu pörin eru komin í rannsóknarstofu bandaríska sjóhersins í Panama. Og eins og alltaf er það Skúli sem lendir í ýkjunum. Eftir talningu komu yfir 70 bit í ljós bara á bakinu, þau minnstu 3 millimetrar í radíus og þau stærstu yfir 30. Og maðurinn er nýbúinn að jafna sig eftir væga sýklaárás sem stóð yfir í meira en 2 vikur samfleytt.

Á okkur frændurna hefur rignt síðan við stigum fæti yfir landamærin til Hondúras. Við stigum líka beint inn í rigningatímabilið hérna. Þökk sé þessari stanslausu rigningu verða tafirnar á ferðinni enn meiri, óvissa með ferjur aftur á meginlandið og frestun á köfunum sem fylgdu námskeiðunum. Skúli kláraði sínar kafanir fyrir löngu, í einni gekk skjaldbaka að honum neðansjávar eins og ekkert væri eðlilegra og í annarri skoðaði hann risa stórt flak á 30m. dýpi. Á meðan bíður Rúnar eftir að rigningunni linni svo hann gæti fengið að upplifa svipaða hluti. Hefðum við samt verið á Haítí núna hefðum við sennilega eitthvað meira til að kvarta yfir en bara rigningu. Sömuleiðis hafa aðrir bakpokalangar lent í krappari aðstæðum en við þó svo að hann var ansi krappur þegar við fengum heimsókn frá innbrotsþjóf í Belís. Til dæmis lentu Danir sem við hittum hér í Utila í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að rútan þeirra var stoppuð og ræningjar gengu inn miðandi byssum á farþegana og hirðandi allt fémætt af þeim. Annar Daninn var heppinn að einn ræninginn var nógu miskunnarsamur til að skila honum aftur vegabréfinu eftir að hann spurði um það. Þetta eru hlutir sem maður þarf stöðugt að óttast í fátæku löndunum og ekki er hægt að hætta fyrr en aftur heima á frónni.

Utila – León

Góð ferð upp eitt eldfjall, steypuferð niður annað: Rúnar Berg

13. nóvember 2007

Þegar síðasti punkturinn var settur aftast við síðasta pistill höfðum við frændurnir nýlokið sitthvorri gráðunni í köfun. Sú köfun var eftir vonum og hin mesta skemmtun þó annað, t.d. veður og árásir annarra lífvera á okkar auma líkama, fór miður. En þó ætluðum við ekki að vilja sætta okkur við að við karabíska hafið er rigningatímabil og við megum búast við rigningu hvenær sem er á meðan við dveljumst þarna. Svo við fórum frá Flóaeyjum til meginlandsins og ókum vesturettir meðfram strandlengju Hondúras til staðs sem nefnist Trujillo í grenjandi rigningu alla leiðina og á móti okkur tók (en ekki hvað?) grenjandi rigning. Annar af Dönunum tveim sem ferðast hafa með okkur í yfir mánuð gerði ekki einu sinni tilraun til að flýja rigninguna og var eftir í Utila, Flóaeyjum, og verður þar fram í desember til að læra köfunarmeistarann. Þegar hann hefur lokið því mun hinn Daninn, Jakob, bíða eftir honum í Kostaríka. Þá, á hinn bogin, eigum við frændurnir stefnumót við Suður-Ameríku sem þýðir að við höfum sagt skilið við Anders. En Jakob mun ferðast áfram í sömu rútu og við allt til Kostaríka þar sem hann áformar að dvelja þar í yfir mánuð.

En nú að meginlandinu. Það eina sem Skúli og Jakob geta sagt um Trujillo, sem er einhver merkilegasti staður Mið-Ameríku hvað sögu varðar, er að þeir hafa verið þarna. Þarna steig Kristófer Kólumbus fyrst fæti á meginland Ameríku, þarna voru sjóræningjaárásir svo tíðar að bærinn var margsinnis rændur, brenndur og jarðaður við jörðu og þarna var ævintýramaðurinn William Walker líflátinn og grafinn eftir misheppnaða valdaránstilraun yfir alla Mið-Ameríku. Vegna rigningar tóku Skúli og Jakob þá meðvituðu ákvörðun að flýja til Kyrrahafsins með fyrstu mögulegu rútu næsta dag. Ég ákvað samt að bíða með að taka rútu þar til eftirmiðdegið. Morguninn notaði ég svo til að skoða öll þessi sögulegu undur sem bærinn hafði að bjóða.

Það var hægara sagt en gert að flýja regnið. Það tók fjöldan allan af kílómetrum og ein landamæri. Alls tók ferðin 2 sólarhringi með 4-7 rútum (eftir hversu mikið menn voru reiðubúnir að borga fyrir). Og þegar birti til vorum við staddir í hinni einu sönnu höfuðborg byltingarinnar.

Það er mjög erfitt að fara héðan frá León. Ég er núþegar búinn að vera hér í 9 daga sem er allt of mikið miðað við tímamörk. Um daginn var karníval, daginn eftir voru haldnir stórtónleikar, svo kom annað karníval nema þann daginn renndum við Skúli okkur niður virka eldfjallið Cerro negro, bjórinn hefur verið drukkinn, rommið hefur verið blandað og salsað hefur verið spilað (í bland við miður gott reggíton) og dansinn hefur fylgt hvert einasta kvöld, ef undanskilið er kvöldið í gíg virka eldfjallsins Telica (meira um það síðar). Svo hef ég heimsótt merkileg söfn og kirkjur. Þar má nefna stærstu kirkju Mið-Ameríku og byltingarsafnið (sem er meira fjórir veggir allir útataðir í úrklippum, ljósritum og myndum frá byltingunum auk eins byltingarsinna sem gæti þess vegna verið bróður Daníels Ortega eða sonur Che). Svo hefur mér líka margoft verið boðið að vera sagt sögu Níkaragva þar sem einn Leónbúi gengur um göturnar og útskýrir fyrir mér hvernig þau fjölmörgu málverk sem er búið er að mála um borgina tengjast sögu þessa lands. Á síðasta hluta seinasta málverksins sem mér var sýnt var mynd af tveimur krökkum sem hlupu, haldandi í hendur, út í óvissuna í engi sem hafði tekið við vopnunum sem lágu á víð og dreifð í blóðugri eyðimörkinni. Um þessar götur í dögginni má maður líka heyra trommuslátt. Það er trommusláttur sögu Níkaragva. Þrír krakkar, sem klæddir eru í búninga eftir aldagamalli hefð, dansa við þessa trommuslætti og segja sögu þeirra lands bundna í rímu. Svo er það bara ströndin, sólin, kaffið, vindlarnir, rommið og ekki síst fólkið sem gerir León að uppáhaldsstaðnum mínum hingað til.

En það er ekki allt búið enn. Í næsta nágrenni eru fjöldinn allur af virku eldfjöllum og sem Íslendingur má ég ekki missa af þeim. Ég prílaði á tvö þeirra. Það fyrra, Cerro negro, fór ég með Skúla og öðru liði með pallbíl að rótum fjallsins. Þar var okkur fært sleða og búninga til seinni tíma nota. Svo hófst prílið að óvirkum gíg fjallsins. Ekkert að sjá þar sem maður hefur ekki séð áður, nema útsýnið frá kolsvörtum 400 hólnum yfir græna akrana sem ná útfyrir sjóndeildarhringinn. Svo var virki gígurinn sóttur heim og sömuleiðis var þar ekkert nýtt að sjá fyrir Íslendingana. Því næst safnaðist hópurinn saman, sleðarnir settir á jörðina, við í búningana, við á sleðana, „Ohh, you’ve got one of the Ferrari ones,“ segir leiðsögukonan, „Ðets kommfortíng tú nóf,“ svara ég horfandi niður 400 brekku með 4550 halla, mér ýtt, ég renn niður, ég fer hraðar, og hraðar og hraðar, sleðinn byrjar að vagga, ég er kominn niður í miðja brekkuna, og enn eyk ég hraðann, sleðinn vaggar meira, ég sé jörðina nálgast allt of hratt, enn eyk ég hraðan og sleðinn heldur áfram að vagga, ég fell á hliðina, sleðinn flýgur í loftið eins og aldrei fyrr, ég rúlla og flýg í sömu átt og sleðinn, einn hringur, tveir hringir, kastast í loftið, lendi á bakinu, og renn svo næstu 20m. með hausinn á undan. Einn andardráttur, tveir, „hjúff, ég er á lífi,“ þrír, „Ég verð að standa upp og vona að enginn hafi séð þetta. Ég dríf mig niður og lít á sárinn, þetta eru bara einhverjar skrámur. Næstur er Skúli. Og niður fer hann eins og hann hafi aldrei gert annað alla sína ævi, ólíkt mér, á sleðanum allan tímann.

Seinna eldfjallið, Telica, var ekki jafn mikið ævintýri, þó mér hafi tekist, eflaust fyrstur manna að fara í vímu af greipaldin. Gangan að toppnum var erfið en gígurinn, sá stærsti sem ég hef séð, gerði þetta allt þess virði. Í dögginni mátti til dæmis sjá fljótandi hraun og í dögun voru þau risa þverhnípi sem umlykja virka gíg fjallsins drungalegri en Látrabjarg getur nokkurtíman látið sig dreyma um. Í þennan gíg var venjan að kasta fólki með „hættulegar“ stjórnmálaskoðanir niður úr þyrlu í einu af þeim fjölmörgu borgarastyrjöldum sem þetta land hefur þjáðst af.

Og svo var líka einn menningarviðburður sem ég sótti heim til viðbótar við karnívalin, pöbbatónleikana o.s.frv. Það voru stórtónleikar fyrir stúdenta. 20þús. manns, ef ekki meira. Og tónleikarnir fylltust. Ég fór með hostelhóp að tónleikunum til að komast að því að þeir voru girtir inn. Allt í lagi, ég get keypt mér miða. Nei! No puedo, svæðið er fullt og það verða ekki seldir fleiri miðar. Þrjóskan skyldi mig svo einan eftir, eftir að restin af hostelinu var farin á einhvern pöbbinn. Ég varð að komast inn, þetta leit svo skemmtilega út og ég var alvarlega farinn að ganga hringi í kring um tónleikasvæðið til að reyna að finna út hvar væri best að hoppa yfir, troða sér undir eða múta öryggisvörðum. Eftir að hafa komist að því hversu mikil gunga ég er fór ég líka og hitti restina af hostelpakkinu á einum af fjölmörgum pöbbum í León.

Hvað Skúla varðar, sem hefur algjörlega vantað í þennan pistil, er hann núna staddur með Dananum Jakob við Kyrrahafsströndina í San Juan del Sur og mun að öllum líkindum segja sinn pistill við tækifæri.

Utila – San José

29. nóvember 2007

Níkaragva er schnilld!!: Skúli

Eftir að við Jakob yfirgáfum Rúnar Berg í rigningunni í Trujillo tók við okkur í León sólskin sem við höfðum ekki séð í fjölda daga. Við tjékkuðum okkur inn á eitt það besta hostel sem ég hef nokkurntímann gist á. Þarna myndaðist nokkuð stór vinahópur sem innhélt ásamt okkur Jakobi norðmennina Zirek og Stian, Svíann Johan og bretana Emmu og Juliu. Eins og Rúnar sagði var León alveg yndisleg borg þar sem lítið annað var gert en að liggja á sundlaugarbakkanum á daginn og kíkja á næturlífið á kvöldin sem var alveg hreint meiriháttar. Það eina slæma sem ég hef að segja um León er að þar var ég rændur. Eitt kvöldið var myndavélin mín horfin úr vasanum og klukkustund seinna var veskinu einnig rænt. Ég var nú bara svekktur með sjálfan mig að hafa ekki passað mig betur og þrátt fyrir þessi leiðindi er Níkaragva langhæst á listanum yfir uppáhaldslandið í þessarri reisu hingað til.

Nokkrum dögum seinna fór svo öll grúppan saman til San Juan Del Sur, sem er lítill strandbær við vesturströnd Níkaragva. Þarna vorum við í 9 daga. Fjóra af þessum dögum gistum við norðurlandabúarnir á hosteli á ströndinni burtu frá allri siðmenningu. Á morgni hverjum var vaknað um 8 leytið, farið beint að sörfa þangað til að sólin settist. Þá tók eldamennskan við. Fyrsta kvöldið tókum við til að sjóða pasta og sáum nokkra krabba hlaupandi um svæðið. Einhver fékk þá frábæru hugmynd að veiða nokkur stykki og henda í pastað sem og við gerðum. Ég hef aldrei skemmt mér jafnvel við að elda máltíð. Krabbarnir voru nú ekki lengi í pottinum því einhver sagði okkur að þetta væru landkrabbar sem nærðust á rusli. Meðan við vorum að borða krabbapastað skriðu um 30 stykki af litlum skjaldbökum upp úr holu rétt við fætur okkar og var það mjög skemmtileg upplifun. Ég stakk upp á því í gríni að skella einni eða tveimur í súpu. Ekki allir föttuðu húmorinn. Annars var lítið gert í San Juan nema sörfa, vörka tanið á ströndinni og drekka flor de Caña á kvöldin. Reyndar fórum við í eina veiðiferð, veiddum ekkert en komum samt heim með nokkuð stóran fisk sem lókal fiskimenn gáfu okkur. Fiskurinn nærði tólf manns og ennþá var nóg eftir fyrir a.m.k fjóra í viðbót. Helvíti góður fengur þar á ferð.

Í gær kvöddum við strákarnir svo Emmu og Juliu og héldum til Kosta Ríka þar sem ég er einmitt staddur núna.

Rúnar Berg hef ég ekki séð í einhverjar tvær vikur og hef ekkert heyrt frá honum í nokkra daga, þannig að ég hef ekki hugmynd um hvar drengurinn er staddur í Ameríkunni. Á morgun eða hinn ætla ég að halda til Panamaborgar og fjárfesta í nýrri myndavél og þaðan fljúgum við Rúnar til Ekvador þann fjórða desember.

bið að heilsa í bili

Kær kveðja frá Kosta Ríka,
Skúli

Leon – Panamaborg

Leiðin til Panama

6. desember 2007

Rúnar

Skúli er enn í burtu, klukkan er hálf sjö fimmtudaginn 29. nóvember og ég er að bíða eftir bát sem ferjar mig yfir stærsta stöðuvatn Mið-Ameríku eða Níkaragvavatn. Bátsferðin mun taka 10 tíma og að henni lokinni mun ég kveðja tvær aukapersónur í þessum leiðara sem ekki hafa verið kynntar áður. Aukapersónurnar nefnast annars vegar Mark og hins vegar grænmetisætan (ekki sú fyrsta og ekki sú seinasta sem ég hitti) Will, eða Bretarnir eins og ég hef verið að kalla þá. Í fjarveru Skúla hef ég ferðast með þeim síðan í León. Okkar fyrsta verkefni var að koma okkur úr León til Granada í gegnum höfuðborgina Managua. Ekki mjög erfitt það. Næsta verkefnið var að koma okkur að áður kynntu Níkaragvavatni og sigla um til að skoða eyjarnar þar m.a. Apaey þar sem einhverjum vitleysingjum datt í hug að fanga apa á til að sýna túristum. Ég og grænmetisætan Will réttlættum skemmtun okkar á þessum öpum með því að trúa því innst í hjarta okkar að þeim hafi verið bjargað úr hendi veiðiþjófa sem ætluðu að selja þá til tilraunastofu ónafngreinds kanadísks álfyrirtækis, svo og skoðuðum við tvær eyjar með villum ríkasta manns Níkaragva, sá kauði á víst eðalrommfyrirtækið Flor de Caña. Við heimkomu kynntumst við þrír kanastelpu að nafni Celeste og tríóið varð kvartett. Næst skoðuðum við eldfjall að nafni Masaya sem er reyndar þekktara fyrir nærliggjandi bæ sem hefur frægasta handiðnaðarmarkað Níkaragva. Reyndar var hvorugt spennandi nema þá ein hengirúmskaup (sem ég álít lífsnauðsyn) og sú staðreynd að í virka gíg Masaya eldfjallsins var fólki með „rangar“ stjórnmálaskoðanir varpað niður úr þyrlu fyrir ófáum árum síðan, maður gat reyndar ekki séð neinar beinagrindur en ég efa það ekki að slíkt væri hægt ef ekki væri fyrir eiturgufunum sem stíga úr gígnum. Risastórt gígvatn að nafni Apoyo var síðast á dagskránni áður en við fjögur plús norsk stelpa að nafni Ellen ætluðum til Omitepeeyju (stærstu eyju Níkaragvavatns sem samanstendur af tveimur eldfjöllum sem bæði ná 1000 metrum yfir sjávarmál). Ellen hafði ég reyndar hitt þrisvar áður og átti samt erfitt með að þekkja hana í fjórða skiptið (svo skelfilegur er ég með andlit og nöfn). Við Mark sáum tvo kajaka við höfn tilbúna til afnota og auðvitað brúkuðum við þá. Fórum þvert yfir gígvatnið, klukkutíma hvora leið, vissum það náttúrulega ekki þá að gígvatnið væri svona stórt. En tilfinningin var æði, við höfðum yfir kílómetra radíus fyrir okkur eina á spegilsléttu vatninu með frumskóginn í allar áttir þar sem fuglar sungu og apar öskruðu. Tvímælalaust tilefni til gæsahúðar. Það var líka fleki nær landi þar sem við öll lágum saman í sólbaði með romm og ananas þar til sólin settist. Daginn eftir kom svo ekkert annað til greina en að taka eina blöndu af pramma og tjikkenböss yfir á fyrrnefnda Omitepeeyju.

San José

Hinn meðal bakpokalingur sem kemur til San José, Kostaríka segist annaðhvort hafa orðið þunglyndur í borginni eða hissa. Hinir tveir fræknu frændur voru sammála um að vera hluti af þeim seinni. Borgin lítur út eins og flestir hafa ímyndað sér New York. Miðbærinn ku vera allur út í fjögra til sex hæða glerbyggingum sem bæði skyggja á sólina og láta mann halda að borgin sé 20 ára gömul en ekki 200. Stórar og breiðar umferðagötur aðskilja hverfin í sundur og íbúarnir ganga um göturnar talandi í gemsana sína, hlustandi á tónhlöðurnar sínar eða horfandi á fæturna sínar algjörlega úr sambandi við umheiminn í kringum sig. Kannski eins og Reykjavíkurborg er á leiðinni að verða. En hinir tveir fræknu frændur litu á San José sem einhverskonar vestrænt frí frá þróunarheiminum. Þar sem unaður á borð við heitar sturtur, nútímalist og rokktónlist var nýttur til hins ýtrasta eftir tvo mánuði í kaldri sturtu, horfandi á fjöldaframleitt túristalistarusl og reggítón sem hafði verið fast á heilanum síðan forever. San José hefur það líka framyfir borgirnar í nágrannaríkjunum að þar er maður ekki stöðugt angraður af öskrandi tjikkenbössaðstoðar- og snakk- og vítamínsölumönnum, fólk þrefaldar ekki verðið á söluvarningi þegar hvítur maður labbar framhjá og svo getur maður líka gengið öruggur frá brjáluðum bílstjórum um upplýstar gangbrautir. Gallinn er bara sá að í þessum vestræna hugsunarhætti er fólk ekkert að eyða óþarfa orku í að hjálpa öðrum. Í Níkaragva er fólk ekki lengi að koma til að bjóða fram aðstoð ef gringói virðist áttavilltur en í San José yrða þeir ekki á mann þó maður standi klukkustundum saman í rangri röð.

Leiðirnar til San José eru margar og misspenandi. Hinir tveir fræknu frændur fóru akkúrat tvær misspennandi leiðir þangað. Eina frá fyrri stöðvum í San Juan del Sur með túristaböss, og aðra frá ferskvatns- og eldfjallaeyjunni Omitepe með tjikkenbössbát og niður á með fljótabát. Skúli fór með fyrri kostinum og Rúnar þeim seinni. Erfiðasta skrefið var reyndar að yfirgefa síðarnefnt bú. En þegar það hafði tekist var Celeste kvödd því hún, eins og svo margir aðrir amerískir bakpokalingar, ætlaði heim um jólin. Rúnar og Bretarnir fóru þá þrír saman að höfninni þar sem þeir biðu eftir að bátur legði af stað klukkan 19 og myndi ekki koma til lands fyrr en 10 tímum seinna. Þeir voru mættir mörgum klukkustundum áður en báturinn lagði úr höfn, eða klukkan 13:00. En það gaf ekki tilefni til leiðinda því svæðið í kringum höfnina var krökkt af villtum frumskógi sem þeir nutu að skoða. Og þeir héldu sér inni í skóginum uns hópur 15-20 karlapa rak þá úr skóginum með þvílíkum öskrum. Við höfnina lentu þeir á tali við Þjóðverja sem bölvaði yfir því að hafa ekki verið á eynni síðasta sunnudag og fengið að sjá eldgosið. „Ha! Hvaða eldgos?“ Spurðum við allir í kór. „Nú þessi eyja gaus síðasta sunnudag, vissuð þið það ekki? Það kom í fréttunum og allt.“ „Nei, við urðum ekki varir við neitt, svo virðist vera sem við höfum misst af eldgosi í eins tveggja kílómetra fjarlægð frá okkur. Hvernig fórum við að því?“

Rúnar

Ferðin yfir vatnið var sú allra óþægilegasta. 10 tímar í sömu þrengslunum og maður er vanur í tjikkenbössunum. Þegar komið var í höfn í San Carlos voru ferðafélagar mínir síðustu 11 dagana kvaddir. Þungu fargi var af mér létt þegar póstþjónustan tók við jólagjöfunum frá mér til ástvina, vegabréfsstimpill var fenginn og svo stökk ég í pinkulítinn fljótabát sem ferjaði mig næstu tvo tímana niður á í gegnum þéttan skóg, framhjá vopnuðum landamæravörðum Níkaragva að hinu herlausa Kostaríka. Svo tók við fimm tíma rútuferð til San José, höfuðborg Kostaríka. Alls sautján tímar með miklum pásum þar sem beðið var eftir næsta faraskjót. Klukkan var 21:00 á föstudeginum þegar ég kom á hina alræmdu Kóka-kóla rútustöð í San José. Það þýddi tvennt. Ég var búinn að ferðast síðustu 26 tímana og það var myrkur og ég var á svæði sem bæði Biblían (Lónlí planet) og fólkið í rútunni hafði varið mig við að ferðast einsamall um nótt því þarna er fólk barið, stungið og/eða skotið í hausinn fyrir eignir sínar. Allir taxar sem ég stöðvaði bentu mér á að hótelið sem ég hafði ákveðið að fara á væri stutt í burtu og það tæki því ekki að keyra þangað svo ég ákvað að reyna á göngutæknina mína þar sem ég geng hratt og ákveðið í eina stefnu. Auðvitað fann ég ekki hótelið í fyrstu atrennu og horfði upp á róna og ungmenni í skopparafötum nálgast mig í bland við vændiskonur og hef sjaldan verið eins paranójaður. Borgin var sú skuggalegasta og kóka-kólahverfið var handan þess að vera vafasamt. En ég komst leiðar minnar án þess að vera rændur þar til 20m. frá hótelinu að tvær löggur stoppuðu mig og ásökuðu mig að bera eiturlyf. Það tók hálftíma leit til að sanna sakleysi mitt og þá var ég loksins, eftir 27 tíma, kominn í öruggt skjól í hótelinu.

„Það kostar svo sannarlega svita og blóð
að fara þessa slóð til San José frá Omitepe.“

Já, Omitepe. Hvílíkar minningar hef ég frá þessari eldfjalla- og ferskvatnseyju. Kvartettinn sem kynntur var fyrir löngu í þessum sama leiðara dvöldum á lífræna bóndabænum í El Zopelote. Það var fínn staður. Reyndar var hann æðislegur. Hann var reyndar svo æðislegur að allir draumarnir sem ég og Mark höfðum látið okkur dreyma um að gera, hjólreiðatúr, sofa í hengirúmi einhversstaðar í frumskóginum, elda okkur fisk o.s.frv. fóru í súginn eftir að við festumst í þeirri hippasveitastemningu sem einkennir þennan bæ. Við náðum reyndar að klífa óvirka eldfjall eyjarinnar á sunnudeginum (á sama tíma og hitt fjallið gaus) áður en við festumst í kviksyndinu. En það eina sem gerði gönguna göngunnar virði var gangan sjálf. Uppi var ekkert að sjá fyrir þoku, sem er víst þarna allan ársins hring. Mitt plan hafði verið að fara til Kostaríka á mánudeginum en himneskar lífrænar landbúnaðarafurðir (þ.á.m. súkkulaði, kaffi, bananar, bakkelsi, marmelaði, granóla, hrísgrjónagrautur, romm og vindlatóbak) gerði það ómögulegt svo og allt hitt hippadæmið þar sem allir eru vinir, hanga saman, tala saman, drekka romm og gera ekkert annað þar til langt fram á nótt. Þetta gerði það að verkum að ég, Will, Mark og Celeste hengum saman með gott bros á milli varanna þar til á fimmtudeginum.

Skúli

Eftir að hafa kvatt góðan vin minn Jakob sem ferðast hafði með mér non-stop í einhverja tvo mánuði hélt ég leiðar minnar til Panamaborgar í von um að hitta Rúnar Berg á ný. Rútuferðin tók ekki nema 15 klukkustundir sem var reyndar mjög þægileg. Reyndar var landamæravörðurinn með einhver leiðindi þar sem hann grandskoðaði vegabréfið mitt og hélt því svo fram að Ísland væri ekki til. Svo þurfti ég að fá lánaða 500 bandaríkjadali frá random gaur í rútunni til að sýna félaganum að ég hefði efni á að fara frá Panama. Klukkan fimm að morgni lenti ég á hosteli, tjékkaði mig inn og byrjaði að bíða eftir Rúnari sem ég átti von á að kæmi sama dag. Reyndar kom hann þremur dögum seinna og eyddi ég tíma mínum í að rölta um Panamaborg, versla nýja myndavél og bara hanga með fólkinu á hostelinu. Panamaborg er mjög svo nútímaleg borg með fjöldan allan af skýjakljúfum, McDonalds og Kenni frændi út um allt og risastór moll.

Þegar við frændurnir vorum loksins sameinaðir á nýjan leik héldum við um kvöldið í eitt af fjölmörgum spilavítum Panamaborgar og fórum beint í tuttugu-og-einn. Ég setti 50 bandaríkjadali undir en Rúnar 20 dollara og við ein góðtíðindi röltum við út úr húsinu brosandi tveimur mínútum seinna þar sem okkur var boðnar konur, eiturlyf og guð má vita hvað. Daginn eftir versluðum við flugmiða til Quito í Ekvador eftir að Rúnar hafði falsað nemendaskírteini með góðum árangri. Sama dag kíktum við svo á hinn víðfræga Panamaskurð sem er þessa dagana mikið túrista-attraksjón og fannst okkur frændunum þetta allt hálf-sillí þegar túristarnir klöppuðu fyrir bátsmönnunum sem sigldu framhjá á gígantíska fraktbátnum. Svo hafði fólk kost á því að syngja í gegnum hátalarakerfi og Rúnar fór með eitt af ljóðunum sínum við góðar undirtektir hinna túristanna. „Það er alltílæ að vera með fíflagang ef það fer ekki út í sprell.“ (Tvíhöfði, 2001: lag 26)

Quito – Yurimaguas

Étnir lifandi í Amasónfrumskóginum

17. desember 2007

Held það sé ekki hægt að kalla þetta neitt nema pramma sem við erum hér á, siglandi niður stórfljót í Amasónskóginum. Hljómar spennandi ekki satt? Ferðin er kópering, eða öllu heldur innblásin, af ferð annars ferðalangs sem skrifaði bók um ferð sína í Suður-Ameríku fyrir eitthvað mjög mörgum mánuðum síðan. Leiðin liggur til stærstu borgar í heimi sem engir vegir liggja til, Iquitos, Perú, og að henni verður ekki komist nema siglandi, fljúgandi eða gangandi. Já, við erum komnir í nýja heimsálfu. Fjórða heimsálfa ferðarinnar er aðeins fyrir sunnan þá Ameríku sem Kólumbus fyrst heimsótti og ber það frumlega nafn Suður-Ameríka.

Að hluta til vegna Darien-gapsins (sem er eiginlega bara skortur á Pan-American veginum frekar en eitthvað svaka gljúfur) en aðallega vegna tímaskorts flugum við Suður, yfir Kólumbíu, til Quito í Ekvador. Og við höfðum ekki tekið okkar fyrstu fimm skref í þessari álfu fjarri okkar ástkæru eyju áður en við urðum fórnarlömb ræningja, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar samdægurs:

Eftir myrkur stigum við út á götur borgarinnar til að upplifa þessa merku heimsminjaborg halda upp á 473 ára afmælið sitt. Frá því að hóteldyrnar lokuðust liðu um það bil tíu sekúndur þegar tveir gaurar komu heilsandi til okkar. Ekki leið á löngu áður en annar félaginn greip um höndina á öðrum okkar og bað pent um peninga. Sá okkar sem gripið var um, Rúnar Berg, neitaði að verða að ósk gaursins. Þá greip hann harðar um höndina og spurði aftur. Og aftur neitaði harðorður gringóinn. Þá tók ræninginn til róttækra aðgerða og greip um myndavél sem hékk á öxl gringóans. Gringóinn, sem ætlaði ekki að gefa eftir, var ekki lengi að slá á hönd ræningjans eins og foreldri sem slær á hönd óþægs krakka sem teygir sig eftir sleikibrjóstsykri. Hissa á þessum viðbrögðum létu ræningjarnir tveir sig hverfa eins og skot.

Seinna um kvöldið eftir að hafa dansað á götum úti og drukkið kanilpúns í tilefni af afmæli borgarinnar var aftur reynt að ræna okkur:

„Gefðu mér peninga og það verða engin vandræði,“ sagði hann í sífellu. Það er algjört rugl að vera að styrkja svona hegðun, og að ekki sé minnst á að peningana sem geta farið í eitthvað miklu merkilegri málefni heldur en örvæntingafulla göturæningja, svo aftur var horft í augun á ræningjunum, brosað og sagt: „Nei!“ Aftur varð það Rúnar Berg sem gripið var í, í þetta sinn hálskragann, og ræninginn fór með línuna sína aftur, harðar og skýrar. Rúnar gerði slíkt hið sama að undanskildum hálskragagripunum og fór með línuna sína: „Nei!“ Eftir stutta en vandræðalega þögn skildi ræninginn að hann myndi ekki fá neinn pening nema hann beitti ofbeldi fyrir alvöru sem hann hefur víst ekki þorað á vel upplýstri breiðgötunni og lét sig hverfa í myrkrið.

Þeir segja að það sé lína einhversstaðar í Ekvador sem á að markar miðbaug og ef maður gengur yfir hana þá á maður að ganga á milli hvela jarðarinnar. En svo segja þeir að þeir hafi misreiknað sig eitthvað og línan sé ekkert á miðbaug. Við létum þessa línu eiga sig og reyndar höfum við ekki hugmynd um hvernig við komumst yfir miðbauginn. Við vorum þó það lukkulegir að lenda í Quito akkúrat þegar þeir fagna stofnun borgarinnar 6. des. 1534 með risaskrúðgöngu. Við horfðum á brúður, stultudansara, ballettdansara, hermenn og hvaðeina dansa við þjólaglagatónlist í um það bil þrjár klukkustundir. Næsta morgun vöknuðum við þó snemma því förinni var heitið úr Ekvador í Amasónfrumskóginn fræga.

Við tókum rútu í gegnum Baños eins og óðir menn og sáum því risastórt gjósandi eldfjall bara út um gluggann á rútunni. Eins keyrðum við framhjá risafossum, baðlaugum, hverum og skógi vöxnum fjallshlíðum. Þegar við komum heim og lesum akkúrat þessa setningu eigum við eflaust eftir að spyrja sjálfa okkur hverslags hálfvitar við vorum. En við fórnuðum Ekvador fyrir frumskóginn. Og það er ekki svo víst að við hefðum náð fyrirframbókuðu Inka-treilinu í tíma ef við hefðum spreðað einum degi í Baños. Planið var að taka rútu frá Quito í gegnum Baños til Macau. Þaðan taka aðra rútu til Puerto Rio Morona í Amasónskóginum, gista þar eina nótt í kofa og sigla svo á spíttbát með 9 heimamönnum niður ánna að bæ sem nefnist San Lorenzo og vera þar nokkra daga að skoða Amasónskóginn og þessháttar. Þaðan myndum við svo taka þriggja til fjögurra hæða bát sem flytur fólk til Iquitos. Og að lokum myndum við taka flugvél úr frumskóginum til Lima og rútu til Cuzco svo við gætum náð Inka-treilinu okkar í tæka tíð. Vandræðin voru ekki lengi að koma. Strax á rútustöðinni í Quito var fararstjórinn okkar, Juan, grunaður af lögreglunni að vera að fara að ræna okkur því hann sást fara með okkur á veitingastað. Hugrakkur löggumaðurinn stökk til að bjarga grunlausum gringóunum frá því að vera féflettir. Það þurfti fjóra lögreglumenn svo 3 klukkutíma að finna út, þrátt fyrir að hafa allar kvittanir og öll skjöl á borðinu, að Juan væri í raun að fara með okkur í Amasónskóginn en ekki að fara að ræna okkur. Sökum þessara seinkunar vorum við og níu förunautar okkar komnir til Puerto Rio Marono klukkan 4:30 næsta morgun sem gaf okkur um níutíu mínútna svefn í hengirúmi í einhverskonar kofa við ánna áður en sólin vakti okkur og við sigldum af stað.

Þá var það byrjað. Umkringdir af sjálfum Amasónskóginum, einnig þekktur sem Græna vítið, þar sem dýralífið er eitt af því fjölbreyttasta í heiminum. Við vorum mjög spenntir að leggja af stað, ef við yrðum einhversstaðar drepnir í ferðinni þá væri það í þessum skógi þar sem minnstu dýr, plöntur, sveppir, bakteríur eða sýklar hafa það að markmiði sínu að verða tveim saklausum gringóum að bana. Landamærin milli Ekvador og Perú innihélt 4 eftirlitsstöðvar og svalasta alþjóðafótboltavöll í heimi þar sem miðlínan var á landamærunum (spurning hvernig menn taka í það þegar skipt er um vallarhelming í hálfleik), enginn á þessum landamærastöðvum var reiðubúinn að gefa okkur stimpil úr Ekvador, hvað þá inn í Perú. Þess í stað var okkur bent á að fá hann við komuna í Iquitos.

Við tókum hádegismatarhlé í litlu þorpi við ánna þar sem maturinn var veiddur, týndur, eldaður og étinn, allt frá grunni, meðal annars píranafiskurinn frægi. Gómsætt það og svo var haldið förinni áfram. Upp úr eftirmiðdeginu fór svo að síga á ógæfuhliðina. Mótorinn var okkur ekki alveg hliðhollur og átti það til að slökkva á sér endrum og sinnum sem gerði það að verkum að okkur rak stjórnlaust niður eftir villtu fljóti í miðjum frumskóginum. Það leit ekki út fyrir að við kæmust að áfangastað í San Lorenzo þann daginn svo við höfðum næturstöðvar í öðru litlu þorpi sem varð á vegi okkar. Þar var hengirúmum skellt upp í einhverskonar skýli (Guði sé lof fyrir hengirúmið sem ég, Rúnar Berg, keypti í Níkaragva) og sofið þar til sólin vakti okkur næsta morgun.

Mótorinn var ekkert skárri næsta dag en við náðum að reka að bensínstöð (sem, ótrúlegt en satt, er hægt að finna í Amasónskóginum) til að gera við mótorinn. Frá þessari bensínstöð átti að vera þriggja tíma sigling að San Lorenzo. Viðgerðin tók þrjá tíma og mótorinn virkaði ágætlega þá þrjá tíma sem það átti að taka að komast til San Lorenzo. Eitthvað höfðu förunautar okkar logið að okkur því 6 klukkustundum eftir að við lögðum af stað frá bensínstöðinni sögðu förunautar okkur blákalt að nú væru 6 klukkustundir í viðbót. Svo tók að rökkva og loks skall á svartamyrkur. Og eftir nokkurn tíma í myrkrinu gaf mótorinn frá sér kæfingarhljóð. „Bensínlaus! Á villtu fljóti í miðjum Amasónskóginum um miðja nótt! Frábært!“ Þó kyrrðin, sofandi frumskógurinn og stjörnubjartur himininn spegluðu fegurð sinni í ánni var erfitt að vera ekki áhyggjufullir um framhaldið. Við frændurnir spurðum okkur hvort við kæmumst nokkurn tímann til San Lorenzo, hvað þá Iquitos.

Eftir að hafa rekið fleiri tíma niður ánna enduðum við í enn einu þorpinu sem nefnist Puerto Americo. Þar var mögulegt að gista á hóteli og taka bensín. Eftir þriggja tíma siglingu næsta dag vorum við loksins komnir til San Lorenzo. Bærinn er ekki svona eins og maður hefði ímyndað sér að þrifist í miðjum Amasónskóginum. Hann er stór og með fáránlega lifandi markað. Sennilega 4000 mans sem búa þar en ekki náðum við að finna út hvað hélt markaðnum gangandi. Ekki þreifst hann á túristum, því þeir eru sjaldséðir um þessar slóðir. Það getur maður séð á því hvernig fólk starir eins og það hafi aldrei séð hvítan mann áður og það að eini gringóinn sem við sáum allan tíman í Amasónskóginum var sænskur trúboði sem var að fara daginn sem við komum til San Lorenzo. Sá trúboði, fyrst á hann er minnst, varaði okkur við ættbálkum í grenndinni. „They don’t think like we do,“ sagði hann eftir að hafa lýst hvernig 2 Ítalir höfðu verið myrtir af einum slíkum ættbálki fyrir nokkrum árum síðan. Af einhverjum ástæðum hata þeir hvíta menn meira en aðra.

Af lífshættulegum atburðum sem við ástunduðum í frumskóginum þá sökktum við Skúli kanóa í nærliggjandi stöðuvatni sem er að finna hvað mest úrval mannætufiska, krókódíla, snáka, sníkla o.s.frv. í heiminum. Auðvitað smitaðist allt sem snerti vatnið af bleytu, þar sem vatn hefur þann eiginleika að bleyta hluti sem það snertir. Veski, sem Rúnar hafði ekki bara heimskast til að gleyma í vasanum áður en hann lagði af stað heldur líka leyst af beltinu, tekið úr vasanum fyrir sundsprett sem var tekinn áður og skilið eftir ofan á hinum fötunum eins og hann hefði viljað að það myndi tínast, fór útbyrðis. Það veski hafði þann eiginleika að sökkva þegar það blotnar og svo fór sem fór að um það bil 900 krónur, öll kort, öku- og köfunarskilríki, auðkennislykill og miði sem innihélt öll nöfn og netföng sem safnast hafði upp í ferðinni sukku með því og er nú glatað. Af þessu mátti læra að maður verður að búa sig eftir Murphy-lögmálinu í svona ferð: „Ef eitthvað getur farið úrskeiðis, þá fer það úrskeiðis.“ Svekkjandi það allt saman.

Normið í Amasón er að gera ekki neitt. Fólk hangir einhversstaðar, í hengirúmum eða hvaðeina. Enda þarf ekki mikla vinnu til að lifa. Skógurinn er frjór og tveggja tíma vinna við að safna og elda mat er nóg fyrir sæmilega fjölskyldumáltíð. Þegar túristi kemur svo í þetta umhverfi er ekki venjan að breyta um lifnaðarhátt. Ofan á þetta höfðum við frændur asnast til að borga fullt gjald fyrir ferðina fyrirfram sem hvatti leiðsögumenn okkar til ekki neins. Við, til dæmis, áttum erfitt með að fá þessa leiðsögumenn okkar til að mæta í fyrirframákveðnar ferðir á fyrirframákveðnum stað og á fyrirframákveðnum tíma. Oft þurftum við að keyra um bæinn og sækja leiðsögumennina svo við myndum fá að skoða eitthvað án þess að eiga í hættu á að rekast á óvinveittan ættbálk. En eftir að hafa átt orð um þennan hegðunarhátt við konuna sem sá um matinn fyrir okkur skammaði hún leiðsögumennina rækilega og leiðsögumennirnir mættu í allar fyrirframákveðnar ferðir tíu mínútum fyrir fyrirframákveðinn tíma eftir það. Við reyndum að fara inn í Amasónskóginn að degi til, en komumst ekki langt því við vorum reknir út af óvinveittum moskítóflugum í vígahug eftir einn tíma eða svo. Við gerðum aðra tilraun að næturlagi vel búnir skordýrafælum og skotvopnuðum fylgdarmanni (ekki vitum við hvers vegna en fannst okkur nokkuð öruggir frá Rússunum). Þannig tókst okkur að sjá þetta magnaða lífríki með allskyns næturrotum og tarantúlum svo og að sjá hvernig fólkið lifir í þessum lungum heimsins. Og já fólk brennir skóga hérna, eins og annarsstaðar, til að rækta, búa til kol og annað.

Loks vöknuðum við frændur upp við þann vonda draum að þurfa að fara um morguninn. Reyndar, eins og svo oft kemur fyrir í tímaleysi bakpoka-lingsins, misreiknuðum við tímann sem við höfðum og héldum að við ættum einn dag enn í San Lorenzo. Við pökkuðum og héldum í „La ultima lancha a Iquitos“ — síðasta bátinn til Iquitos. Held maður verður að nota orðið prammi frekar en farþegaskip yfir þetta ferlíki. Dekkið er 23 af lengd skipsins, það er ýmist fyllt með bönunum, nautgripum og/eða þríhjólum. Undir brúnni er svo millidekkið fyllt með svipuðum varningi og í okkar tilfelli einni geit og hjörð af svínum. „Accepte pasajeros y carga“ segir skiltið svo fólk má taka hvaða varning sem það vill með sér til Iquitos svo lengi sem það er ekki eldfimt. Káetan (ef káetu má kalla) er fyrir ofan brúnna. Hún er meira svona risastórt rými, þó ekki upp á hæð, útfyllt af hengirúmum, farþegum, galandi hænsnum sem við frændur höfum sumum hverjum gefið nafnið Los gallos del diablo (andsetnu hanarnir) þar sem þeir byrja að gala um þrjúleitið með skerandi hávaða og halda vöku fyrir manni þar til um hádegi þegar þeir loksins lækka lítillega í sér. Já þetta er vægast sagt áhugaverðasta farþegaskip sem við höfum rekist á á ævinni. Og á þessu sigldum við með Skúla fárveikan í 3 daga og tvær nætur til borgar að nafni Yurimaguas. Ekki sveik latnesk-ameríska tímaskynið okkur heldur á þessum bát. Í höfn í Yurimaguas sagði skiltið framan á bátnum „Iquitos hoy, hora: 14:00, accepte pasajeros y carga (Iquitos í dag, klukkan 14:00, tek við farþegum og varningi)“ og þegar myrkrið var að skella á klukka 18:00 förum við að spyrja hvað væri um að vera og viti menn, klukkan 2 í dag þýddi 12 á morgun og 12 tímar til Iquitos, eins og okkur var talin trú um áður þýddi 48 tímar. Það myndi þýða að við kæmum ekki til Iquitos fyrr en á þriðjudegi, þrem dögum eftir áætlun og Inka-treilið væri þar með í verulegri hættu.

Einhvern veginn var við að búast að stærsta borg heims sem hefur ekki aðgang að vegi væri erfið viðureignar og eins erfitt og það var að komast til San Lorenzo var alltaf vafi á því hvort við kæmumst til Iquitos. Eftir að hafa fengið upplýsingar um breytta tímasetningu bátsins lögðum við frændur árar í bát, röltum að næstu ferðaskrifsstofu og keyptum flug til Lima. Skúli, fárveikur, nýtti sér tækifærið og flúði með allt sitt á fimm stjörnu hótel í miðbæ Yurimaguas á meðan Rúnar Berg, nískur með peningana sína, nýtti sér fría gistingu í hengirúminu sínu í prammanum góða. Svo síðustu nóttina í Amasón eyddi Skúli í loftkældu hótelherbergi með sjónvarpi og einkabaðherbergi á meðan Rúnar varð nær brjálaður í hengirúmi, þurfandi að skríða leiðar sinnar undir milljón önnur hengirúm til að komast í vélarrýmið þar sem hægt væri að baða sig með bala. Svo ekki sé minnst á öll starandi börnin og los gallos del diablos sem er nóg til að láta hinn almenna meðaljón verða vitlausan.

Þannig endar pistillinn að þessu sinni. Og líka Amasónferðin. Með aumingja- og væskilslegri bílferð frá Amasónborginni Yurimaguas út úr skóginum, upp fjöll og firnindi niður til flugvallabæjarins Tarapoto og með flugvél til höfuðborgarinnar Lima.

Líma – Cusco

Bankað á dyr dauðans

29. desember 2007

Rúnar Berg segir frá

Ef steinar hefðu tilfinningar myndu þeir ekki vilja falla niður 122 þverhnípi.“ Eins með mig. Mig langar ekkert að falla þessa hæð. Ég trúi ekki að ég skuli hafa tekið þátt í svona vitleysu. Ég trúi ekki að nokkur maður skuli stunda slíkan verknað. 5 tímum eftir stökkið (sem er sá tími sem þetta er skrifað) og ég hef enn ekki náð áttum. Ef ekki væri fyrir myndunum og sjokkinu sem enn hrjáir mig þá hefði minningin um þennan atburð aldrei fest sig í langtímaminninu mínu.

Í fyrsta lagi þurftum við sjálfviljugir að borga fyrir ósköpin, svo þurftum við að bíða og horfa upp á stelpu skorast undan vegna hræðslu. Lengst uppi, hangandi í málmvagni með 122 metra af lofti og engu öðru milli þín og jarðar er engin skömm í því að neita að láta sig hrapa niður.

Ég trúði því ekki þá, rétt eins og ég trúi því ekki nú, að þetta væri að gerast. Jafnvel eftir að hafa horft á Skúla koma skælbrosandi niður eftir að teygjan hafði gripið hann vel og örugglega sá ég ekki nógu langt inn í framtíðina að ég myndi nú lenda í svipuðum aðstæðum. Skælbrosandi spurði ég Skúla um tilfinninguna á meðan maðurinn festi á mig teygjuna hafandi ekki hugmynd um þá ofsahræðslu sem myndi grípa yfir mig innan skamms. Og undrandi horfði ég á náttúrufegurðina frá háloftunum án þess að gera mér grein fyrir skelfingunni sem fylgdi að hrapa þangað niður. Og forvitinn spurði ég manninn, sem leiddi mig í gegnum þetta, út í hitt og þetta varðandi teygjustökk ekki vitandi að ég ætti eftir að komast að því innan nokkurra sekúndna. Það var ekki fyrr en kallinn útskýrði fyrir mér að ég ætti að láta mig falla á þremur að það skall í hausinn á mér að ég væri að fara að falla þangað niður. 122 metrar. En þessar pælingar komu alltof seint. „Þrír!“ Og niður féll ég.

Cusco-teygjustökkið er það stærsta í Ameríku og þriðja stærsta í heiminum. Það er 122 metrar á hæð og er staðsett í yfir 3300 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er inn í dal rétt 11 kílómetrum fyrir utan Cusco í Perú og er þannig búið að tveir vírar liggja þvert yfir dalinn og í vírana er festur vagn sem er látinn síga og hífa til skiptis til að sækja fólkið. Fólkið lætur sig svo sjálfviljugt falla niður úr vagninum þegar hann hefur náð fullri hæð með teygju bundna milli fótanna sinna og vagnsins.

Fallið var bara nokkrar sekúndur en það leið svona klukkutími þar til ég gat munað eitthvað og það munu líða nokkur ár þar til hjartslátturinn mun komast niður fyrir 100 slög á mínútu. En það leið nú samt ekki yfir mig, þar get ég talist karlmaður. Það vissi ég eftir að hafa horft á myndbandið sem Skúli tók á jörðu niðri og heyrt þessi dauðaöskur sem ég gaf frá mér við þetta ókristnilega fall mitt. Sjálfsvitundin tók svo aftur við þegar einn karl greip um mig á jörðu niðri og lagði mig hægt á dýnu 122 fyrir neðan málmvagninn sem ég hafði fallið niður úr. Þá tóku við 10 mínútur sem ég hafði hvorki vilja né getu til að standa upp. „Hvernig líður þér?“ „hræðilega.“ „Er allt í lagi?“ „Nei.“

Af einhverjum ástæðum höfðu liðamótin í úlnliðunum og niður í fingur frosið og ég gat ekki hreyft þau. Ég reyndi að opna lófann en hnefarnir héldust krepptir. Ekki veit ég hvort þetta gerist undir venjulegum kringumstæðum en þetta gerðist fyrir mig. Loks komust fæturnir og andardrátturinn í lag og ég gat staðið upp af dýnunni. Það tók svo starfsmennina þarna 30 mínútur að ná að opna lófana mína. Þrjátíu endalausar mínútur þar sem ég þurfti virkilega að berjast til að halda meðvitund. Hvað kom yfir mig sem getur hafa valdið þessu afbrigði veit ég ekki en það veit ég að ég fer ekki í teygjustökk það sem eftir líður ævi minnar og ég ræð öðrum að gera slíkt hið sama.

Nú erum við frændurnir, sem sagt, staddir í hinni fornu höfuðborg Inkaveldisins, Cusco. Sú menning, sem nefnd hefur verið Inkamenningin, bjó yfir mikilli þekkingu í stjörnufræði, stærðfræði, byggingalist, og mörgu fleira sem í sumum tilfellum var meiri en þekking hvíta mannsins á sama tíma. Þessi menning hafði nýlokið borgarastyrjöld svo og hafði hún misst stóran hluta þjóðar sinnar í framandi smitsjúkdómum sem bárust allt norður frá Mexíkó, þegar þrír menn lönduðu með 200 manna herliði í Cajamarca í Perú og handsömuðu foringja hennar. Herforinginn Francisco Pizara auk tveggja annarra höfðu árið 1513 rekist á áður óþekkt úthaf sem þeir nefndu Kyrrahafið. Þeir lýstu það eign Spánar sem og öll lönd sem það snerti. 1532 voru þeir svo mættir aftur með áðurnefnt herlið til að sækja þessar eignir sínar. Fræði Inkanna hafði ekkert að segja gegn byssupúðri Spánverjanna og áður en langt um leið var sá heimshluti, sem við frændur erum nú staddir í, innlimaður í land nær hálfum hnetti í burtu.

Eftir að hafa gengið berserksgang inn í álfuna og sigrað Cusco gerðu Spánverjarnir Líma að höfuðborginni. Sú borg er okkur frændum að baki í bili. Við getum ekki lýst borginni sem heillandi. Þvert á móti vorum við sammála um að þetta sé einhver sú ljótasta borg sem við höfum heimsótt. Ekkert þarna minnir á hina fornu dýrð Inkanna. Heldur lítur hún út eins og ein risa stór útskipunarhöfn. Við vorum samt svo stutt þarna, vitandi að við kæmum þangað aftur. Vonandi verður seinni heimsóknin örlítið dýrðlegri svo við getum sagt eitthvað fallegt um borgina.

Það tók svo 27 tíma rútuferð til að komast til Cusco. Það kom okkur svolítið á óvart að í kringum Lima er bara skrjáfþur eyðimörk. Og líka það í þessari eyðimörk var fjöldinn allur af gámum og kofum dreift um allt, og það leit út fyrir að í þessu byggi fólk. Við klóruðum okkur mjög í hausnum yfir þessari sýn og spurðum okkur á hverju fólkið lifði sem byggi í þessum gámabyggðum því það eina sem við sáum í kring var eyðimörkin.

Svo komumst við upp Andesfjöllin að hinni dýrlegu borg Cusco. Enn með smá matareitrun fékk Skúli hæðina illa í sig og þjáðist af svokallaðri háhæðaveiki sem lýsir sér einhvernvegin eins og væg þynnka. Kókaplantan fræga á einmitt að vera góð lækning og forvörn við þeirri veiki sem þýddi að lítið annað væri að gera nema að labba í næsta súpermarkað, kaupa sér nokkur kókalauf og laga te. Teið var nú ekkert afbragð til að byrja með en eftir nokkrar tilraunir reyndist það mesta lostæti eftir að smá hunangi hafði verið bætt út í það.

Við erum ekki að fara að yfirgefa Cusco alveg strax. Hér munum við halda upp á jólin. En fyrst er þó 4 daga ganga að týndu borg Inkanna, Machu Picchu.

Að lokum viljum við þakka lesendum lesturinn og óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Cusco – Puno

Frá Inkaslóðum til tippaslóða

29. desember 2007

Frá teygjustökki, úr fjögra daga göngu á 500 ára gömlum vegum í túristaverstu rútuferð í heimi.

Fyrsti dagur á Inkaslóðum:

Inkaslóðir eru undir þeirri bölvun að vera of vinsælar, þangað fer enginn maður nema í 16 manna hóp með 2 leiðsögumönnum, kokki og tuttugu burðarmönnum sem tjalda fyrir mann, vaska upp og bera á borð. Það er ekki hægt að kalla þetta óbyggðir lengur og maður þarf að borga tilheyrandi verð fyrir þessa ofþjónustu. Jæja þetta er nú þess virði. Þegar við frændur stígum upp í rútuna, sem fór sér ferð til að sækja okkur, heyrum við kvenmansrödd spyrja: „Eruð þið Íslendingar?“ „Já,“ svörum við á íslensku ótrúlega hissa að við skulum hitta landa okkar. Seinasti Íslendingur sem við sáum var flugfreyjan sem þakkaði okkur fyrir flugið á Stanstedflugvellinum í Lundúnum. Og að þarna í sömu rútu, á leiðinni í 4 daga göngu á Inkaslóðum til Machu Picchu skuli ekki bara vera einn Íslendingur með okkur heldur tveir. Anna heitir önnur og hin Katrín, frænkur sem voru að fara að hitta skyldmenni í Santiago í Síle en ákváðu að taka smá útúrdúr fyrst og eyða aðfangadegi örþreytt í Machu Picchu borgarrústunum. En landar okkar eru ekki þær heppnustu. Áður en gangan hefst finnur Katrín fyrir veikindum sem munu hamla getu hennar töluvert til að ganga þessa leið. Fyrir okkur hin er þessi fyrsti dagur mjög auðveldur. Bara 12 kílómetrar með mörgum stoppum. Fyrstu rústirnar eru ekki langt frá upphafsreitnum, þær bera það skemmtilega nafn Hlíðarborg og eru svolítið mjög magnaður forsmekkur að því sem koma skal. Svo er gengið aðeins lengra og stoppað fyrir snæðing í hádeginu. Fyrsti hádegisverðurinn kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir. Þriggja rétta máltíð með 3 settum af hnífapörum á mann er ekki eitthvað sem maður býst við að sjá lengst út í sveit. En þar kom svarið við hvers vegna við þurftum 20 burðamenn. Við komum svo á tjaldsvæði fyrsta dagsins um fjögurleytið (Anna og Katrín þó aðeins seinna en skiluðu sér þó, sem telja má afrek sökum slappleika Katrínar). Þegar við sjáum tjaldsvæðið er búið að tjalda og allt fyrir okkur og það eina sem við þurfum að gera er að leggjast í tjaldið og bíða eftir að kokkurinn eldi ofan í okkur. Það hefði verið mjög auðvelt samt að ganga lengra en reglur þjóðgarðsins leyfa bara næturstöðvar á örfáum stöðum innan hans svo allir verða að tjalda á sama stað. Leiðsögumaðurinn segir okkur frá Inkarústum í klukkutímafjarlægð frá tjaldsvæðinu og bannar okkur svo að fara þangað þar sem hann segir að það fari að dimma bráðum og skógurinn sé hættulegur eftir myrkur. Menn geta ekki sagt hvor öðrum frá einhverju merkilegu og ætlast svo til þess maður sleppi því að skoða það. Svo Rúnar hleypur þangað, gegn vitund og ráðum leiðsögumannsins, kemur að rústunum á 30 mínútum, skoðar þær í flýti, hleypur svo til baka svo hann nái aftur fyrir myrkur og lýsir svo undrun sinni á staðnum. Þarna var heil borg og leiðsögumaðurinn ætlaði bara að láta hana fara fram hjá okkur. Kvöldmaturinn er eldaður og borinn fram og í eftirrétt kemur kokkurinn í fullum skrúða með bakka fullan af íkveiktum piscabanönum (lúxusinn hættir ekki að koma manni á óvart).

Annar dagur á Inkaslóðum:

Náttúran hættir ekki að koma manni á óvart. Þetta er ótrúlegt, hversu fjölbreytt getur hún orðið? Annar dagurinn á að vera erfiðastur af þeim öllum. Maður verður að vorkenna Katrínu að taka upp veikindi akkúrat í þessum aðstæðum. Við klifrum úr 3000 í 4200. Upp stiga sem flestir ná langt meira en 45 halla. Þetta er erfitt fyrir fílhraustan mann. Ef hún nær þessu verður maður að dást að dugnaðinum hennar. 22. desember. Í dag eru líka sumarsólstöður í Perú, sólin er ótrúlega sterk og er bara til að gera illt verra. Það rignir þó ekki jafnvel þó við séum í miðju regntímabilinu sem er ótrúleg heppni. Leiðsögumaðurinn segir að í síðustu viku hafi rignt samfleytt. Skúli gengur þetta með léttum leik (miðað við aðstæður), svipaða sögu er að segja frá Rúnari sem þó verður fyrir hræðilegum sólsting á leiðinni niður og þjáist af höfuðverk restina af deginum. Og svo skila hinir tveir landar okkar sér á áfangastað með lófaklappi allra hinna.

Þriðji dagur á Inkaslóðum:

Nei, náttúran getur ekki hætt að koma manni á óvart hérna í Andesfjöllunum. Þessir miklu og hrikalegu tindar, þessi svakalega kyrrð og allt þetta plöntulíf. Þeir segja að þriðji dagurinn sé skemmtilegastur. Þá gengur maður tiltölulega auðveldan steinhlaðinn stíg (sumstaðar upprunalegan frá tímum Inkana) á milli heillandi rústa í gegnum skóga og sléttur á fjallshlíðum og niður í dölum. Maður gengur meira að segja í gegnum göng sem Inkarnir byggðu. Maður er heillaður nú þegar af afrekum þessa gamla Indíánaveldis og enn á maður eftir að sjá rúsínuna í pylsuendanum, Machu Picchu. Alls 15 kílómetrar í dag, þokkalega auðvelt það og maður myndi klára það á örskotstundu ef ekki væri fyrir þessari náttúru og þessum rústum sem geta ekki hætt að heilla mann upp úr skónum. Undir lokin getur maður svo valið milli þess að fara styttri leiðina á síðasta tjaldsvæðið eða þá lengri sem innifelur ræktsvalir frá tímum Inkanna. Sumir okkar ákveða að fara lengri leiðina og sjá þar steinhlaðninga upp fjallshlíðina sem ná eins langt og augað eygir. Hreint út sagt ótrúlegt að einhver skuli byggja svona lagað, en á morgun munum við sjá stórvirkið sjálft, Machu Picchu. Ætli þessar rústir blikni ekki í samanburði eins og Chichen Itza bliknar í samanburði við Tikal.

Fjórði og síðasti dagurinn á Inkaslóðum:

Fjögra daga erfiði, Einu sturturnar eru -3, sólbruni á nefi og á eyrum, öll nærföt skítug og við vöknum í tjaldi enn með hálsríg síðan í teygjustökkinu vitandi hvað við erum að fara að skoða eftir fáeina tíma. Reglur þjóðgarðsins banna alla umferð utan tjaldsvæða fyrir klukkan 5:30 svo við þurfum að bíða í röð eftir að vera hleypt af stað. Allir viljum við vera á undan hvor öðrum því allir vitum við hvað við skemmum upplifunina fyrir hver öðrum með því að vera fyrir. Bara í göngunni þennan dag eru 200 túristar og svo koma 1000 aðrir með lestinni um 9 leitið. Svo nú er mál að flýta sér. Katrín hefur svo til náð sér, það vantar bara smá upp á orkuna en hún nær að klára þetta eins og hetja, enda með víkingablóðið í æðum.

Og að lokum á áfangastað:

Upp bröttustu tröppur til þessa (og þær hafa verið brattar fyrir) og við sjáum einhvern gamlan múr. Við göngum í gegnum hliðið og undrið blasir við okkur. Heimsminjarnar Machu Picchu, hin týnda borg Inkana. Eitt af hinum sjö nýju undrum veraldar (listi sem verður kannski tekinn í sátt aftur eftir fíöskuna með Chichen Itza). Borgin var aldrei fundin af Spánverjunum, og ekki skrítið það miðað við staðsetninguna í miðjum Andesfjöllunum. Hún fannst ekki fyrr en 1911 og enn er fólk að rífast yfir því hvaða tilgangi hún þjónaði. Sumir segja að hún hafi verið byggð svo ríka fólkið gæti nýtt orlofið sitt þarna, aðrir að borgin hafi verið helg og fólk hafi farið þangað í pílagrímsferð. En eitt er vitað að borgin er falleg, bæði byggingalistin og fjöllin í kring geta ekki gert neitt nema heillað mann.

Jólin héldum við frændur að hluta í Machu Picchu og að hluta í Cusco. Lestin kom ekki til Cusco fyrr en klukkan 9 um kvöldið, en maður lætur sig ekki vanta í kirkju til að fagna fæðingu frelsarans. Í Cusco leggja þeir örlítið meiri áherslu á orðið fagna en við erum vön heima. Að ganga í miðnæturmessu í dómkirkjunni, framhjá vopnatorginu, er brjálæði. Fólk hleypur um með flugelda í gegnum bál, pappírsflygsur og brotna og/eða brennda hálfsmíðaða bása. Brennivínið vantar ekki, með tilheyrandi öskrum, og ef maður vissi ekki betur mætti halda að þarna væri borgarastyrjöld á ferð, frekar en aðfangadagskvöld. Vitaskuld heyrast lætin inn í kirkjuna og þar sem presturinn messar um Krist og ljósið í gegnum messusöngva spilaða á snældu á alltof hröðu tempói skapast svolítið súrt augnablik þar sem maður getur ekki gert að því að brosa. Þegar messan er svo búin er farið á hótelið þar sem tekinn er vel áunninn nætursvefn í rúmi í fyrsta sinn í langan tíma. En á leiðinni eru göturnar fullar af blindfullum gringóum á leiðinni á hávær diskótek. Þessir gringóar eru að halda upp á jólin eftir siði heimamanna sem eru vanir að detta í það á aðfangadagskvöld og dansa svo eins og vitleysingar á diskótekum bæjarins.

Jóladagur var þó með hefðbundnara sniði. Við frændur átum jólagjöf ömmu okkar og afa á fínasta veitingastað bæjarins með bestu list. Reikningurinn hljóðaði upp á 240 sol sem samsvarar 4800 krónum íslenskum. Samsvarandi verð fyrir þessa máltíð á íslenskum veitingastað væri þó 24000 krónur (skv. bjórígildisvísitölunni margviðurkenndu þar sem 240 sol eru 48 perúsk bjórígildi).

Lítið var þó um skötufnykinn á Þorláksmessu, pakka frá vinum og vandamönnum á aðfangadag eða hangikjötsveislunni á jóladag heima hjá ömmu Rún og afa Ingólfi þessi jólin. Þess í stað skemmtum við okkur við að segja útlendingunum, sem gengu Inkaslóðirnar með okkur, sögur af 13 jólasveinum, sonum trölla sem skemmta sér við að hræða börn og stela af fátækum fjölskyldum og jóla ketti sem er frægur fyrir að borða óþæga krakka.

Titicacavatn er svo næst á dagskrá. Við erum komnir í stærsta bæinn við vatnið, Puno. Við komum þó ekki þangað án þess að öðlast eitt ævintýri í leiðinni. Forsagan er sú að áður en við fórum á Inkaslóðirnar höfðum við ætlað að kaupa lestarmiða hingað. Útsýnið úr lestinni á víst að vera stórbrotið. En þegar við fórum að kaupa miðana tókst konunni í afgreiðslunni að sannfæra mig (Rúnar Berg) um að rúta með leiðsögn væri betri kostur. Enda kostaði rútan bara 5 dali meira og innihélt leiðsögn á ensku, skoðunarferðir um 5 áhugaverða staði í leiðinni og hlaðborð sem maður gat étið að vild. Skúli var ekki á sama máli og var enn sannfærður um lestina sem færi bara beint í gegn en þó myndi skila okkur seinna á áfangastað en rútan. Ég fékk að ráða að þessu sinni. Og fæ það sennilega aldrei aftur því rútan var ein sú versta túristaupplifun sem getur komið yfir bakpokalinga eins og okkur. Leiðsögnin var meira svona: „Þessi staður heitir þetta. Inkarnir töluðu Quechua, hinir töluðu hitt. Þetta er veggur og þetta er vegur.“ Svo líka voru hinir áhugaverðu staðir uppsprettan að kjánahrolli næstu mánuðina. Kirkja sem átti að vera sixtínska kapella Ameríku var ómerkilegri en Kirkjukotið heima í Grindavík (án þess að við séum að gera lítið úr Kirkjukoti). T.d. var búið að skreyta málverk af Kristi á krossinum með gullkrúnu sem hafði verið fest yfir þyrnikrúnuna og svo var búið að klæða hann í gullpils með mynd af Benidikt XVI páfa í miðjunni, er fólk alveg búið að gleyma hvers vegna Kristur dó á krossinum og hví hann var með þyrnikrúnu og stafina INRI skrifaða fyrir ofan sig?

Eftir að rútan kom til Puno og ég (Rúnar Berg) hafði beðið Skúla margsinnis afsökunar á þessum hræðilegu mistökum mínum hafði ég heyrt af frjósemishofi hér nálægt. Auðvitað lætur maður ekki svoleiðis fram hjá sér fara. Þetta hof er í 20 km. fjarlægð frá Puno og er staðsett í ótrúlega svölum bæ sem inniheldur, auk frjósemishofsins, risahöfuð sem hefur brotnað af styttu, sólarklukku, 500 ára gamla kirkju og gangstéttir skreyttar viðeigandi myndum (m.a. tippum við frjósemishofið). Og þessi bær er á stærð við Vogana (hvers vegna geta Vogarnir ekki verið svona svalir?). Frjósemishofið var svo eins og við var að búast, opið herbergi fullt af misstórum og misheilum tippum, auk frjósemisguðsins sjálfs sem var í miðju herberginu (Og maður spyr sig hvort við höfðum einhvertímann byggt svona hof handa Freyju, eða hvort það sé ástæðan að við séum svona fá).

Puno – Nazca

Perú: Mesta land í heimi

8. janúar 2008

Það er ótrúlegt hversu mikið menn þurfa að endurtaka samtölin aftur og aftur, þá sérstaklega eftir að maður er búinn að kynna þjóðerni sitt og því fylgja nokkur stöðluð samtöl sem íslenskir ferðalangar vítt og breitt kunna líklegast að fara með utanbókar:

Aðrir ferðalangar frá enskumælandi löndum eru vanir að segja: „Whoa, you are the first persons I’ve ever met from Iceland.“ Og við svörum: „And yet, you are not the first one to say that.“

Heimamenn geta líka verið tregir til að vita að það sé til land sem heitir Ísland og halda þá oft að við meinum Írland: „Que idioma hablan en Irlandia?“ Við reynum þá að leggja meiri áherslu á ess-ið: „No, somos Islandés y hablamos Islandés en Islandia, no Irlandia. ISSSSlandia.“

Svo er alltaf skemmtilegt hvað aðrir vita mikið um landið okkar: „Do you know why Iceland is named Iceland and Greenland Greenland?“ Spyrja þau mann, og svo kemur útskýringin sem hefur oftast ekkert að gera með Hrafna-Flóka eða Eirík rauða.

Núna erum við frændur komnir úr jólafríinu og byrjaðir að ferðast og njóta Perú eins og fyrr. Á milli jóla og nýárs, þegar þið heima unnuð ykkar tvo daga og láguð svo upp í sófa að spá í jólagjöfunum, skoðuðum við frændurnir það sem Titicacavatn er frægast fyrir. Það ku vera hinar fljótandi Uroseyjur. Semsagt maður siglir í gegnum gróður, fram hjá stráköggli og sér svo manngerða hluti úr stráum, og þá erum við að tala um hús, skip og náttúrulega heilu eyjarnar, allt búið til af mönnum. Maður hugsar með sér hvílík vinna fari í að vefja sér svona eitt stykki eyju. Maður veltir líka fyrir sér hvernig fólkið lifir á þessum eyjum, hvað það borðar og við hvað það vinnur, því eina svarið sem maður finnur er fiskur. Sagan segir að þegar Inkarnir sigruðu Titicacavatn og skattlögðu íbúana, þá sáu þeir hvað íbúarnir voru fátækir að þeim nægði að borga skít á priki í skatta.

Til að njóta okkur sem best, og líka til að hafa góða sögu að segja, gistum við eina nótt í strákofa einum á stærstu eyjunni. Málið var bara það að eyjurnar eru kannski áhugaverðar en ekki eru þær skemmtilegar og tuttugu mínútur ættu að nægja hverjum og einum á þeim. Við vorum um 15 klukkustundir sem þýddi 880 mínútur þar sem okkur drepleiddist í þeim nýstingskulda sem fylgir því að vera uppi í 3800 metra hæð.

Næst var það Arequipa (ennþá í Perú). Þessi 750þús. manna borg er í örlítið kristilegri hæð en við vorum búnir að venjast uppi á Andesfjöllunum, eða 2335 metrum yfir sjávarmáli. Nafnið á þessari höfuðborg útivistar í Perú myndi íslenskast sem „Stöldrum við hérna“ á Inkamálinu Quechua. Þarna geta menn farið í hvers konar fjallgöngur, flúðasiglingar, reiðhjólatúra, hópreiðtúra, klettaklifur, ísklifur eða bara hvað sem hinum meðal björgunarsveitamanni dreymir um yfir daginn. Það voru nú samt áramót við skiluðum okkur þangað og við vorum með eitthvað annað á prjónunum en að frjósa á einhverjum jökli yfir þessi tímamót.

Hótelstjórinn var svo elskulegur að leyfa okkur að nota hóteltölvuna til að horfa á Skaupið. Með gamlárssteikina í maganum (sem var lítið annað en kjúklingabringur í Tilda sveppasósu) settum við Ritskeks í skál með vínberjum og opnuðum okkur bjór á meðan Skaupið var í gangi. Þetta var næstum eins og að halda upp á áramótin heima. Nema bara að eftir Skaupið leið aðeins lengri tími þangað til við gátum byrjað að skjóta upp. Svona svolítið óþægilegur tími því venjulega er þessi hálftími milli Skaups og áramóta vandræðaleg bið það sem maður hefur ekkert að gera. Núna voru stundirnar fjórar.

Við frændurnir vorum fyrir framan kirkjuklukkuna á stóra Plaza de armas í Arequipa, Perú, með stjörnuljósin okkar og kampavínsflösku tilbúnir að skála fyrir nýja árinu. Perúbúar eru ekki eins áræðnir og við Íslendingar með flugeldana sína, þeir bíða með að kveikja í þar til klukkan slær tólf. Og það líður svo ekki sekúndubrot milli þess sem kirkjan klingir og þess sem 1000 litlir kínverjar og púðurkellingar springa samtímis. Þetta er heldur ekkert fansí með stórar tertur og tívolíbombur hérna í Perú. Guði sé lof fyrir það því fólki er alveg sama hvar þeir sprengja flugeldana sína hérna í Perú. Höggbylgjurnar frá vítunum köstuðu manni til og frá milli þess sem þau sprungu í metra fjarlægð. Venjan er nefnilega að sprengja sprengjurnar sínar bara einhversstaðar hér í Perú yfir áramótin, sama hvort það sé í mannþröngu torgi. Og sprengjurnar voru þarna í þúsundatali sem sprungu, misstórar, við fæturna manns. Þær sprengjur sem fóru upp voru ekkert að fara mikið hærra en kannski 2 metra upp í loftið áður en þær köstuðu glóðunum yfir mannhafið með tilheyrandi öskrum. Við hættum að telja hversu oft við gripum andann á lofti slíkt var brjálæðið. Það sem gerðist svo seinna um þessa nýársnótt er einungis okkar að vita en það getum við sagt að hún innihélt mikið Pisco (þjóðaráfengi Perú), salsa og logandi kokteila.

Ég stekk yfir 1. dag nýárs því, eins og hvar sem er í heiminum, er þetta viðburðalaus dagur með öllu. 2. janúar litum við frændur hins vegar á það safn sem inniheldur ísfrúnna Juanitu, sem fannst uppá einu fjalli hér í grenndinni á miðjum 10. áratugnum þar sem henni hafði verið fórnað 500 árum áður af Inkunum. Juanita fór hins vegar í varðveislu 31. desember síðastliðin svo við rétt misstum af henni. Við fengum nú samt að sjá aðra fórn. Sú ber nafnið Sarita, 17 ára gömul þegar hún var gefin guðunum svo þjóð hennar færi vel í þeim hörmungum sem steðjuðu að henni. Inkarnir trúðu því nefnilega að fjöllin væru guðdómleg. Og þegar fjöllin sendu þeim eitthvað illt, eins og eldgos eða óvinaher, þá reyndu þeir að seðja þá með fórnum. Þessar fórnir innihéldu marga gersemi, gull og postulín en líka eitt ungmenni sem gekk ásamt prestum upp þessi illkleyfu fjöll þar sem það mætti örlögum sínum. Uppi í þessari hæð er kuldinn svo mikill að líkami þessara fórnalamba hefur varðveist allt til dagsins í dag og er nú til sýnis í safni fyrir forvitna að skoða. Þó ég (Rúnar Berg) verð að segja fyrir mitt leiti að mér leið engan vegin eins og hún Sarita hafi verið einhver safngripur, heldur leið mér eins og ég væri að horfa á lík, manneskju sem áður lifði mögulega hamingjusamlegu lífi.

Ásamt Miklagljúfrinu í Bandaríkjunum og Cotahuasigljúfrinu örfáum kílómetrum héðan, er Colcagljúfrið í Perú það stærsta í heimi með yfir 1200 metra frá brún að botni þar sem það er dýpst. Þangað skruppum við, stöldruðum aðeins við í 2 nætur og fórum svo með þessari fimm tíma rútu til aftur til Arequipa. Þess á milli máttum við nú varla annað en að fá okkur eina létta gönguferð niður á botn og upp aftur. Þá leið sem við fórum var þó ekki nema 1000 metrar dýpi sem þýddi 3 tíma gangur niður og um 4 stundir upp. Þegar svo annar helmingurinn vaknaði til að gera sig til í gönguna um morguninn (Rúnar Berg) var hann eitthvað skrítinn í maganum. Iss, smá matareitrun eða bara örlítil háhæðaveiki, ekkert sem stoppar mann. Svo þegar það er lagt af stað kemur í ljós að maðurinn er fárveikur með magapínu, hita, höfuðverk, niðurgang og það eina sem kemur í veg fyrir uppköst er afneitunin ein. Maður er þó kominn alla leið að þessu stórmerkilega gljúfri og maður er ekkert að fara þaðan án þess að skoða það almennilega. Svo gangan heldur áfram. Við komumst með miklum erfiðleikum alla leið niður á stað sem heitir Oasis, eða Lynd, því þarna er kristaltær blá lynd með pálmatrjám, grænum gresjum og öllu tilheyrandi þrátt fyrir að vera í miðri eyðimörk. Þarna var tekin góð hvíld svo veikir menn gætu jafnað sig. Við vorum jú komnir alla leið niður, vondu fréttirnar voru bara þær að það þýddi að við ættum eftir að fara alla leið upp aftur og veiki maðurinn var bara veikari nú en áður. Þarna dugði ekkert að gefast upp og upp þurftum við að komast ef við vildum ekki þurfa að sofa á lúsugum dýnum í niðurbrotnum kofa niðri í gljúfrinu eða í einhverjum helli á leiðinni upp. Og með þrjósku, þori og þvílíkri einbeitningu tókst veika manninum loksins að komast upp í þægilegt hótelherbergi með heitu hunangi, einkabaði, þægilegum dýnum og fjórum lögum af teppi til að halda sér heitum. „Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurtíman gert.“

Veikindin voru kláruð við gljúfrið á einni nóttu og næsta dag var áætluð 17 tíma rútuferð til Nasca, með smá stoppi aftur í Arequipa. Ef, hins vegar, Perúbúi segir þér að eitthvað verði tilbúið klukkan níu um kvöldið, þvottur til dæmis, segir hann þér um kvöldið að það verði tilbúið klukkan sjö í fyrramálið. Klukkan sjö segir hann svo að það verði tilbúið eftir hálftíma. Hálftími þýðir svo 2 tímar á perúskum tíma. Þetta þýddi að við vorum ekki tilbúnir til að fara til Arequipa fyrr en klukkan tíu, þrem tímum á eftir áætlun. Við stukkum því upp í rútuna og spurðum rútubílstjórann hvenær hún legði af stað. „Klukkan 11,“ svarar hann. Klukkan 12 var svo rútan orðin full af farþegum og bensíni og ekki mínútunni fyrr lögðum við af stað, 5 tímum á eftir áætlun. Við komumst þá ekki eins langt og við ætluðum og þurftum að gista í Arequipa fyrir vikið. Frá Arequipa til Nasca (sem er frægt fyrir sínar línur) eru 12 tímar með rútu, sem þýðir 2 tímar í að bíða eftir að rútan leggur af stað, 1 tími í að bíða einhverstaðar á miðri leið og 9 tíma akstur. Það var því ekki mikill tími til að sníkja á þrettándanum hjá okkur þetta árið.

Strax um morguninn fengum við þau forréttindi að fá að fljúga yfir Nascalínurnar frægu. Þau forréttindi eru auðfengin ef maður borgar rétt verð fyrir. Í okkar tilfelli voru það 40 bandaríkjadalir (í Suður- og Mið-Ameríku er venjan að leggja allar ferðir fyrir í dölum og stundum vilja þeir ekki sjá sinn eigin gjaldmiðil) en þetta verð getur farið upp í 80 dali í júlí eða ágúst. Línurnar eru svo sannarlega dularfullar, þær eru til stórar og smáar, eru af mönnum, dýrum eða hverju sem er en flestar eiga þær það sameiginlegt að vera ein samfeld lína, gerð með því að færa stóra steina burt, sem ekki er ekki hægt að sjá neitt út úr nema úr lofti. Kenningarnar um línurnar eru mýmargar. Sú kenning sem er þó ofaná er sú að línurnar hafi verið búnar til af Nascaindíánunum (árið 500 – 800 eftir krist) til að varðveita stjörnudagatal. Þó eru til kenningar um að þarna hafi verið geimverur að verki eða jafnvel að æðsti prestur Nascana hafi haft aðgang að loftbelgi og honum hafi þótt gaman að fljúga þarna yfir í frístundum.

Að flugferðinni lokinni fórum við næst á sandbretti á hæstu sandöldu heims. Cerro Blanco heitir hún og er 2090 metrum yfir sjávarmáli. Jafn undarlegt þó og það má virðast var svarta þoka í eyðimörkinni. Svo þétt að það var varla að maður sá handa sinni skil. Leiðsögumaðurinn sagðist aldrei hafa séð neitt slíkt áður. Við þurftum að ganga 3 tíma upp á toppinn áður en við gátum rennt okkur niður og sú leið upp var ótrúlega margþrungin og jafnvel óhugnanleg þar sem maður stóð uppi á sandöldunni og horfði niður bratta brekku sem leiddi ekkert, þess vegna niður í víti hvað við vissum. Þegar það var svo komið að því að renna sér niður mjökuðust brettin ekki áfram sökum þess hve skringilega sandurinn lætur í þokunni. Maður þurfti því að sitja á brettinu alla leiðina til að komast eitthvað áleiðis.

Nú erum við hins vegar komnir niður af öldunni heilir á húfi verandi búnir að heimsækja stærsta frumskóg heims, með hæstu stöðuvötnum heims, með, best varðveittu múmíu heims, með dýpstu gljúfrum heims, með dularfyllstu línum heims og hæstu sandöldu í heimi. Perú er svo sannarlega eitt mesta land í heimi.

Huacachina – Lima

Adiós Perú

16. janúar 2008

Þú ert plebbi... ef þú heilsar íslendingi í útlöndum sem þú þekkir ekki
—Jón Gnarr

Það kannast allir alvöru Íslendingar við spennuna sem fylgir því að hitta landa sína í útlöndum. Nú erum við frændur búnir að hitta fjóra landa okkar í Perú. Ótrúlegt að hitta einn, en fjóra? Frænkurnar Anna og Katrín frá Inkaslóðum eru farnar heim að öllum líkindum. En í Huacachina (pínkuponsulítill bær í kringum lind í eyðimörkinni sem má með réttu kalla þetta vin) voru aðrar tvær stelpur. Hildigunnur og Birna, hvers ævintýri er hægt að lesa um á http://blog.central.is/farfuglar, eru á leiðinni til Argentínu í gegnum alla þá staði sem frændur höfum nú þegar heimsótt síðastliðnar 3 vikur. Huacachina er draumur sandbrettafíkilsins þar sem sandöldurnar eru mýmargar í allar áttir frá bænum. Bara 200 metra gangur upp ómögulegan eyðimerkursandinn og þú getur rennt þér að vild, með það í huga að maður þarf að ganga upp aftur sem er hægara sagt en gert. Sandbretti var líka það eina sem við stunduðum þarna, ásamt hinum Íslendingunum. Þegar við vorum þó orðnir of þreyttir á að ganga alltaf upp þessar brekkur og rassinn of aumur til að þola annað fall var kominn tími til að kveðja hinar íslensku vinkonur okkar og feta okkur nær Líma. Ekki þó áður en við vorum búnir að skola sandinn úr öllum rifum með fínum sundsprett á hótelinu.

15. ágúst 2007
Mikill jarðskjálfti varð í Perú þennan dag þegar Nascaflekinn rakst undir Suður-Ameríkuflekann. Hann mældist 8 á Richterskvarðanum og urðu skemmdir mestar í borginni Ica og bænum Pisco. Skjálftinn er talinn hafa valdið yfir 500 dauðsföllum auk þess sem fjölmargir slösuðust og/eða misstu heimilið sitt.

Ofangreindur jarðskjálfti lagði gjörsamlega borgina Pisco í rúst. Það var svo gott sem ekkert eftir af miðbænum þegar við komum þangað 4 og hálfum mánuði eftir skjálftann, bara múrsteinar hér og þar og gólf þar sem hús stóðu einu sinni. Maður fékk allslæmt samviskubit að horfa upp á þetta vitandi að maður gæti hafa gefið til hjálparstarfs rétt eftir jarðskjálftann en ekki gert það af einhverjum ástæðum. Fólk býr svo bara í tjöldum eða í eiginlegum kofum gerðum úr fyrrverandi húsgögnum á miðri umferðaeyju. Þetta er eiginlega of þunglyndislegt umhverfi til að vera að greina of mikið frá því hér.

Ástæðan fyrir heimsókn okkar til Pisco var þó ekki að verða vitni að hversu samviskulaus móðir jörð getur verið, heldur er borgin eiginlega skyldustopp fyrir alla þá sem vilja skoða Ballestas-eyjurnar. Þessar hitabeltiseyjur má eiginlega líkja við samansafn af eldeyjum nokkrum gráðum sunnan miðbaug. Samkvæmt okkar heimildum er þetta næst þéttsetnasta svæði dýralífs í Suður-Ameríku næst á eftir Galapagos-eyjunum við Ekvador, sem gefur Ballestas-eyjunum kenninafnið Galapagos fátæka mannsins eða Litlu Galapagos þar sem Ballestas eru víst nákvæmlega eins nema bara á mun minni skala og albátrosinn hefur ekki bláar fætur hér. Þetta er víst alveg þokkalega vinsæll viðfangastaður túrista og við förum í torfum með bátum til að skoða hjarðirnar af selum, sæljónum, svartfuglum og mörgæsum. Mjög merkilegt það alltsaman.

Að skoðunarferðinni lokinni skall svo blákaldur raunveruleikinn í hausinn á okkur. Perú er búið. Það er ekkert eftir fyrir okkur að skoða eða upplifa sem við höfum færi á. Sem leiddi okkur til Líma á ný. Hringnum lokað. 36 dögum eftir að við fórum inn í landið á fáránlegan hátt í gegnum Amasónskógin og við erum enn ólöglegir í landinu. Við erum ekki ennþá komnir með inngöngustimpil. Okkur var tjáð að ef við værum heppnir gætum við sloppið með mútum en í versta falli yrðum við reknir heim til Íslands þar sem það er víst ólöglegt að vera inn í þessu landi án þess að vera með tilheyrandi stimpil í vegabréfinu sínu.

Svo við, blásaklausir Íslendingar sem allir hafa verið svo vondir við og neitað að gera okkur löglega, þurftum að redda þessum bobba sem við vorum komnir í. Ástæðan fyrir þessum háskaleik okkar var ekki einhver ævintýraþrá og uppreisnarárátta til að sýna hversu fáránleg uppfinning landamæri eru, heldur er þetta aðgerðarleysi útlendingaeftirlitsmanna að kenna sem neituðu hver á eftir öðrum að gefa okkur bölvaðan stimpilinn og víðsuðu okkur hvað eftir annað á annan stað því þeir nenntu, að öllum líkindum, ekki að redda þessu sjálfir. Í þetta sinn ætlaði þetta að vera eins. Señoran sagði okkur að okkar eini möguleiki væri að fara aftur til Ekvador, þaðan sem við komum inn í landið, og fá stimpilinn þar. Þegar við svo tjáðum henni með tárin í kverkunum að þeir hafa ekki stimpil þarna auk þess sem við ættum flug til Punta Arenas eftir miðnætti sama dag, sagði hún okkur bara að yfirgefa bygginguna. Við vissum alveg að þetta væri endastöðin, ef við fengjum ekki þennan eftirsóknaverða stimpil þá væri reisan svo gott sem búin og ef það er eitthvað sem við höfum lært hingað til í öllum þessum fjallgöngum og fleira er að uppgjöf er aldrei möguleiki. Grindavík náði ekki að halda sér í efstu deildinni í 12 ár með því að gefast upp. Þannig að nú var að duga eða drepast. Í þessari stöðu er líka mikilvægt að kunna á menn. Engan pirring því enginn vill hjálpa pirruðum einstaklingi. Og það sem við gerðum eftir að señoran bað okkur á braut var að halda ró okkar, halda kyrru fyrir, horfa til hennar og biðja fallega aftur og aftur um hjálp hennar en hún sussaði okkur niður í hvert skipti áður en við náðum að útskýra hvers vegna við værum í þessari stöðu. Það leið svona einn klukkutími og ótrúlega margar beiðnir frá señorunni að fara burt áður en hún loksins tók mál okkar til greina. Eftir á getum við sagt að hún var tekin á gamla góða brosa og horfa í augun sálfræðibragðinu því engin getur neitað brosandi manneskju sem horfir í augun á manni um neitt. Sannleikinn er nú samt að hún áttaði sig á að við vorum ekki að fara rassgat svo eina leiðin til að losna við okkur væri að hjálpa okkur.

Eftir að mál okkar var svo loks tekið til greina var okkur leyft að skrifa umsókn sem innihélt ástæðuna fyrir aðstæðunum okkar á ensku meira að segja. Svo þurftum við að heimsækja ræðismanninn okkar í Perú ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Og það var hinn einstaki Dr. Augusto Arriola sem glaður tók á sig ábyrgðina fyrir að hleypa okkur inn í landið þrátt fyrir að við gætum vel verið með eitthvað illt í huga í Perú. Eftir að hann hafði skrifað útlendingaeftirlitinu einlægt bréf þar sem hann sagði þeim að við hefðum ekkert illt í hyggju fór svo boltinn að rúlla. Og eftir um 9 tíma puð í útlendingaeftirlitinu heyrðum við loksins besta hljóð í heimi. Hljóðið þar sem stimpillinn snerti vegabréfin okkar. „Jibbbí! Við erum á leiðinni til Síle.“ Þó hafði kellingarbeljan passað sig á að gefa okkur bara 30 daga stimpil í stað hins hefðbundna 90 daga sem þýddi að við vorum teknir fyrir og látnir borga sekt þegar við reyndum að yfirgefa landið.

En maður getur ekki sagst hafa farið til Perú án þess að hafa smakkað naggrís, eða cuy eins og þeir kalla hann. Seinasta kvöldmáltíðin okkar í landinu innihélt djúpsteikta útgáfu af þessu nagkvikindi. Og til að gera máltíðina enn skemmtilegri er það lenskan að steikja naggrísinn með kjafti og klóm og svo er hann borinn heill á diskinn. Bragðast svolítið eins og kjúklingur nema hvað naggrísinn inniheldur lítið sem ekkert kjöt. Það er virkileg kúnst að plokka allt þetta litla kjöt af dýrinu, auk þess sem skinnið festist mjög við tennurnar á virkilega óþægilegan og kúgandi hátt og þar á ofan er þetta nagdýr mun dýrari matur en allt annað af matseðlinum.Eini tilgangur með að éta þetta dýr er að nú getum við frændur sagst hafa snætt naggríss í Perú.

Punta Arenas – El Calafate

Puttalingarnir í Patagóníu

28. janúar 2008

Með naggrísaleifarnar enn fastar milli tannanna á okkur frændum skelltum við frændur okkur örlítið suður á bóginn. Alla leið suður til Patagóníu reyndar, en það nafn ber einmitt syðsti hluti Argentínu og Síle. Landsvæðið var fyrst numið af mönnum fyrir um 10.000 árum síðan og markaði það landnám þau tímamót að dreifing okkar mannanna um Jörðina urðu algjör. Eftir að Patagónía var numin voru bara nokkrar eyjur í Indlands-, Atlands- og Kyrrahafinu eftir óbyggðar. Þegar hvíti maðurinn byrjaði svo fyrst að hafa áhuga á þessu landsvæði á 19. öldinni (þá aðallega vegna landamærahroka) kom það þeim á óvart að indíánarnir sem hér bjuggu báru lítil sem engin klæði þrátt fyrir mjög kalt og vindasamt veðurfar.

En hvað í ósköpunum erum við frændur að gera hérna syðra þar sem menn þurfa að berjast við sömu 12 vindstigin og við heima á Suðurnesjunum? Ástæðan er náttúran. Menn segja að hér syðra sé að finna eitt af fallegustu landslögum í heimi og bera þar Tierra del Fuego og Torres del Paine þjóðgarðarnir höfuð og herðar yfir fjöldann allan af öðrum eflaust álíka merkilegum þjóðgörðum hér í Patagóníu. En að komast hingað er allt annað en eitthvað sem maður gerir yfir nótt. Við fórum auðveldu leiðina og byrjuðum á fjögurra tíma flugferð frá Líma í Perú til sílesku Santiago. Þaðan beið okkur önnur fjögurra tíma flugferð innanlands til Punta Arenas. Og halda mætti að menn kæmust ekki öllu syðra en það. En við frændur þrjóskuðumst samt við og fórum í 12 tíma rútuferð yfir ein landamæri til argentínsku borgarinnar Ushuaia. Sú borg er víst sú syðsta í heiminum og er oft nefnd Fin del Mundo, eða endi heimsins þar sem hún er staðsett á 54;48; Suður og þaðan er lítið annað eftir af heiminum nema sjálft Suðurskautslandið. Það sem rak okkur þangað var nálægðin við Tierra del Fuego þjóðgarðinn, nafngift sem hefur eitthvað með jörð og eld að gera en landsvæðið er einmitt syðsti hluti Andesfjallana, sama fjallagarðs og við höfum verið að skoða í Perú.

Við nutum svo sannarlega dýrðar Tierra del Fuego með dagsferð upp 973 metra hátt fjall að nafni Guanaco. Það var ekki nema rétt rúmir 20 að fjallinu þaðan sem aðrir 4 mjög torfærir kílómetrar tóku við. En útsýnið frá toppnum gerði þetta allt saman þess virði. Auk þess sem endalaust margir páfagaukar flugu í kringum mann á meðan maður gekk. En við höfum einmitt dæmt útsýnið frá þessum tindi fallegasta útsýni í heimi. Það var sama í hvaða átt maður leit það var fallegt allstaðar. Reyndar var landssvæðið í kring svo fallegt að landsvæðið í kring um Reykjanesvita bliknar í samanburði (og þá er mikið sagt því erfitt er að skáka Reykjanesskaga okkar Grindvíkinga í fegurð). Við létum dagsferðina sem innihélt „fegursta útsýni heims“ ekki hindra ferð upp að nálægum jökli utan þjóðgarðsmarkanna. Ferðin samanstóð af stuttri leigubílaferð að stólalyftu sem tók mann dágóðan spöl og að lokum undir kílómetra rölt að annaðhvort jöklinum eða útsýnisstað. Einhvernvegin var samt útsýnið þaðan samanborið við „fegursta útsýni heims“ eins og Reynir Sandgerði er í samanburði við franska landsliðið (án þess þó að gera lítið úr Reyni).

Það er eftirtektavert þarna í Ushuaia hversu marga maður hittir sem eru annaðhvort á leiðinni til- eða nýkomnir frá Suðurskautslandinu. Frá Ushuaia sigla nefnilega flestir bátar á leið til þessarar svo gott sem ósnortnu heimsálfu. Fólk getur fengið að fara þangað sem túristar í 10 til 15 daga ferð, annaðhvort ásamt 100 öðrum túristum fyrir um 5000 dali eða sníkt sér far með vísindaleiðangri fyrir örlítið meiri fjárupphæð. Við frændur létum okkur bara nægja að panta leiðangur til að sjá mörgæsir á eyju nokkrum kílómetrum frá höfninni. Það var jú ekki Suðurskautið, en við sáum jú mörgæsir. Á leiðinni að mörgæsaeyjunni svo nokkur sæljón og svartfuglar. Mjög merkilegt þannig séð, sérstaklega á einni eyjunni þar sem við sáum og heyrðum í einhverju sem við, ásamt flestum öðrum Íslendingum, bjuggumst ekki við að sjá fyrr en í maí. Þangað benti leiðsögumaðurinn og sagði þessa ákveðu fugla vera nýkomna til Patagóníu frá ókunnum slóðum og myndu svo vera það næstu mánuði. Við vorum náttúrulega ekki lengi að kannast við þessa farfugla, því þetta voru kríurnar okkar hjartnæmu. Ekki vitum við hvort þetta séu þær sömu og reyna að gogga í hausinn á okkur ár eftir ár, en kannski sjáum við þessar sömu kríur einmitt seinna á þessu ári þar sem þær vilja ekki láta okkur í friði á meðan við spilum gólf við Húsatóftir.

Næst ætluðum við frændur að ganga W-ið. Það er nafnið á þekktustu gönguleið Torres del Paine þjóðgarðinum. Til að komast þangað þurftum við að taka rútu aftur inn í Síle, í gegnum Punta Arenas til Puerto Natales þar sem útilegubúnaður eins og tjald, svefnpokar og prímus var leigður. W-ið er nefnilega 4 daga ganga. Alls 71 kílómetri. Venjulegur dagur hjá okkur frændum í W-inu er:

Vöknum við sólina um 8 leytið útbitnir af moskítóflugum sem við héldum að við værum lausir við, eldum hafragraut á prímus. Göngum í gegnum blómstruð kjörr með magnaða kletta í bakgrunn og fuglasöng allt í kring í 4 tíma, eldum súpu á prímus, göngum í 5 tíma í gegnum blómstraða velli fram hjá kristaltæru stöðuvatni með framandi fuglum fljúgandi yfir, tjöldum, étum súkkulaði og ávexti, göngum nokkra kílómetra pokalausir til að sjá yfirsýn yfir landslag dagsins, komum til baka, eldum pasta á prímus og förum svo að sofa örþreyttir, með göngusár á fótunum og sólbrenndir á nefinu þar sem við höfum ekkert ósonlag til að vernda okkur frá sterkri sólinni hafandi séð blindandi fallegt landslag fyrr um daginn.

Semsagt, ólíkt Inkaslóðum er gangan í Torres del Paine ósvikin.

Gangan byrjaði eftir hálftíma siglingu um eflaust fallegasta stöðuvatn heims að sem ber nafnið Pehoé þaðan sem gengið var meðfram jökullóni að skriðjökli. Okkur tókst að villast smá rétt áður en við komumst að tjaldsvæðinu, ekkert sérlega hentugt upp á það að við rétt náðum að tjalda fyrir myrkur. En fyrir vikið fengum við samt að sjá skriðjökullinn við sólsetur sem var svolítið mjög magnað. Næsta dag sváfum við svo hálfgerlega viljandi yfir okkur þar sem við töldum að dagurinn yrði auðveldur og við gætum leyft okkur að sofa út. Okkur skjátlaðist. Við gengum alls 33,1 kílómetra þennan dag inn í dal að nafni Valle Francés sem hefur bakhlið turnana, þá sem þjóðgarðurinn ber nafnið sitt af, á aðra hönd og risa stórt fjall á hina. Þegar kvöldsólin fór að skína á klettana við hliðina á okkur, fóru menn, eða allavega maður að nafni Rúnar Berg, að hafa dálitlar áhyggjur um að ná ekki til tjaldsvæðisins fyrir myrkur og ekki hjálpuðu endalausu snjóflóðsdrunurnar af fjallinu við að róa manninn niður. Ef maður horfði nógu lengi á fjallið var alveg víst að maður myndi sjá jökulbreiðurnar hrynja niður fjallshlíðina með þessum líka þvílíku drunum sem minntu helst á þúsund þrumur samtímis. Hinsvegar náðu litabreytingarnar á klettunum í kvöldsólinni á leiðinni til baka að róa hann aðeins niður, þó svo að maðurinn hafi ekki verið alveg rólegur fyrr en á sjálfu tjaldsvæðinu þar sem við frændur sváfum vært örþreyttir en öruggir frá hættum myrkursins í leigutjaldinu okkar.

Næsta morgun lögðum við af stað á aðeins sómasamlegri tíma um morguninn. Þriðja daginn í röð var ekki ský að sjá á himninum í Torres del Paine þjóðgarðinum. Ótrúlegt veður alveg hreint. Við höfðum verið varaðir við miklum vindi og kulda en í staðinn höfum við bara orðið varir við heiðskýrt logn. Fjórði og síðasti dagur göngunnar var svo eins. Blanka logn og ekki ský á himni á meðan við heimsóttum sjálfa turnana. Þessir turnar eru algjörlega aðskyldir Andesfjöllunum, maður sér það bara á berggerðinni, og mikilfenglegir eru þeir. En þeir sem koma inn í þjóðgarðinn til þess eins að skoða turnana missa af miklu því það er meira þjóðgarðurinn í heild sinni sem gerir hann svona merkilegan frekar en einungis turnarnir sem garðurinn ber nafn sitt af.

Það er því ekki annað að sjá nema að Patagónía hafi reynst okkur vel og ekki vitum við betur nema menn segi satt þegar þeir fullyrða að Patagónía innihaldi eitt fegursta landslag í heimi. Við höldum hins vegar leið okkar norður áfram og núna höfum við yfirgefið Síle í annað sinn og erum komnir í annað sinn til Argentínu. Hérna, í bæ sem heitir El Calafate, á víst að vera einhver merkilegur skriðjökull sem við ætlum að kanna áður en við yfirgefum Patagóníu með flugvél sem tekur okkur til höfuðborgarinnar Buenos Aires á fimmtudaginn. En ef þið eruð að hugsa um hvert skal halda til að flýja stormana á Suðurnesjum, þá getum við mælt með gönguferð með fjölskyldunni í Patagóníu.

El Calafate – Buenos Aires

Frá Buenos Aires…

6. febrúar 2008

Núna klúðruðum við þessu. Þær 10 mínútur sem við gáfum okkur til að finna réttu rútuna á þessari gígantísku rútustöð Buenos Aires dugðu okkur enganveginn, enda vorum við að leita að einni rútu af 100. Kannski reiknuðum við með meiri vilja heimamanna til að aðstoða villta túristana, en fyrr en varði sló klukkan 19:00 og rútan til Santiago fór án þess að okkur tókst að finna hana. Þá upphófst svaka spennureið með peningaprangara bak við stýrið sem sagðist geta reddað málunum. Markið var næsta rútustöð og andstæðingurinn rútan sem við reyndum að vinna með öllum tiltækum aðgerðum.

En Patagónía er á enda. Við frændur höfum heimsótt hana, orðið ástfangnir af náttúrunni hennar og nú höfum við yfirgefið hana. Það síðasta sem við gerðum áður en við flugum til Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu, var að skoða frægan skriðjökul. Og ekki er hann frægur fyrir ekkert. Reyndar er hann svo frægur að hann laðar að sér fjöldann allan af túristum dag hvern. Túristarnir eru reyndar svo margir að það er varla að maður komist fyrir á vissum stöðum innan þjóðgarðsins sem ber nafnið Jöklaþjóðgarðurinn, eða Parque Nacional los Glaciares. Aðalsmerki þjóðgarðsins er skriðjökullinn Perito Moreno sem skríður um 2 metra á dag og er fleiri kílómetrar á lengd. Hann er blessaður, eða bölvaður með auðveldu aðgengi. Maður einfaldlega sest upp í rútu sem tekur mann beint fyrir framan 50–55 metra háan jökulvegginn og svo getur maður séð ísklumpana eða jafnvel heilu breiðurnar hrynja ofan í jökullónið með þvílíkum brestum. Þegar maður hefur svo skoðað jökullinn nógu lengi hoppar maður einfaldlega aftur í rútuna og maður er kominn aftur á hótelið sitt. En stundum vilja hlutir vera meira spennandi þar sem maður þarf að klífa fjöll og firnindi til að sjá og skoða.

Við höfðum öllu að tapa en ekkert að vinna. Prangarinn lét sig fljótt hverfa með skottið á milli lappana þar sem honum hafði ekki tekist ætlunarverk sitt. Við höfðum komist að því að prangarinn hafði verið að elta handahófskennda rútu allan tímann. Þegar við neituðum að borga honum fyrir að afhenda okkur rangri rútu sagðist hann ætla að finna betra bílastæði og við sáum hann ekki meir. Kauði vildi um 3000 krónur fyrir þjónustuna greitt fyrirfram en okkur tókst að fá hann af þeirri vitleysu og sögðumst borga honum þegar töskurnar væru öruggar í rútunni.

Okkur tókst semsagt að sigra peningaprangarann en baráttan um að komast um borð í rútu var ekki enn á enda.

Buenos Aires. Höfuðborg Argentínu. Höfuðstaður tangódansins. Þar sem Evita, Che Guevara og Diego Maradona átu eflaust ófáar alvöru argentínskar nautasteikur og þar vorum við nú staddir. Tveir af Íslendingunum sem við hittum í Perú, Birna og Hildigunnur gáfu okkur þar höfðinglegar viðtökur og buðu okkur frændum að dvelja í íbúðinni þeirra þar til við yfirgæfum borgina. Þær eru þarna að stunda spænskunám og eru því með eigin íbúð. Og það verður að segjast að borgarvalið þeirra er ekki alls ekki svo slæmt. Reyndar höllumst við að því að það hafi bara verið mjög gott. Þessari borg er ósjaldan frekar líkt við evrópskar stórborgir en aðrar borgir í latnesku Ameríku. Það kemur manni á óvart hversu evrópsk hún er sama hversu oft maður hefur heyrt þetta. Allt er líka tangó þarna. Maður getur varla notið kvöldverðar eða farið út í búð án þess sjá allt á milli málverka af tangódönsurum til heilu tangósýninganna. Og svo eru náttúrulega öll ástföngnu pörin sem eru ófeimin við að sýna öðrum hve svakalega ástfangin þau eru hvort af öðru út um allar trissur.

Þessa helgi sem við vorum þarna skoðuðum við meðal annars Boca hverfið fræga, sem minnti dálítið á Havana þar sem ungmennin sátu fyrir utan heima hjá sér og annað hvort gerðu ekkert eða spiluðu í mesta lagi fótbolta. Á sama tíma og við gengum framhjá leikvangi Boca Juniors, sem sjálfur Diego Maradona spilaði ósjaldan á, fór fram stórleikur River Plate og Boca Juniors, nema bara að hann fór fram 1000 kílómetrum vestan við Buenos Aires í Mendoza. Svekkjandi það þar sem við frændur vildum báðir óska að hafa séð fótboltaleik í þessari borg.

Annars var það þessi venjulegi túrismi sem átti sér stað. Við reyndar slepptum karnívalinu sem átti sér stað eitt kvöldið en tvö okkar fóru þess í stað á svaka reif þar sem fólk var ekkert að fela grasreykingar og extasíbruðl með dúndrandi teknótónlist og þúsund mans á dansgólfinu.

Við veifuðum rútumiðanum okkar til Santiago út um allt í von um að einhver myndi hjálpa okkur að komast á leiðarenda. Og þegar rútubílstjórinn í 19:20 rútunni hjá sama fyrirtæki neitaði að hleypa okkur með, jafnvel þó við tjáðumst vera sáttir með að sitja bara á gólfinu, var útlitið svart. Stríðið virtist tapað og allt sem við lögðum undir glatað. En upp kom á ögurstundu manneskja sem virtist ekki vera sama um örlög okkar. Og þökk sé hennar hjálpsemi fengum við tvö sæti í 21:30 rútunni til Santiago í Síle með sama fyrirtæki.

Að öllum líkindum var þessi reynsla til komin vegna kæruleysis. Jafnvel eftir að málunum var reddað og stríðið þar með sigrað var enginn ávinningur nema hraðari hjartsláttur og sviti í lófum. Hefðum við á hinn boginn tapað, eins og miklar líkur voru á á tímabili, hefði orðið mikið óbætanlegt bakslag á ferð okkar um heiminn. Af reynslunni má þó læra að tímaleg mæting borgar sig. Ég held þó að ég muni aldrei aftur leggja mikilvægan rútumiða undir fyrir kaffibolla.

Af rútuferðinni sjálfri var hins vegar allt gott að frétta ef frá er talin löng bið á landamærum Argentínu og Síle. Við frændur höfðum farið 3 sinnum áður á milli þessara landa og lengst tók það 15 mínútur en í þetta sinn tók biðin 3 klukkustundir og var þar farið í gegnum allan farangur í leit að hunangi eða öðrum ólöglegum varningi, við rétt sluppum með kryddið okkar í gegn þó dóphundur einn hafi sýnt vinstri buxnavasanum hans Rúnars óþægilega mikinn áhuga. Áhugi hvutta vakti athygli fíknó og við frændur lentum í yfirheyrslum tveggja lögreglumanna. Í ljós kom að eitthvað annað en ólögleg vímuefni hafði leitt hvutta að vinstri buxnavasa Rúnars og löggumennirnir hleyptu okkur aftur inn í rútuna eftir stutta leit og allt í gúddí.

Næst munum við því láta heyra í okkur hafandi heimsótt Páskaeyju (eyjuna með öllum stóru hausunum).

Santiago – Raba Nui

Á Páskaeyju

16. febrúar 2008

Einhvern tímann á milli 5. til 9. aldar landaði þjóðflokkur á eyju í kyrrahafinu sem var einhversstaðar á milli 2–4 þúsund kílómetrum frá næstu mannabyggð. Þessi þjóðflokkur tókst á einhvern undraverðan hátt að byggja og flytja víðsvegar um eyjuna fleiri kílómetra 5–9 metra háar styttur af hausum. Og ef það er ekki nógu undravert þá tókst þeim einhvernvegin að setja hatta sem vega á við 2 fíla upp á stytturnar. Fyrir einhvers tilstilli hrjáði þjóðflokkurinn loks borgarastyrjöld og þegar utanaðkomandi menning heimsótti þá á páskadag 1722 í fyrsta sinn í 9 til 13 alda sögu eyjarinnar var menning eyjaskegga svo heiftarlega illa farin úr styrjöldinni að þeir voru farnir að stunda mannát og lifðu í hellum, auk þess sem nær allar stytturnar sem mörkuðu fyrri dýrð menningar þessarar eyju höfðu verið felldar af einhverjum ástæðum samhliða menningunni.

Þeir telja að offjölgun og ósjálfbær notkun náttúruauðlinda hafi tendrað undir baráttu um þær auðlindir sem eftir voru og loks þegar þær kláruðust var ekkert eftir fyrir íbúa þessara dularfullu eyju nema að berjast. Og ef þetta er ekki nógu sorglegur endir á menningu eyjaskegga þá sá hvíti maðurinn um að leggja lokahönd á niðurlæginguna með því að leggja eyjuna undir sauðfjárrækt fyrir Evrópumarkað og loks með því að hneppa restina af íbúum eyjarinnar í þrælahald. Þegar þarna var komið við sögu hafði hver einasta stytta á eynni verið felld. Árið 1960 sá svo flóðbylgja í kjölfarið á stærsta jarðskjálfta sem mælst hefur og, átti upptök sín í Síle, um að mölva það sem eftir var af þessum svonefndu Moai styttum. Það tók svo einn og hálfan áratug áður en einhver kom með þá hugmynd að reisa þessar dularfullu styttur aftur upp svo að menn eins og við frændur getum flogið til þessarar afskekktu eyju, sem heimamenn kalla Rapa Nui (en flestir þekkja hana undir nafninu Páskaeyja), og virt þessum dularfullu styttum fyrir okkur í fullri reisn á 21. öldinni.

Það er víst ótrúlega auðvelt að skoða Moai-ana í þar til gerðum dagsferðum þar sem maður fer með 8 öðrum túristum frá 3 málsvæðum í strumpastrætó um alla eyjuna. Okkur datt í hug að það yrði skemmtilegra (og að ekki sé minnst á ódýrara) að leigja vespu og skoða eyjuna á okkar eigin vegu. Þeir sem völdu hinn kostinn fengu að vísu leiðsögn en við frændur vorum ekki í vandræðum með að lauma okkur með hinum túristahópunum svo við gætum heyrt hvað leiðsögumaðurinn hafði um minjarnar að segja. En þrátt fyrir að eyjan sé lítil þá er fjölmargt hægt að ástunda þar annað en að bruna hana þvera og endilanga á vespu. Það má ekki gleyma að eyjan varð til úr fjölmörgum eldgosum og gígarnir eru alveg þess virði að skoða þá í dagsgöngu. Svo er hafið þarna í kring kristaltært og tilvalið til köfunar og Skúli lét það ekki framhjá sér fara. Skyggnið var alveg hreint magnað, yfir 68 en lífríkið var með minna móti. Stórkostleg köfun þar á ferð.

Þökk sé alþjóðaflugvelli og netsambandi er Rapa Nui ekki svo afskekkt lengur og það tekur „aðeins“ 5 tíma að fljúga þangað frá Santiago. Sem þýðir aðra 5 tíma til baka, og þetta allt saman í innanlandsflugi. Samkvæmt upphaflega planinu var það aldrei á dagskrá að fljúga þessa eilífð til baka. En framboð á flugum frá Rapa Nui, og allri Suður-Ameríku yfir höfuð annar ekki eftirspurn og þegar við frændur hringdum endur fyrir löngu til að breyta dagsetningu á flugunum okkar yfir kyrrahafið fengum við þau svör að öll flug væru uppseld þar til í apríl. Þess sökum sitjum við núna þegar þessi pistill er ortur á alþjóðaflugvellinum í Santiago að bíða flugs til Sydney með millilendingu í Los Angeles. Já, þið lásuð rétt. Héðan er 13 og hálfs tíma flug til Englaborgarinnar þar sem við bíðum í 12 tíma og fljúgum aðra 14 og hálfan tíma til Sydney í Ástralíu. Alls gerir þetta 28 tímar í flugi plús 12 tímar í bið svo þrjátíu tíma ferð yfir eitt haf með þessum þvílíka útúrdúr lengst norður til okkar ástkæru Bandaríkja er að hefjast að kvöldi föstudags og samkvæmt áætlun verðum við komnir til Sydney um hádegi á staðartíma næsta mánudag.

Við fengum 5 daga í Santiago milli þess sem við komum frá Páskaeyju og förum frá Santiago. Megninu ætluðum við að eyða í þessari höfuðborg Síle en Santiago er bara þannig upp lögð að það er ekkert spennandi hægt að gera þar. Allavega ekki núna að sumri til þegar vínsmökkunartúrarnir eru á fimmföldu verðlagi og skíðasvæðin lokuð. Við fórum þó í einn stærsta almenningsgarð sem við höfum séð og skelltum okkur í sund í laug sem leiðsögubiblían okkar sagði að væri einhver sú magnaðasta í heimi. Hafandi Bláa lónið í bakgarðinum heima hjá okkur urðum við að gá hvaða laug skaki sjálfu Lóninu við. Verðið þar inn var helmingurinn af aðgangseyri Lónsins svo við bjuggumst við miklu en miðað við gæði mætti lónið vel rukka 20.000 inn því þessi „magnaðasta laug í heimi“ er svona einn fimmti af lóninu okkar Grindvíkinga.

Rétt hjá Santiago er svo hafnarborg að nafni Valparaíso. Hún á að vera svo merkileg að UNESCO setti hana á heimsminjaskrá einhvern tíman um árið. Við litum þangað í heimsókn en höfðum næturstöðvar við hliðiná í borg að nafni Viña del Mar sem hefur yfirhöndina yfir Valparaíso varðandi strendur. Valparaíso er merkileg fyrir það leiti að hún er byggð upp brattar hæðir og hóla og eru notaðar lyftur til að komast á milli staða í einstaka tilfellum. Svo eru líka allir gömlu barirnir og sú staðreynd að ekki er veggur í borginni sem er ekki skreyttur með ljóðum, myndum og/eða veggjakroti með slagorðum um komandi byltingu sem gerir þessa borg svolítið hrífandi.

Í Viña del Mar er það svo bara ströndin sem er stunduð. Verandi búnir að brenna óteljandi sinnum eins og sannir Íslendingar var kominn tími til að segja stopp við þessa kvöl svo við stormuðum upp í apótek og keyptum okkur eina flösku af sólaráburði hvor. Rúnar Berg hugsaði svo að þar sem hann væri að ferðast með takmarkað fé þá ætti sólaráburður ekki að vera nein undantekning fyrir sparnað frekar en matur eða rútumiðar. Jæja, Rúnari skjátlaðist. Góð sólarvörn er ef til vill mikilvægari en þægilegir skór í sólarlöndum. Þrátt fyrir að hafa borið ítrekað og vel á sig endaði maðurinn með pólska fánan á maganum þar sem ódýrasta sólavörnin hefði kannski virkað við sólinni í Noregi en ekki í Síle.

Los Angiles – Canberra

Puttalingar meðal andfætlinga

28. febrúar 2008

Hálfleikur. Við frændur höfum tekið okkur smá hlé frá stanslausum ævintýrum og menningarsjokkum. Við höfum sem sagt snúð aftur til hins vestræna heims. Ástralíu nánar tiltekið. En það var ekki stutt ferðalag frá Santiago eins og greint var frá í síðasta pistli og til að bæta gráu ofan á svart var 3 tíma seinkun á flugvellinum í Santiago sem rétt lét okkur missa af Manchester United bursta Arsenal.

Við þurftum auðvitað að fara í gegnum allt brjálæðið til að komast inn í Bandaríkin, jafnvel þó þetta væri bara millilending. Fingraför, yfirheyrslur og svo framvegis (allt gert með svo þunglyndu yfirbragði að halda mætti að LAX sé leiðinlegasti vinnustaður í heimi) en fyrir vikið fengum við 12 tíma inn í sjálfri Los Angeles. Við skoðuðum hvernig við gætum komist til Beverly Hills og skoðað Hollywood-skiltið og það allt, en létum okkur svo bara nægja að rölta um svæðið í kringum flugvöllinn til að fá okkur alvöru amerískan Bud og borgara áður en við stukkum upp í næstu vél sem tæki okkur til Sydney.

Loks eftir ókristilega langt ferðalag komumst við loks til þessarar stærstu borgar Ástralíu. Tókum þar, eins og allir aðrir túristar, örfáar myndir af óperuhúsinu þar fræga ásamt Sydneybrúnni, nokkrum háköllum synda um í sædýrasafninu þeirra og svo framvegis. Skúli hafði nú komið hingað til Ástralíu 2 árum áður sem skiptinemi og þekkti sig aðeins til auk þess að eiga skara af vinfólki í höfuðborginni Canberra, sem er einhversstaðar á milli Sydney og Melborne. Gamla host-systir hans, Sally, var svo vinaleg að leyfa okkur tveim að gista á gólfinu heima hjá sér. Það hefur eflaust ekki verið mikið mál fyrir hana því í húsinu hennar búa fyrir 5 manneskjur auk þess sem þar er alltaf nýtt fólk öðru hvoru. Svo vanalega á meðan við dvöldum þarna sváfu á bilinu 6-8 manneskjur, allar á þrítugsaldri. Einn morguninn hafði einn íbúinn þannig orð að hversu mikið hún elskaði þetta heimili einmitt út af því hversu mikið af nýju fólki væri alltaf þarna. Á meðan dvöl okkar í þessu partíhúsi stóð átti Sally afmæli og auðvitað var okkur frændum boðið í veisluna sem fylgdi.

Canberra hefur orð á sér meðal ferðalanga að vera mjög óspennandi staður. Samt gerðum við frændur heilmargt þarna. Sally og kærastinn hennar fóru með okkur í klettaklifur í nálægum skóg þar sem Skúli prílaði ófá stórgrýti á meðan Rúnar lét sig nægja að horfa á þar sem ekki voru til neinir klifurskór sem pössuðu. Skúli kom þó ekki 100% heill frá þessari klifurreynslu sinni. Hann var það klaufskur af sér að setjast á maurabú. Íbúar búsins voru ekkert par ánægðir með það og réðust til atlögu gegn varnarlausum rassinum og skildu eftir sig ófá ummerki. Næsta dag buðu svo Sally og kærastinn hennar okkur í ósvikið ástralskt barbí þar sem við grilluðum saman kengúru, og kengúra er víst alveg frábærlega bragðgott kjöt að borða. Það tala flestir Ástralar um að það sé of mikið af þessum dýrum í þessu landi og þess vegna þyki þeim gott að borða þau.

Við fengum líka sérleiðsögn um dýragarðinn hérna í Canberra frá góðkunningja Skúla, Leigh, þar sem hann ekki bara sýndi okkur hin og þessi dýr heldur leyfði hann okkur að gefa þeim að borða. Og þessi túr innihélt ekki bara beljur og ær heldur fengum við meðal annars að mata tígrisdýr, emúa, gíraffa, birni og fjallaljón auk þess að klappa slöngum, dingóa og þess háttar. Magnað alveg hreint að sjá þessi dýr svona í návígi og éta mat sem maður réttir þeim. Leigh tók okkur svo með sér í 3 daga bíltúr til mjög svo ástralska bæjarins Albury sem er 30 þús. manna bær 250 suður af Canberra. Á leiðinni eru fjölmargir ástralskir hlutir að sjá. Meðal annars stytta af mjög frægum áströlskum hundi sem situr á nestisboxi, ástralskur kafbátur langt frá næsta sjó eða vatni og alvöru, ósviknu, áströlsku bakaríi sem býður upp á ekta kjöt- og eplabökur að áströlskum sið. Á áfangastað bíltúrsins, Albury, býr svo annar góðkunningi Skúla að nafni Richard. Við fjórir gerðum kannski ekki mikið þarna annað en að drekka, spila krikket og stunda karókí þann tíma sem við vörðum í bænum áður en við keyrðum svo til baka framhjá aragrúa af áströlskum hlutum.

Það er óhætt að segja að gamla góða vestræna menningin hefur gjörsamlega sokkið í okkur síðan við komum til Ástralíu. Í Canberra höfum við því notið þessa hálfleiks reisunnar með því að stunda keilu, fara í gólf, skella okkur í bíó og þess háttar. Stefnan héðan er svo Norður. Fyrst að stunda strendurnar á Austurströndinni alla leið til Brisbane, og síðan verður flogið til Singapúr.

Gold Coast – Singapúr

Grindvíkingarnir í Singapúr

13. mars 2008

Nú erum við frændur nýlentir á eyjuna albyggðu Singapúr eftir 7 tíma flug frá Brisbane í Queensland ríkinu í Ástralíu. Ástralarnir segja að ef það er gott veður í Suður-Ameríku er það vont í Ástralíu og öfugt, svo eftir allar sólarstundirnar í Suður-Ameríku þar sem við höfðum talið okkur trú um að ský væru í útrýmingarhættu var kannski kominn tími á að það rigndi smá á okkur. Sem það svo gerði. Að því leiti höfum við frændur litlu áorkað frá því við kvöddum góða vini í Canberra til að ferðast norður með ströndinni til Brisbane.

Í Ástralíu gerir maður ekkert skemmtilegt nema maður sé tilbúinn að borga fyrir það. Bara að lifa þarna tekur hinn meðal bakpokaling langt yfir kostnaðaráætlun, hvað þá ef maður vill kafa, stunda sjóþotur eða heimsækja þjóðgarða sem engin leið er að komast til nema með bílaleigubíl. Þess í stað fórum við í heimsókn til íslenskra námsmanna við Gullströndina svonefndu (Gold Coast) um 100 fyrir sunnan Brisbane (þökkum Brá, Gunna og Anný enn og aftur fyrir að hleypa okkur inn á heimilið sitt). Og þökk sé góða veðrinu stunduðum við ekki einu sinni strendurnar né gengum um fallega hóla sem eru einu ódýru afþreyingarnar sem við áttum kost á að stunda, það eina sem við gerðum var að skreppa í sund á milli skúra. Það var því ekki nema von að við gátum vart beðið eftir fluginu okkar til Asíu. Eftir að hafa svo tekið lestina til Brisbane var svo sama sagan. Við gerðum ekkert. Leituðum auðvitað á ódýrasta farfuglaheimilið þar sem þessi týpíska hostelstemning réði lögum og logum. Þessa hostelstemningu má finna hvar sem er í heiminum liggur við þar sem lítið annað er gert allan liðlangan daginn nema sitja við borð drekkandi hræódýrt vín og spjallað saman frá morgni til kvölds og í mesta lagi er spilað Janif, sem er ísraelskt spil með svipað skemmtanagildi og Ólsen Ólsen og hefur áorkað að vera einskonar þjóðarleikur bakpokalinga þar sem erfitt er að ferðast lengur en tvær vikur án þess að læra þetta spil. Eftir að kvölda tekur rekur þessi hostelstemning mann út á lífið með hinum hostelgestunum á þriðjudögum jafnt sem laugardögum. Þar er svo drukkið og djammað á sem ódýrastan máta þar til maður kemur aftur á farfuglaheimilið, sefur, vaknar, fær sér morgunmat, sest með liðinu og endurtekur svo daginn á undan. Nokkuð tilgangslítið líf það býst ég við. Þó kynnist maður alltaf nýju fólki á þennan máta, fólki með skemmtilegar sögur sem er ófeimið við að ráðleggja manni hvað er best að gera hvar og svo framvegis.

En nú er Ástralía að baki, næst þegar við komum hingað vitum við að ef manni langar að upplifa Ástralíu almennilega ætti maður að koma þangað með vegabréfsáritun sem heimilar manni að vinna, redda sér húsbíl og gefa sér meiri tíma til að vera þarna.

Asía tók strax við okkur með því að hýsa okkur með beddum upp á svölum. Það var akkúrat vatnsgusan framaní okkur sem benti til þess að hálfleikurinn í hinum vestræna heimi væri búinn. Ef svo einhver segir að Sydney sé fjölmenningarleg borg ætti sá hinn sami að kíkja til Singapúr. Það búa nú ekki margir í þessu borgríki en samt eru fjögur opinber tungumál, þrjú ráðandi trúarbrögð og allskonar mismunandi þjóðarbrot sem búa hérna. Maður getur fundið hindúahof, mosku og kirkju í sama hverfinu. Rigningin hélt líka áfram eftir að við komum hingað nema þegar það rignir í Singapúr fær maður hitabeltisúrhelli á sig, sem er svolítið verra en skúrarnir í Ástralía, auk þess sem það hefur ekki stytt upp síðan við komum hingað. Þó höfum við getað farið á einhver söfn, beðið í moskum, kirkjum, búdda- og hindúahofum og skoðað borgina lauslega með myndavélina á lofti þau fáu augnablik sem það rignir hlussum en ekki fossum yfir okkur.

Svo er gaman að segja frá því að fyrstu nóttina komum við saman 4 Grindvíkingar. Ekki alltaf sem svo margir úr svo litlum (og þó merkilegum) bæ skuli hittast nær 180 lengdargráðum frá heimabæ sínum. En þetta voru Ingi Björn, sem hefur verið að ferðast um Kanada, Kyrrahafið, Ástralíu og nú Asíu, og Marta Sig. sem er hér í námi. Svo fréttum við af því að hinir ágætu landar okkar í hljómsveitinni Múm ætluðu að troða upp hérna í borginni. Og nú spyrjum við: Ef Íslendingur sér harðfisk eða skyr til sölu á götum Singapúr, kaupir hann sér það ekki? Svo auðvitað látum við ekki tækifæri til að hitta (eða sjá) enn eina landa okkar á ferðinni, enda erum við frændur ekkert óhrifnir af tónlistinni sem þeir kumpánar spila. Tónleikarnir voru alveg stórkostlegir og Múm-liðar fóru á kostum í spilamennskunni fyrir fullum sal af eldheitum aðdáendum. Við spjölluðum aðeins við þau eftir tónleikana og voru þau hin hressustu með að hitta Íslendinga í Singapúr.

Á morgun ætlum við til indónesísku eyjunnar Súmötru, verðum þar í örfáa daga áður en við siglum svo upp til Malasíu sem þýðir að pásan í Ástralíu sé búin og ekki dugar að vera latir lengur, því nú er kominn tími til að upplifa ævintýri á nýjan leik, fá matareitranir, skilja ekki hvað lókallinn segir og enda einhverstaðar út í rassgati án þess að vita hvert við ætlum næst eða hvernig við ætlum að komast þangað sem gefur okkur vonandi eitthvað meira að skrifa um í næsta pistli.

Pulau Batam – Bukit Lawang

Inn í dýpstu frumskóga Súmötru

24. mars 2008

Ævintýrið um piltana tvo á mótorhjólinu á Súmötru

Á fjarlægju hafi, langt, langt í burtu er stór eyja. Eyja sem tilheyrir lýðveldinu á Indónesíu. Á þessari eyju er risa stórt stöðuvatn og á því stöðu vatni er lítil græn eyja. Þangað á þessa litlu grænu eyju fóru tveir ungir piltar á háskólaaldri að sækja ævintýri. Þeir héldu að þeir gætu allt og aldrei yrðu neinar hindranir á vegi þeirra. Á ævintýraleit fóru þeir þess vegna á mótorhjóli…Brbruhummmm! Á hnakknum sóttust þeir eftir og sáu fyrst hverasvæði með laugum sem hægt var að baða sig í. Ekki þótti þeim það nógu merkilegt svo þeir héldu áfram og sáu þar fjöldann allan af heimamönnum syngjandi og dansandi lögin sín með undirslátt og flautuleik. Þetta fannst þeim heldur ekki nógu merkilegt til að staldra lengi við svo piltarnir ungu héldu för sinni áfram þar til þeir sáu hina grænustu hrísgrjónaakra heilu kílómetrana í kringum sig. Og fyrir aftan þá kristal blátt stöðuvatnið sem umkringdi þá og næstu bæi, fyrir aftan það voru svo fjöllin fagurbláu í fjarlægð. Ef þeir litu svo í hina áttina var þar hlíðin fullvaxin af hitabeltisregnskógi. Og piltarnir stöldruðu ekki lengi þar við svo þeir héldu för sinni áfram um þessa litlu grænu eyju. Og þeir óku áfram þar til bensínið á hjólinu kláraðist. Piltarnir létu það ekki á sig fá og óku að næstu bensínstöð þar sem þeir fylltu tankinn af glænýju bensíni. Og þeir óku áfram um eyjuna þar til að eina stundina sprakk á afturhjólinu. Piltarnir reiddu því hjólið að næsta bóndabæ í von um að geta fyllt dekkið af lofti á ný, en það virkaði ekki sem skildi. Því þurftu piltarnir að reiða hjólið að næsta viðgerðarstæði til að geta lagað dekkið. Þrátt fyrir þetta allt saman héldu piltarnir áfram um eyjuna á mótorhjólinu. Og upp óku þeir, upp þessar dökkgrænu hlíðar eyjarinnar. Þar til að allt í einu það byrjaði að rigna og dimma. Það rigndi svo mikið að malarvegleysur hlíðanna fylltust af drullu sem gerði vegina ófæra. Piltarnir reyndu samt að sigra drulluna og gáfust ekki upp fyrr en hjólið loks kæfði á sér af allri áreynslunni. Þegar þar er komið við sögu var orðið mjög dimmt og tígrisdýr og úlfar farnir að fara á kreik. Piltarnir höfðu þá þurft að leggja hjólinu lengst upp á hlíðunum óvitandi hvar þeir væru. Þeirra eina úrræði var að húkka bíl til byggða. Þegar loks fengu þeir bíl var sá á leiðinni til bæjar sem var í klukkutíma fjarlægð frá þeirra bókuðu næturstöðvum. Piltarnir sáu sig þá tveimur tímum frá miðnætti liggjandi meðal hrísgrjónapoka aftan í eldgömlum vörubíl á leið til bæjar langt í burtu ekki vitandi hvernig þeir kæmust til þeirra bókuðu gististöðva né hvernig þeir gætu fundið hjólið aftur, hvað þá komið því til skila. Piltarnir enduðu því á því að þurfa að eyða með sárri hendi milljón rúbía í að ráða mannafl til að skutla sér heim, aka upp á hlíðarnar og draga hjólið af þeim og skutla því til skila.

Áfram með pistilinn

Herlegheitin sem lýsir sér í ævintýrinu fyrir ofan komu fyrir okkur frændur á skírdag. Stöðuvatnið heitir Danau Toba og eyjan Pulau Samosir. Leiðin okkar að henni byrjar í Singapúr þar sem Skúli fær allt í einu þá hugmynd að skella sér til Súmötru, Indónesíu áður en við færum til Malasíu, sjá órang-útana og svoleiðis. Jújú, morguninn eftir Múm-tónleikana förum við frændurnir á báti yfir landamærin til indónesísku eyjunnar Pulau Batam. Þar fáum við þær fréttir, þrátt fyrir að hafa tekið að við töldum vera fyrstu ferjuna yfir landamærin,að engir fleiri bátar fara til borgarinnar Pekanbaru á miðri Súmötru svo við ákveðum að kaupa okkur flugmiða þangað fyrir aðeins 400.000 rúbíur hver (3.000 krónur íslenskar og fer hækkandi). Pekanbaru er lýst í reisubiblíunni okkar sem olíuborg og ekkert meir.Við frændurnir tökum því næstu rútu sem minnir þá helst á tjikkenbössana í Níkaragva til bæjar að nafni Bukittinggi sem er staðsettur örfáum breiddarsekúndum sunnan miðbaugs. Ferðin tekur 6 tíma og minnir mann alveg á hvers vegna maður elskar samgöngurnar heima. Því í Indónesíu aka menn eins og þeim sýnist á þeim hraða sem þeir komast óháð vegskilyrðum sem gerir vestræna notendur vegakerfis þeirra skíthrædda um líf sitt. Upphaf ferðarinnar minnti okkur svolítið á rútustöðvarfílinginn í þróunarlöndunum þar sem maður er rifinn til og frá, spurður í sífellu hvert maður ætli og loks kastað inn í eina 20 ára gamla rútu þar sem farangurinn fer á toppinn og sölumenn stökkva í og úr rútunum í von um að selja okkur drykki eða snakk.

Það eru fáeinir hlutir sem eru áhugaverðir í Bukittinggi, segir reisubiblían okkar. Við frændurnir skoðum eitthvað af flestu á meðan við erum þarna. Byrjum að horfa á þessi skemmtilegu bambusþök sem taka sveig upp frá miðjunni í allar áttir. Frá því förum við í gönguferð um gjánna fyrir neðan bæinn, sú gjá er víst ótrúlegt augnayndi þar sem frumskógurinn teygir sig að rauðbrúna kletti gjárinnar, auk þess að útsýnispallur hennar inniheldur helling af öpum sem koma að sníkja snakk frá gestum. Eitt ungmenni bendir okkur á að það sé fallegt þorp þarna í hálftíma fjarlægð. Við höfum ekkert betra að gera við tímann okkar og röltum þangað sem hann bendir okkur. Ungmennið gengur þangað á undan okkur niður til botns gjárinnar og býðst loks til að leiða okkur. Hann leiðir okkur fyrst í gegnum hrísgrjónaakur og útskýrir ræktunaraðferð heimamanna. Hann segist sjálfur vinna á einum slíkum. Áður en við vitum af erum við komnir í tveggja tíma gönguferð með gjánni innanverðri sem samanstendur af fjölmörgum hnédjúpum vöðum yfir ánna, helling af risastórum leðurblökum og alvöru japanskri sturtu í háum en vatnslitlum fossi. Leiðsögumaðurinn sýnir okkur líka nokkra gróðurlausa klettaveggi. Hann segir þá hafa hrunið í stórum jarðskjálfta á seinasta ári. Skriður, hrun, skjálftar og aðrar hamfarir þykir víst voða algengt hér í þessu landi þar sem hverjar náttúruhamfarirnar reka á eftir annarri, hvort sem það séu jarðskjálftar, flóðbylgjur eða flug- eða ferjuslys. Við náum að hvíla okkur í nokkrar klukkustundir áður en við höldum af stað í næturgöngu upp á nálægt eldfjall, sem er einn af hlutunum sem reisubiblían okkar lýsir sem áhugaverðum í Bukittinggi. Við komumst að því um nóttina að það er ekki mjög gaman að taka langa gönguferð að nóttu til í regntímabili, því jafnvel þó maður sé með leiðsögn getur hann ekki verndað mann frá því að blotna í gegn og krókna úr kulda rétt fyrir dögun. En upp förum við frændur við dögun og horfum á sólina rísa frá toppnum á þessu mjög svo virka eldfjalli sem á það til að gjósa, — segir leiðsögumaðurinn okkar á meðan við frændur hlýjum okkur við eldinn, — á vikufresti.

Við gefum okkur einn dag til hvíldar eftir svefnlausan sólarhringinn á undan á lúxushóteli. Við sváfum líka mjög vel og lengi þá nótt, en vöknuðum þó snemma, hafandi verið sofandi frá klukkan 3 eftir hádegi. Skellum okkur því næst upp á rútustöð og pöntum okkur 14 tíma rútuferð til stærsta stöðuvatns í Indónesíu (málið með Súmötru eru þessar þvílíku fjarlægðir og þá staðreynd að allir vegir virðast vera í sundur eftir eitthvað flóðið, skriðuna eða skjálftann). Okkur var lofað loftkældri rútu með klósetti klukkan fjögur fjörutíu um daginn. Við dúllum okkur þangað til, mætum svo snemma á rútustöðina aftur og bíðum. Klukkutíma eftir áætlaðan brottfaratíma förum við að spá hvað sé orðið af rútunni og fáum þær fréttir að hún sé á leiðinni, það sé eitthvað að veginum frá Padang, þaðan sem rútan átti að koma, og það sé örlítil seinkun þess vegna. Að annarri klukkustund liðinni spyrjum við á ný og aftur fáum við sama svar og okkur er sagt að vera bara þolinmóðir, rútan sé alveg að koma. Þegar klukkan fer svo að ganga níu og við sjáum alla vera loka allstaðar förum við að hafa dálitlar áhyggjur að það sé engin rúta þar sem reisubiblían segir okkur að það sé oft hætt við langferðarútur ef ekki næst að fylla hana. Við getum samt lítið annað gert en beðið og tjáð óánægju okkar með þetta allt saman á meðan þeir bulla eitthvað í okkur um að rútan sé á leiðinni frá, frá Jakarta í þetta sinn. Þeir reyna líka að selja okkur dýrari miða í staðinn fyrir þann sem við höfum (á fullu verði samt sem áður) til að reyna að bæta fyrir þetta. Við tökum undir okkur söluskúr þeirra sem seldu okkur miðana á meðan við bíðum og fyrr en varir er klukkan að ganga miðnætti og enginn eftir á rútustöðinni nema við og nokkrir gaurar við innganginn sem eru að sjá um lágklassa rúturnar, þeir gefa okkur líka þær fréttir að rútan sé alveg að koma, hún hafi fests eitthvað á leiðinni frá Jakarta. Við reynum að fá þá til að vísa okkur á eitthvað hótel í nágrenninu þar sem við gætum sofið nóttina og mætt svo aftur næsta morgun til að fá miðana endurgreidda. En þess í stað festumst við fyrir framan sjónvarpið í skúrnum þeirra og horfum á Die Hard. Á mínútunni sem myndin klárast (klukkan um 2 að nóttu til) kemur einn af gaurunum sem seldu okkur rútumiðann meingallaða og segir okkur að rútan sé komin. Hann bendir okkur á eldgamla lágklassa rútu sem aftur minnir okkur á tjikkenbössana í Nikaragva og reynir að telja okkur í trú um að það sé rétta rútan. Við bendum honum á rútumiðana sem á stendur skírum stöfum að innihaldi loftkælingu og klósett sem umtöluð rúta innihaldi augljóslega ekki. Við tjáum honum að okkur sé sama með rútuna svo lengi sem við borgum í samræmi. Kauði býðst þá til að endurgreiða okkur 30.000 en við vildum fá 100.000 endurgreitt (upphaflegu miðarnir kostuðu 280.000 saman). Við sættumst loks á 70.000 og við blasir skelfilegir 14 tímar framundan. Ekki fyrr en einum sólarhring eftir áætlun komumst við til ferskvatnseyjarinnar Samosir þar sem ævintýrið um piltana tvo á mótorhjólinu á Súmötru gerist.

Danau Toba – Bukit Lawang

Bukit Lawang er þekkt fyrir frumskóginn í kringum bæinn svo og nálæga endurhæfingarmiðstöð fyrir hina rauðhærðu órang-útan apa. Miðstöðin miðar að því að koma fjölda þessara elskuðu apa í sæmilegt horf þar sem skógareyðing hér í Indónesíu og veiðiþjófar hafa sett þá í útrýmingarhættu. Skógareyðingin er einmitt mjög augljós bara fyrstu mínúturnar í landinu erum við staddir á eyju sem fyrir 40 árum var óbyggður og óhreyfður frumskógur á meðan nú er skógurinn næstum allur horfinn og á eyjunni búa 800.000 manna íbúar þessarar ört vaxandi þjóðar. En skógarnir í kringum Bukit Lawang eru næstum óhreyfðir. Við veljum okkur tveggja daga gönguferð um regnskóginn. Sjáum þar fjölmarga apa, meðal annars eina 8 órang-útana, og þessi feiknaháu tré sem einkenna regnskógana á eyjunum milli Indlands- og Kyrrahafsins. Fyrri dagurinn fer allur í hægfara göngu um stíga skógsins þar sem mikið er stoppað til að skoða apa. Síðdegis komum við að næturstöðvunum þar sem tekin er góður sundsprettur í ánni sem rennur við hlið tjaldbúðanna. Næsti morgun er svo páskadagsmorgun. Auðvitað hefst hann á skínandi sólbaði við bakkann eða bara í ánni. Ánna notum við svo til að komast til baka til byggða. Við skellum saman nokkrum trukkaslöngum, hendum bakpokunum í plast og bindum þá við slöngurnar og notum þær svo til flúðasiglinga niður ánna. Ágætur páskadagsmorgunn það. Frumskógarferðin var þá í heildina litið mjög góð því jafnvel án apana eru trén í skóginum vel heimsóknarinnar virði. Svo vorum við líka ótrúlega heppnir með veðrið því monsúnregnið lét okkur alveg vera í frumskóginum þó svo það hafi böggað okkur alla hina dagana á Súmötru.

Georgetown – Ko Chayam

Klettaklifur í Tælandi: Skúli

7. apríl 2008

Eftir ævintýrin í Súmötru héldum við frændurnir för okkar áfram yfir til Malasíu, skoðuðum bæinn Georgetown á ejunni Penang. Þar var meðal annars risastórt Búddahof. Endalaust af Búddastyttum og skemmtilegheit en þeim tókst að skemma þetta pínulítið með því að selja ýmiskonar túristavarning allsstaðar í hofinu. Eftir Georgetown brunuðum við til Railay í Tælandi sem er ekki eyja en vegna þess að enginn vegur liggur þangað líður manni eins og maður sé staddur á eyju.

Í Tælandi er endalaust af túristum, skiljanlega þar sem endalaust er af gullfallegum ströndum, fólkið er endalaust vinalegt og allt er endalaust ódýrt. Rúnar berg fann mannlausar strendur og gullfalleg lón á Railay áður en hann hélt til Wat suan Mokkh til að stunda hugleiðslu í 10 daga. Drengurinn borgar einhverja nokkra þúsundkalla til að fá að læra að hugleiða og fær 2 máltíðir á dag. Það verður mjög forvitnilegt að heyra hvernig þetta var alltsaman. Sérstaklega þar sem drengurinn er alltaf að éta eitthvað, allan liðlangan daginn.

Ég skráði mig strax í þriggja daga klifurnámskeið um leið og ég kom til Railay, en Krabisvæðið —þar sem Railay er— er himnaríki fyrir klifuráhugamanninn. Á svæðinu eru yfir 700 klifurleiðir í öllum styrkleikaflokkum og endalaust af fyrirtækjum sem leigja út búnað.

Á þessu námskeiði lærði ég undirstöðuatriðin í klettaklifri og skemmti ég mér konunglega. Daginn eftir námskeiðið fór ég í dagsferð um nærliggjandi eyjar og náði aðeins að slappa af (og brenna) fyrir næsta klifur. Ég hafði skráð mig í deep water soloing ferð, en það felst í því að klifra kletta með ekkert reipi, heldur vatn fyrir neðan sig. Þegar maður kemst ekki lengra hoppar maður einfaldlega niður. Hrikalegt stuð að hoppa niður af 15 metra syllu.

Eftir allt þetta klifur var ég orðinn þreyttur, mjög þreyttur. Þess vegna stoppaði ég ekki lengi á næsta æafangastað; Ko Phi Phi. Á Ko Phi Phi er allt of mikið af ferðamönnum fyrir minn smekk. Sérstaklega eru Svíar áberandi hérna, Svíanýlendan Phi Phi. Ég gerði lítið annað þar en að djamma og kíkja á ströndina úr „The Beach“. Ströndin var ekki jafn tilkomumikil og ég bjóst við, líklega vegna þess að hún var full af fólki og það rigndi á mig. Ojæja.

Nú er ég í fríi á eyjunni Ko Phayam. Það getur verið mjög þreytandi að ferðast svona lengi, bæði fyrir líkama og sál svo ég er hérna til að hlaða batterýin fyrir síðasta hluta ferðarinnar. Og þetta er einmitt rétti staðurinn til að gera það. Kofinn sem ég er í er alveg á ströndinni sem er svo gott sem mannlaus. Þannig að í augnablikinu geri ég ekkert nema sofa, borða og lesa á ströndinni. Hið ljúfa líf.

Hérna ætla ég að vera þangað til að við frændurnir sameinumst á ný í Bangkok fyrir svaka vatnsslag sem verður á tælenska nýárinu.

Georgetown – Bangkok

Hugleiðsla í Tælandi: Rúnar Berg

15. apríl 2008

Eins og Skúli mynntist á í síðasta pistli þá hef ég verið að lifa klausturlífinu undafarna daga. Fróðleiksfýsnin hófst í Kek Lok Si hofinu í Georgetown, sem á víst að vera eitthvað merkilegasta hof Malasíu. Þar einmitt var mér var gefinn sá heiður að fá að skrifa nafnið mitt og þjóðerni á þakflís sem setja á yfir þann risa brons-Búdda sem gnæfir yfir hofinu með magnað útsýni yfir þessa mjög svo ágætu borg sem Georgtown er. Í fyrrnefndu hofi (Kek Lok Si) var mér gefin bók. Sú bók var hluti af þessari flóru sem fylgir upphaflegu ritum Búddismans. En hún nægði ekki til að svala forvitninni. Ég vildi vita meira. Svo ég yfirgaf Skúla þar sem hann var staddur í Railay að stunda klettaklifur meðal einstakra kletta sem risu fyrir ofan snæhvítar strendur með kristal tærum sjó og frábærum frumskóg í kring, svo og fórnaði ég fjölmörgum eyjum þar sem ástandið átti bara eftir að verða betra, til þess eins að komast í 10 daga fráhvarf sem kenndi hugleiðslu eftir sið theravada-búddisma í klaustri nokkru hér í Suður-Tælandi.

Klaustrið heitir Wat Suan Mokkh, eða frelsisgarðurinn, og var stofnað af Buddhadasa Bikkhu, frægum munki hér í Tælandi. Ævistarf sitt tileinkaði hann að færa Búddismann úr hofunum og klaustrunum yfir til almennings, jafn í Tælandi sem og utan. Á 9. áratug seinustu aldar keypti hann land rétt utan við Suan Mokkh sem átti eingöngu að vera notað til að kenna útlendingum (þá sérstaklega vesturlandabúum) búddismann eins og hann túlkaði hann. Túlkun Buddhadasa var einmitt mjög frjálslynd og hann vísaði oft í biblíuna, kóraninn eða fræði vísindanna til að styðja mál sitt. Annað merkilegt sem hann gerði var að endurheimta og setja á mannamál forna hugleiðsluaðferð sem margir telja að hafi verið sú aðferð sem sjálfur Búdda hafi mælt með fyrir 25 öldum síðan. Þessi aðferð nefnist á Pali-tungumálinu Anapanasati, sem myndi íslenskast sem: „Það að vera meðvitaður um inn- og útöndunina sína“. Mér gekk svosem ágætlega með þessa hugleiðslu. Á þriðja degi áttaði ég mig á því að ég hafði ómeðvitaður stundað einhverskonar frumstæða útgáfu af anapanasati á andvökunóttum frá því snemma á unglingsárunum og gat því þokkalega auðveldlega komið mér í þá djúpu einbeitningu sem ætlast var til. Þegar þangað er komið er auðvelt að kalla fram þægilegar tilfinningar og sleppa frá sér óþægilegum, eins og kvölunum í löppunum sem eiga það til að verða blóðlausar eftir að hafa borið stóran hluta líkamsþungans krosslagðar í yfir hálftíma. Vandamálið var bara þegar maður kom sér úr þessari djúpu einbeitningu og kvalirnar komu fram allar í einu.

Hvað dagana í fráhvarfinu varðar, svo menn geta séð fyrir hvað ég fórnaði ljúfa lífinu á tælensku ströndunum, þá byrjaði dagurinn klukkan 4 þegar þar sem stunduð var stutt hugleiðsla með fagurmælum, þaðan af var farið í 90 mínútna jóga sem hjálpaði mér, manni sem aldrei hefur náð taki á tánum sínum, rosalega. Eftir eina stutta hugleiðslu í viðbót fór hópurinn í morgunmat sem samanstóð ávallt af hrísgrjónasúpu (ótrúlegt en satt en hún er bragðverri en hún hljómar). Eftir morgunmat var gott að slaka á í einum af heitu laugunum í hofinu áður en dagmálsdagskráin hófst. Þar hugleitt á ýmsa vegu auk einnar kennslustundar í dhamma (dharma á Sanskrit og virkar fyrir búddismann eins og Guð virkar fyrir kristnina). Hádegismaturinn var svo oft á tíðum bara mjög góður, en hann var einmitt síðasta máltíð dagsins og því vissara að borða vel. Fram til kvölds var haldið áfram að gera það sem maður hafði verið að gera allan daginn, þ.e. hugleiða, nema rétt fyrir myrkur var tekin upp söngvabók og sungið í svona 30 mínútur á tungumáli sem dó út fyrir mörgum öldum síðan, en þetta var einmitt í eina skiptið sem maður mátti tala. Eftir stuttu pásu á þeim tíma dags er moskítókvikindin eru hvað skæðust var haldið áfram að hugleiða þar til klukkan var orðin hálftíu og tími til að fara í háttinn. Það sem tók við manni þar var steinsteypt rúm og trékoddi (þeir sögðu manni að trékoddi gerði mann glaðari um morguninn, en ég lét ekki reyna á það heldur bjó ég mér til kodda úr taugpoka og íslensku lopapeysunni sem enn og aftur kom að góðum notum enda þarfaþing hvar sem í heiminum, við hvaða aðstæður sem er).

Annars var fátt frásögu færandi við klausturlífið sem myndi réttlæta fjarveru mína frá þessum heimsfrægu tælensku ströndum. Fyrir utan þá gífurlegu dýpt vaðandi skilning á tilverunni sem ég fékk með öllum þeim lærdómi sem kenndur var í hofinu varðandi innsæi, orsök og afleiðingu, skilning og túlkun, allar hliðar Dhamma og margt annað sem gefur manni algjörlega nýja sín á veruleikanum. Kennsluaðferðirnar voru svo frekar framandi, þar sem manni er í rauninni kennt að hugsa og það er víst enginn sem getur prófað mann, gefið manni verkefni eða fylgst með hugsunum manns, svo maður verður bara að fylgjast sjálfur með og passa sjálfur upp á að halda sér á brautinni. Í klaustrinu þurftu allir þátttakendur (sem voru tæplega 100 til að byrja með en fækkaði svo smátt og smátt eftir því sem á leið) að halda ákveðnum reglum. Maður átti að halda sér frá: a) Því að drepa hvaða lífsform sem er (maurar og moskítókvikindi meðtalin), b) því að taka hluti án leyfis eiganda, c) því að fara með meiðyrði, d) kynferðislegri hugsun, e) ástundun eða tjáningu, f) inntaka sljóvgandi, örvandi eða eitrandi efni (kaffi þar með talið), g) borða milli hádegis og dögunar, h) því að fegra eða skemmta sér og i) frá því að sofa eða sitja í lúxus rúmi eða stól. Svo og átti maður að halda algjöra þögn, sem innihélt skrif, lestur eða hverskonar tjáningu eða hlustun og maður varð að halda sér inn í hofinu alla 10 dagana án sambands við umheiminn. Maður átti í aðalatriðum að halda sér útaf fyrir sig sjálfan og engan annan. Og svo eftir tíu daga frelsi frá umheiminum er manni hleypt breyttum út í heim freistinga og efnishyggju þar sem maður á að viðhalda þeim vegi sem manni var kennt í átt til frelsisins eða Nirvana.

Þegar ég svo lít til baka, þó svo að ég hafi ekki verið djúpt sokkinn í efnishyggjuna, þá sé ég hvað ég var yfirborðskenndur, óhugvitsamur og ef til vill gráðugur í sumum hlutum lífs míns. Til dæmis hvað varðar mataræði, hvernig ég gat borðað suma hluti bara af því að „mér“ fannst það gott eða jafnvel bara af því að „ég“ hafði ekkert annað að gera, eða ef til vill varðandi bjórneyslu og annað slíkt. En nú kem ég sem sagt til baka nýr maður, sem borðar ekki kjöt, drekkur áfengi í algjöru hófi og lifi sjálfbæru lífi í sátt við lífið, Guð og náttúruna.

Og svona til að leyfa mér að átta mig á hversu friðsæll heimurinn getur verið á einum stað og kaótískur á öðrum fór ég beint til Bangkok að hitta Skúla. Þar tekur songkhran hátíðin á móti mér með öllu sínu veldi, sem er haldin til að fagna tælenska nýárinu. Það er ekki sniðug hugmynd að vafra ráðalaus um göturnar með pokann á bakinu á meðan sú hátíð stendur þar sem göturnar eiga það til að fyllast af fólki með fullhlaðnar vatnsbyssur og fötur með ísköldu vatni sem það notar með það eitt í huga að rennbleyta alla þá sem eiga leið hjá og áður en maður veit af er maður eins blautur og arabi sem dettur í rauðahafið, ef til vill blautari. Ekki alltaf sem maður fær að fagna tveim nýárum með tæplega 5 mánaða millibili. Við Skúli keyptum okkur auðvitað byssur og höfum síðustu daga hlaupið um götur Bangkok eins og óðir menn og stundað vatnsskærur eins og við best getum. Enda er þetta alveg hrikalegt fjör.

Við erum samt farnir að sjá í endann á reisunni. Hún verður ekki alveg eins víðförul og við höfðum fyrst áætlað. Kannski vorum við örlítið óraunhæfir að ætla okkur að sjá svona hrikalega mikið á einu bretti. Þannig höfum við báðir ákveðið að sleppa lestarferðinni milli ólympíuborgarinnar umdeildu, Peking, til Moskvu auk þess sem Skúli ætlar einnig að sleppa því að heimsækja Víetnam og fljúga þess í stað heim héðan frá Bangkok 17. maí næstkomandi hafandi ferðast einn hring til Laos, Kambódíu og aftur til Bangkok. Ég, Rúnar Berg, ætla á hinn boginn að kveðja Asíu 1. júní hafandi ferðast norður með Víetnam. Við frændur höfum af þessum sökum kvatt hvorn annan og munum því segja frá lokasprettinum í sitthvoru lagi.

Bangkok – Luang Prabang

Gönguferðir á hæðum norður-Tælands: Rúnar Berg

24. apríl 2008

Það síðasta sem ég gerði í höfuðborg Tælands eftir að ég kvaddi Skúla var að rennblotna á leiðinni í lestina. Fólk var enn á fullu að bjóða árið 2551 velkomið og hikaði því ekki við að hella ísköldu vatni yfir varnarlausan túristann með þungan bakpokann sinn á bakinu. Ég var á leiðinni til Chieng Mae í norður-Tælandi í lest. Eitt af því sem er svo frábært við Tæland er það að flestar næturlestir eru búnar miðlungsþægilegum kojum sem gerir manni kleyft að spara tíma með því að ferðast lengri leiðir að nóttu til.

Aðalaðdráttarafl norður-Tælands eru hæðirnar þar sem bjóða upp á einhvern slatta af gönguleiðum. Venjuleg gönguferð inniheldur stuttan fílreiðtúr, smá gönguspöl, gistingu í einu af fjallaþorpunum og bambusflekasiglingu. Ég lét mig hafa það að gera eins og allir aðrir og stimplaði mig inn í slíka gönguferð sem tók þrjá daga.

Þetta var alltsaman seim seim, böt diffrend, eins og Tælendingarnir orða það best. Það var fátt merkilegt við fílsbakið. Reiðtúrinn tók svona hálftíma og það eina sem maður gerði var að sitja á bekk ofan á greyið skepnunni á meðan maður sem sat á hausnum þröngvaði hana áfram með því að slá hana með goggi svipuðum þeim sem notaðir eru notaðir til að hífa þorska í fiskiskipin heima. Þegar hringnum lauk kveiktu þeir bál fyrir framan hóp af hlekkjuðum fílum með þeim afleiðingum að skepnurnar brjáluðust en komust hvergi. Hafandi séð þessa illu meðferð á dýrunum sá ég eftir að hafa komið nálægt þessu öllu saman, hvað þá að hafa borgað fyrir þetta. Svo var bara auðveldur gangur um hæðirnar í tvo tíma með mörgum pásum áður en göngumenn böðuðu sig í á sem rann meðfram áhugaverðu þorpi. Hæðirnar eru fullar af slíkum þorpum. Þau eru ekki byggð Tælendingum heldur hinum ýmsu fjórða heims þjóðflokkum, en það eru þjóðflokkar kallaðir sem flytjast og lifa óháð landamærum (svipað og Sígunar í Evrópu).

Þorpið sem minn gönguhópur dvaldi í er byggt af þjóðflokki sem kallar sig Karen, en það er fjölmennasti þjóðflokkurinn um þessar slóðir, af Tælendingum undanskyldum, og telur um 500.000 manns. Reisubiblían segir mér að Karen-fólkið hafi byrjað að flytjast þangað á 17. öld en flestir séu þó nýlegir innflytjendur frá Búrma, þar sem herstjórnin þar í landi gerir þeim lífið leitt. Leiðsögumaðurinn sagði mér líka að fyrrverandi forsætisráðherra Tælands (sá sem var rekinn í síðasta valdaráni hersins) hafði áætlanir um að reka þetta fólk aftur inn til Búrma með fyrirsjáanlegum afleiðingum, en kóngurinn hafi beitt neitunarvaldi og sagði mögulegt að hjálpa þessu fólki í staðinn. Maður sér líka að þetta fólk hefur það ekki alslæmt, allavega miðað við til dæmis indíána í latnesku-Ameríku, þar sem Karen-börnin ganga um í nýlegum fötum og leika sér með leður-fótbolta á meðan húsin eru vel-viðhaldin og oftar en ekki tengd sólarrafhlöðu. Í snatri minnist ég þann tíma sem ég dvaldi hjá Maya-indíánunum í Gvatemala og sá börnin í eldgömlum tættum fjötrum sínum að leika sér með sambundna plastpoka fyrir fótbolta og mömmuna elda matinn í miðaldareldhúsi í húsi sem er lítið meira en fjórar bárujárnsplötur og þak yfir moldargólfi. En Tælendingar mega vera stoltir af kónginum sínum og valdamenn annarra þjóða, þá sérstaklega í vesturveldunum, ættu að taka hann sér til fyrirmyndar.

Ég og gönguflokkurinn minn, semsagt, gistum í þessu Karen-þorpi fyrstu nóttina. Ég giska á að þau fái mikið af túristum til sín af enskukunnáttunni og söluáræðninni þeirra að dæma. Næstu tveir daga voru af þessum „sama, sama! Öðruvísi þó,“ toga, þar til við fórum á bambusflekann og heimamenn, enn heitir frá songkran hátíðinni, þreyttust ekki á að skvetta á túristann og túristinn skemmti sér við að skvetta til baka.

Ég sá það að það var ekkert mikið meira fyrir mig að gera í norður-Tælandi eftir gönguna, svo ég lagði á prjónana að fara yfir Mekongánna til Laos. En svo þótti mér sniðug hugmynd að sækja stutt matreiðslunámskeið fyrst, áður en ég færi yfir landamærin. Frábært líka að læra að elda nokkra grænmetisrétti af tælenskum sið fyrir þennan nýja lífstíl minn sem grænmetisæta, sið sem ég tók upp eftir dvölina í klaustrinu um daginn. Jújú, námskeiðið var fínt og ég lærði helling, svo fékk ég líka uppskriftabók til að taka með mér og lesa yfir á meðan ég fór um kvöldið að hinu mikla Mekongfljóti.

Nema nú þegar þurrkatímabilið er í hámarki og sólin hvað hæst á lofti er Mekong ekki svo mikil. Frá landamærunum er tveggja daga sigling með fljótinu að hinni fornu höfuðborg Lao-þjóðarinnar Luang Prabang (fólksfjöldi undir 30.000). Á leiðinni gat maður auðveldlega séð hve vatnslítið fljótið er núna miðað við fullt vatnsmagn, því oft voru tugir metra frá ánni upp til punktsins sem fljótið nær þegar það hæst lætur. Núna er samt tímabilið þegar heimamenn brenna akrana sína til að rækta hrísgrjón þegar það byrjar að væta á ný, auk þess sem skyggnið er mjög takmarkað vegna ryks í andrúmsloftinu, svo þetta er líklegast versti tíminn yfir árið til að fara í þessa siglingu, en maður getur vel ímyndað sér þá fegurð sem er í kringum fljótið í rigningatímabilinu þegar allt er grænt og falleg.

Báturinn var fullur af túristum. Flestir heimamenn kjósa að ferðast um í spíttbátum frekar en fljótaferju eins og ég var í, en það tekur spíttbát aðeins 6 tíma að fara leiðina frá landamærunum til Luang Prabang, á meðan það tekur fljótaferjuna 2 daga. Í bátnum hitti ég einn Þjóðverja sem hefur brennandi áhuga á íslenskri goðafræði og Hollending sem er að hjóla leiðina frá Malasíu til ólympíuborgarinnar Peking. Við ákváðum að spara nokkur þúsund kip (gjaldmiðillinn í Laos og er u.þ.b. hundraðföld krónan) með því að deila hótelherbergi. Það fyrsta sem við gerðum þegar við komum hingað til Luang Prabang var að kaupa okkur flösku af hræódýru laosku viskíi sem kallast Lao Lao og er um 50% alkahól og er bruggað úr hrísgrjónum. Morguninn eftir ákvað ég, og ég held félagar mínir líka, að kaupa ekki aðra flösku á næstunni. Við þrír höfum það svo á prjónunum að halda í sjálfstæðan leiðangur hér um slóðir. Við sjáum til hvernig það fer, hvort við villumst eða verðum étnir af tígrisdýri verður þá að ráðast í næsta pistli.

Bangkok – Laos – Bangkok

Frá Bangkok, til Laós og til baka: Skúli

1. maí 2008

Eins og Rúnar sagði frá í síðasta pistli hittumst við aftur í Bangkok til að fagna tælenska nýja árinu. Úff!!, þvílíkt brjálæði: 4.daga vatnsslagur svo gott sem allan sólarhringinn og komst maður ekki út af hótelinu án þess að rennblotna. Þannig að það þýddi lítið annað en að kaupa sér vatnsbyssu og taka þátt í látunum. Mér tókst að ná mér í heiftarlega eyrnabólgu sem olli því að ég heyrði ekkert úr öðru eyranu og lítið úr hinu. Með hjálp massívra sýklalyfja tókst mér að losna við sýkinguna sem þó blossaði aftur upp fyrir nokkrum dögum og þess vegna þurfti ég að fara fyrr en ætlað var frá Laos til að geta séð eyrnalækni í Bangkok.

Eftir að hafa hvatt Rúnar Berg fór ég í dagsferð til Kanchanaburi svæðisins sem hefur mjög merka sögu frá seinni heimsstyrjöldinni. Japanir lögðu lestarteina í gegnum svæðið og til Búrma árin 1942–1943 og notuðu þeir mörg hundruð þúsund stríðsfanga við verkið sem kostaði þúsundir mannslífa vegna sjúkdóma, slysa og slæmrar meðferðar. Þarna er einnig hin fræga brú yfir ána Kwai sem sprengd var upp af Bretum en endurreist síðarmeir. Það sorglega var að Japarnir vissu að breski flugherinn væri að koma til að sprengju upp brúna svo þeir sendu mörg hundruð stríðsfanga á brúna til að veifa flugvélunum í þeirri von um að þeir mynda hlífa brúnni. Bretarnir létu þetta ekki stoppa sig, heldur sprengdu þeir brúna og alla sem á henni stóðu og litaðist áin Kwai rauð af blóði látinna stríðsfanga.

Aðalástæðan fyrir því að ég fór samt í þessa ferð var til að heimsækja Tiger Temple sem er Búddahof sem var stofnað árið 1994 í þeim tilgangi að vera athvarf fyrir hin ýmsu dýr. Það sem dregur flesta þangað eru tígrisdýr sem gestir geta fengið að klappa og láta taka myndir af sér með. Tígrisdýrin æfa allan morguninn og eru mjög þreytt þegar túristunum er hleypt nálægt þeim þannig að þau eru mjög afslöppuð. Alveg hreint ótrúleg upplifun að komast svona nálægt þessum mögnuðu skepnum án þess að eiga í hættu að vera étinn. Þetta hafði verið draumur hjá mér alveg síðan ég frétti af þessum stað í landi brosanna.

Um hverja helgi er risa-stór markaður í Bangkok þar sem allt frá snákum og hvolpum upp í sófasett er selt á fáránlegu verði. Ég missti mig aðeins í bola- og bindakaupum og endaði með tösku fulla af fötum og skóm. Ég verð fátækur námsmaður næstu fimm árin þannig að ég tók öll fatakaup núna meðan ég á smá pjéníng þar sem fátækir námsmenn geta ekki leyft sér munað eins og ný föt. Áður en að ég yfirgaf Bangkok tók ég túristann á þetta og kíkti á bling-bling-konungshöllina og Wat Phra Kaew hofið.

Þá var förinni heitið til Laos, eins mest sprengda lands í heimi sagði mér einhver. Ég stoppaði stutt í höfuðborginni Vientiane og hélt til Vang Vieng í nokkra daga. Aðalsportið þar er fyrirbrigði sem kallast á ensku tubing en það felst í því að fljóta niður ána sem liggur við bæinn á innri traktorslöngu, stoppa á 100 metra fresti á einum af fjölmörgum börum sem liggja við ána. Þar fær maður sér einn öl eða kokteilfötu og spilar strandblak með fullt af öðrum ferðalöngum. Þetta stundaði ég í þrjá daga og horfði þess á milli á Friends á einum af mörgum veitingastöðum bæjarins sem sýna þættina frá opnun til lokunar. Mjög hretzande alltsaman.

Næst fór ég til Plain of Jars þar sem hundruðir af leikrukkum eru dreifðar yfir svæðið. Enginn veit hverjir byggðu krukkurnar, af hvaða ástæðum eða nákvæmlega hvenær þær voru gerðar. Mjög leyndardómsfullt saman. Á sama svæði kíkti ég á ágætis morgunmarkað og sprengigíga frá því að Bandaríkjamenn sprengdu landið til andskotans í Víetnam stríðinu. Leiðsögumaðurinn, Mr.Be Careful, var mjög svo tilviljunakenndur. Hann sagðist vera mjög þakklátur BNA-mönnum fyrir að sprengja landið hans í öreindir vegna þess að nú hafa þeir fullt af áli til að búa til skeiðar. Guð bless`ann. Við kíktum líka á viskíþorp þar sem gömul kona sturtaði í okkur níðsterku hrísgrjónaviskíi klukkan níu að morgni til, maður vildi nú ekki vera dónalegur og neita boðinu. Ekkert betra en viskí til að vekja mann svona á morgnana.

Í gærnótt horfði ég á frábæran fótboltaleik. Þurfti reyndar að borga starfsmanni á ónefndu gistihúsi til að leyfa mér að horfa á Man. Utd. vinna Barcelona því allt var löngu lokað og gistihúsið mitt var ekki með sjónvarp. Var líka áreittur af misógeðfelldum gleðikonum á leiðinni til og frá gistihússins. Það sem maður leggur ekki á sig til að horfa á góðan fótboltaleik.

Eyrnalæknirinn skafaði merg og drullu liggur við í kílóatali úr eyrunum á mér í morgun en sagði að ég væri ennþá með sýkingu þannig að ég þarf aftur að fara á sýklalyf í viku í viðbót. Ég er að hugsa um að fara til Kambódíu í fyrramálið og segji ég frá komandi ævintýrum í væntanlega síðasta pistlinum vegna þess að ég fer heim eftir rúmar tvær vikur.

Luang Prabang – Vientiane

Háskaför um sveitir Laós: Rúnar Berg

1. maí 2008

Í dag, baráttudagur verkalýðsins, er ég staddur í höfuðborg kommúnistaríkisins Laos sem ber nafnið Vientiane og er nýbúinn að leggja dalalífið frá mér um stund þar sem ég er búinn að vera að hjálpa til á lífrænu landbúnaðarbýli sem er á leiðinni milli Vientiane og Luang Prabang. Ég dvaldist þar þó aðeins í 2 daga og 3 nætur. Fyrri daginn hjálpaði ég til við að planta nokkrum mintum, sem er nákvæmlega eins og að setja niður kartöflur í Hollívúddgarðinum heima í Grindavík. Það kom mér á óvart hversu mikið ég saknaði gamaldags erfiðisvinnu og heldur ekki slæmt að minna mann á hana svona rétt fyrir verkalýðsdaginn.

Seinni daginn þarna skrapp ég í bæinn, sem er 3 kílómetrum fyrir Sunnan bóndabæinn og ber nafnið Vang Viang. Sá bær er vel þekktur meðal bakpokalinga annarsvegar vegna ánar sem rennur við hliðina á bænum og býður upp á siglingar á trukkaslöngum og hins vegar fyrir Friends-menninguna svokölluðu (sem lýsir sér svo að falangarnir, hvítingjar, planta sér niður á bar, sem oftar en ekki hefur aðstöðu sem leyfir þeim að liggja, og stara á imbann sem spilar gamla þætti af „Vinum“. Fregnir herma (og útskýra þessa hegðun falanga, sem ferðast tugþúsundir kílómetra til að liggja á bar og horfa á „Vini“) að í nær 100% tilvika séu þeir drekkandi svokallaðan grashristing á meðan).

Ég lét Vinina eiga sig, enda getur maður alltaf séð þá á Stöð 2 annað slagið heima á Íslandi, en hins vegar prufaði ég trukkaslöngusiglinguna niður ánna. Til að byrja með er áin þétt umkringd börum sem hvetja mann til að drekka hóflegt magn sterkra áfengisdrykkja eins og hrísgrjóna viskíinu Lao Lao svo og að stökkva frá himinháum rólum niður í ánna. Menningin er svolítið sérstök þar sem barþjónarnir kasta til manni floti úr bambus, flöskum eða hverju sem er á meðan maður flýtur fram hjá á slöngunni sinni og grípur í flotið. Maður er svo dreginn á barinn þar sem maður getur drukkið, hlustað á tónlist, stokkið ofan í ánna úr 10 metra hæð eftir á. Stundum lenti maður á bar sem bauð upp á grashristing, gras-hitt og gras-þetta, og það voru oftar en ekki sömu barirnir og höfðu skilti fyrir framan 10 metra háu róluna sína sem minnti mann á grjót í ánni, bað mann að stökkva á eigin ábyrgð og sagði svo að næsta spítala væri að finna í Bangkok. En það er orðið sama hvar maður er í heiminum, allsstaðar finnur maður hvít ungmenni að reykja gras sama um afleiðingarnar sem þeir hafa á heimamenn.

Ég greindi frá í síðasta pistli að ég ásamt Þjóðverjanum Bernie (sem hefur brennandi áhuga á norrænni goðafræði sem og færeysku hljómsveitinni Týr) og Hollendingnum Niek (sem er á leiðinni til Peking á hjóli), sem ég hitti í ferjunni á Mekongfljótinu, höfðum haft það á prjónunum að halda í leiðangur saman. Við settum okkur háleit markmið og ætluðum okkur að áorka sem mestu.

Gangan átti að fara þannig fram að við höfðum engin tímamörk en takmarkaðar matarbirgðir. Við ætluðum þess í stað að reiða okkur á þorpin fyrir mat og gistingu. Það fyrsta sem við gerðum þó var að spyrjast fyrir um pakka-leiðangur. Við komumst þar að þeirri staðreynd að hver og einn þáttakandi í slíkum leiðangri þarf að reiða fram yfir 100 bandaríkjadali fyrir þriggja daga pakka. Við fundum okkur þá kort á netinu. Vandamálið var bara að eina kortið sem til er af svæðinu með fullnægjandi upplýsingum var bandarískt herkort frá 1954. Við ákváðum samt að láta reyna á áreiðanleika kortsins og drógum leiðina Austur að Þúsundkrukkuvöllum (Plain of Jars). 6–8 daga ganga myndi það verða var okkur sagt af heimamönnum.

Fyrst þó áður en lagt yrði í hann tókum við tuk-tuk að mögnuðum grænbláum fossum í grenndinni. Það kom mér á óvart hversu ótrúlega fallegir þeir eru en þetta er röð fjölda fossa sem renna í lítil lón sem svo renna í aðra fossa og svo framvegis.

Næsta morgun tók svo raunveruleikinn við. Við byrjuðum á að líta á matvælamarkað heimamanna þar sem við keyptum kíló af grjónum, hnetum og núðlum auk tjillísósu, nokkur grömm af salti og nokkra vatnslítra. Bernie var með vatnssíu, sveðju og tjald til að vera reiðubúnir ef til þess skyldi koma að við þyrftum að setja upp næturstöðvar í náttúrunni og Niek var með frasaorðabók á Laó svo við gætum tjáð okkur við þorpsbúa á leiðinni. Þá var einskis að bíða nema ganga af stað.

Fyrsta göngudeginum er best lýst með því að vitna í færslu í dagbókinni minni skrifaða 25. apríl 2008, á meðan ég beið eftir morgunmat fyrir dag 2 í þorpinu Ban Houie Nok:

Ég held að gangan taki lengri tíma [en sex daga]. Við eigum í vandræðum með að rata og tjá okkur við heimamenn. Við erum þannig búnir að við getum reddað okkur út í náttúrunni en kjósum að dvelja í þorpunum. Núna er fyrsta þorpsstöðvunin og ég er að bíða á meðan félagar mínir vakna áður en við höldum áfram Austur. Við byrjuðum gönguna meðfram akvegi að þorpi sem heitir Ban Xieng Lom. Með kort frá 1954 var ekki skrítið að við tókum nokkrar rangar beygjur. Lengsti útúrdúrinn var 20 mínútna rölt að pinkulitlu þorpi og til baka. Við náðum okkur svo í kanóaferju yfir Khan ánna (sem tengist Mekong-fljótinu við Luang Prabang). Nema hinum megin ánar vorum við eins og beljur á hálu svelli. Ef ekki hefði verið fyrir hjálpsama heimamennina hefðum við þurft að gista ráðavilltir út í náttúrunni í stað þess að eyða nóttinni hér í Ban Houie Nok. […] Við ætluðum upphaflega að eyða nóttinni í þorpi að nafni Ban Xieng My, nema annaðhvort er þorpið ekki lengur til eða gangstígarnir hér í skóginum hefur stórlega breyst. Nú erum við að borða morgunmat og svo höldum við út í óvissuna á ný. Og vonandi fáum við að sjá Þúsundkrukkuvelli áður en langt um líður.

Aðkoman í Ban Houie Nok hafði í för með sér töluvert menningarsjokk. Við höfðum glatað stígnum rétt fyrir rökkvun en hjón sem voru að ljúka dagsvinnu sinni við hrísgrjónaakur rétt utan þorpsins buðust til að fylgja okkur til byggða. Ég spyr mig stundum hvernig þeir nenni að standa í þessu að hjálpa ringluðum túristum, því þeir vita að túristarnir eiga ekki eftir að skilja upp né niður í neinu sem þeir segja en samt leggja þeir sig allan fram í að reyna að koma réttum upplýsingum til skila. En við sáum loks stíginn breikka og áður en við vissum af vorum við inn á milli fjölda húsa sem öll voru vafin saman eins og trékörfur. Húsin voru heldur ekki fá, kannski álíka mörg og í Höfnum, og ekki heimamenn heldur, sem voru sennilega álíka margir og Vogabúar í júní 2007, þar af um 60–70% yngri en 16 ára. Allir voru þeir þó duglegir við að stara á þessa skrítnu og sjaldséðu falanga og þeir gátu starað tímunum saman 20-30 í senn. Það kom mér spánskt fyrir sjónir hversu opið þorpið er. Örþunnir stráveggirnir eru ekki til að skapa neitt persónulegt einkalíf fyrir þorpsbúa en þeir öskruðu á hvorn annan og voru ófeimnir við að sýna reiði, garga eða skæla á götum úti. Jafnvel við sólarupprás klukkan um 5 um morguninn voru ópin byrjuð.

Sú dagbókafærsla sem fjallar um dag tvö göngunnar sem áætluð var til Þúsundkrukkuvalla í Laos var skrifuð 28. apríl í Luang Prabang, og hljóðar svo:

Við vöknuðum allir klukkan 6 til að borða morgunmat sem þorpsbúar útbjuggu handa okkur. Egg og grjón er kannski ekki mikið undir venjulegum kringumstæðum en fínt þó fyrir okkur. Allavega bjuggumst við ekki við neinu meiru. Nema þorpsbúar ofrukkuðu okkur fyrir greiðan, 40.000 kip sem er tvöfalt sanngjarnt verð. Þeir hafa komist að því að við værum ekki þessi venjulegi leiðsagði gönguhópur svo þeir hafa ætla að maka krókinn. Við höfðum ekki annarra kosta völ nema borga brúsann, en þeim varð af bókagjöf fyrir að láta svona.

Við setjum það sem takmark dagsins að fara yfir fjallið fyrir Austan okkur og hafa næturstöðvar í þorpi hinum megin við það. Við spyrjum heimamenn hvert skal halda og leggjum svo í hann. Leiðin áfram virðist brött og fyrr en varið finnum við óvart gamla námu. Við förum inn í hana og veltum henni fyrir okkur í smá stund og klifrum svo upp góðan göngustíg inn í dal þar sem vegurinn tvístrast. Við tökum þá ákvörðum að ganga meðfram dalnum og þá leið upp að tindinum. Í miðjum dalnum verða á vegi okkar þrír vopnaðir menn. Einn þeirra er með sjálfvirkan stríðsriffil (M-16) og okkur grunar að þeir séu á ólöglegum veiðum. Eftir langa og stranga göngu upp brattan stíg erum við loks undir tindinum sem nær yfir 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar hverfur vegurinn og vatnsbirgðirnar okkar eru nær á þrotum. Skógurinn undir tindinum er víður svo við göngum meðfram tindinum í von um að finna nýjan stíg. Og hvað við erum líka ótrúlega heppnir hálftíma síðar að finna hann. Góðan og vel breiðan stíg sem liggur Norð-Austur, vonandi að öðru þorpi þar sem við getum fyllt á vatnið okkar og fundið leiðina Suð-Austur af fjallinu. Stígurinn, hins vegar, leiðir okkur um fjögur holt og fimm brattar hæðir án þess að sýna okkur hina minnstu vatnsuppsprettu og nú er allt okkar vatn þrotið. Við höfum tekið þá ákvörðun að labba og leita af þorpi eða vatni til klukkan 6 og setja þá upp búðir og grafa eftir vatni.

Áður en klukkan slær 6 göngum við framhjá fullt af aldinlausum trjám, þurum árfarvegum og mjólkurlausum beljum. En svo loksins, korter fyrir 6, sjáum við örlitla, agnasmáa vatnsprænu sem er lítið meira en nokkrir dropar fyrir ofan leðjuborinn göngustíginn. Þessi örlitla, agnarsmáa vatnsspræna ætti að vera nóg til að halda okkur á lífi næstu tvo daga eða svo. Við setjum upp búðir þarna rétt hjá, finnum nokkra ávexti og grænmeti, eldum okkur núðlur og tökum þá ákvörðun, eftir harkföll dagsins, að þar sem við munum aldrei ná til Þúsundkrukkuvalla í tæka tíð ættum við að fara niður fjallið Norðan megin og finna okkur þaðan leið aftur til Luang Prabang.

Þriðji dagurinn hófst á soðnum hrísgrjónum, óauðkenndum ávöxtum og bambus-tei sem við fengum með því að sjóða vatnið úr okkar frumstæðu vatnsuppsprettu inni í nýhöggnum bambus (og er bragðast eins og hinn besti drykkur). Við lögðum svo af stað með það í huga að koma okkur af fjallinu og aftur til byggða. En við höfðum ekki gengið í 40 mínútur en við gengum út úr þjóðgarði (sem við vissum fyrst þá að væri slíkur) og inn í nýtt þorp. Meira að segja var þetta þorp tengt vegi og með vegvísum með latneskri skrift. Umferðin til og frá þorpinu var hins vegar engin svo við gengum meðfram akvegi niður í dal sem umkringdur var brenndum hlíðum í stað þeirra skógi vöxnu sem við höfðum verið að ganga um deginum áður. Þarna var heldur enginn gróður til að taka í sig rakan, ólíkt degi tvö, sem gerði veðrið samanburðahæft við sjóðandi heitt gufubað. Að minnsta kosti höfðum við nóg vatn. Við þurftum að þola 2 tíma göngu í gegnum þetta gufubað, eða þangað til við gengum að rútuskýli (kom okkur dálítið spánskt fyrir sjónir að sjá allt í einu rútuskýli miðað við að hafa ekki einu sinni heyrt í bílvél síðustu þrjá daga) þar sem sawngthaew1 tók okkur upp og skutlaði okkur þremenningunum til Luang Prabang.

Ég verð þó að segja að þó gangan hafi ekki gengið eftir áætlun var hún fullkomlega þess virði. Við Bernie og Niek áttum þarna góðar stundir saman og þó við komumst ekki til Þúsundkrukkuvalla (sem Skúli hefur líklegast eitthvað að segja um) þá afrekuðum við að lifa í framandi náttúru og upplifa en meira framandi þorpamenningu fyrir 10% af þeim kostnaði sem samskonar leiðangur hefði kostað í gegnum ferðaskrifstofu. Svo náttúrulega líka það að allt verður óneitanlega mun fallegra, betra og skemmtilegra ef maður uppgötvar það upp á eigin spýtur og allar sínar birgðir á bakinu í stað þess að vera leiddur þangað með leiðsögumanni og 10 öðrum ókunnugum túristum.


  1. Sanwgthaew er lítill pallbíll með yfirbyggðan pall og tveim bekkjum þar inni og er notaður í almenningssamgöngur þar sem farþegum er troðið eins og hey í bagga á vegalengdum sem spanna allt að 3-4 tíma akstur, einskonar tjikkenbössar Suðaustur-Asíu.

Bangkok – Kambódía – Bangkok

Kambódía: Skúli

16. maí 2008

Kvöldið áður en ég fór til Kambódíu fór ég að sjá Muy Thai bardaga í Bangkok. Muy Thai á sér mjög langa sögu í Tælandi og er þjóðarsport landsins en íþróttin er svipuð kickboxing og má nota alla hluta líkamans nema höfuðið til að berja andstæðinginn. Fyrir hvern bardaga sýna keppendurnir einhverskonar dans sem er mjög forvitnilegur. Ég sá 10 bardaga, hver bardagi var 5 lotur og hver lota 3 mínútur. Húsið er líka fullt af öskrandi köllum sem eru að veðja og koma mjög fyndin hljóð frá þeim því hver tegund af höggi virðist hafa sérstakt hljóð hjá áhorfendum. „Ú ú á ú a a ó ó…“

Fyrsti áfangastaðurinn í Kambódíu var Siem Riep þar sem hið stórfenglega Angkor Wat og Angkor Thom er staðsett. Þessar rústir eru leifar frá hinu gríðarlega veldi Khmerana á 9–15 öld og eru á heimsminjaskrá UNESCO, af góðum ástæðum. Angkor Wat er stærsta trúarlega bygging í heiminum og að sjá sólina rísa fyrir aftan bygginguna var stórfengleg sjón. Ég tók einn dag í að skoða rústirnar með Kanadabúanum Mike, sem ég hitti á leiðinni til Kambódíu, einn dagur var nóg fyrir okkur Mike að skoða megnið af rústunum á svæðinu.

Næst héldum við til höfuðborgarinnar Phnom Penh þar sem tuk-tuk bílstjórinn Joe tók á móti okkur þegar við stigum út úr rútunni. Joe var algjör snillingur, hann skutlaði okkur út um alla borg, fór með okkur á djammið og bauð okkur heim til sín í kvöldmat. Ef þú ert einhverntímann í Phnom Penh, lesandi góður, þá er Joe maðurinn fyrir þig.

Fyrsti dagurinn var mjög svo þunglyndislegur. Joe tók okkur að skoða Toul Sleng og Killing Fields, leifar frá skelfilegri sögu Kambódíu á áttunda áratugnum. Illmennið Pol Pot ásamt Rauðu Khmerunum yfirtók landið árið 1975 og ákvað að byrja upp á nýtt og að árið 0 væri gengið í garð. Hann ætlaði sér að byrja nýja menningu svo bækur voru brenndar, hof eyðilögð og fólk sem hafði einhverja menntun eða talaði önnur tungumál var einfaldlega myrt. Pot sendi flesta íbúa landsins að vinna á hrísgrjónaökrum og ætlaðist til að framleiðsla landsins á hrísgrjónum tvöfaldaðist á einu bretti en fólk þurfti að vinna allt of langa vinnudaga og fékk allt of lítinn mat úthlutað þannig að hundruð þúsundir manna létust af vannæringu og lélegri meðferð.

Killing Fields eru fjöldagrafir þar sem fórnarlömb þjóðarmorðanna í Kambódíu voru grafin. Áætlað er að meira en 200.000 manns hafi verið teknir af lífi frá 1975–79 en áætluð dauðsföll í heildina er 1,4 til 2,2 milljónir manns á þessum 5 árum. Fólk var tekið af lífi af minnstu ástæðum til dæmis fyrir það eitt að hafa samskipti við útlendinga var fólk tekið til Killing Fields og tekið af lífi. Til að spara skotfæri var fólkið oft barið til dauða og voru margir neiddir til að grafa eigin grafir áður en þau voru myrt.

Toul Sleng safnið var skóli áður en að Pol Pot breytti honum í S-21 öryggisfangelsið. Nú er þetta safn með myndum af fórnarlömbum Rauðu Khmerana sem vou í haldi í fangelsinu. Á fimm árum er áætlað að um 17.000 manns hafi verið pyntaðir í fangelsinu og að lokum tekið af lífi en einungis 12 manns komust lifandi út úr fangelsinu. Það var skelfilegt að sjá myndirnar af fórnarlömbunum því mjög mikið var af börnum, nokkur sem litu ekki út fyrir að vera mikið meira en 2–3 ára gömul.

Eftir öll þessi ósköp heimsóttum við munaðarleysingjahæli daginn eftir og eyddum deginum í að hjálpa til við að kenna krökkum ensku. Enskukennslan er í boði ókeypis fyrir alla krakka sem hafa áhuga og voru um 60 börn sem komu á þremur mismunandi tímum yfir daginn. Af þessum börnum búa 10 börn á heimilinu, sem er rekið eingöngu með styrkjum og sjálfboðaliðastarfi en ég gaf 20 dollara sem dugir fyrir matarkaupum í þrjá daga. Krakkarnir voru svakalega áhugasöm að læra og voru mjög ánægð með tækifærið að læra ensku sem nýtist þeim eflaust í framtíðinni.

Morguninn eftir mætti Joe hress og keyrði okkur á skotsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar sem rekið er af Kambódíska hernum. Fyrir rétt verð getur maður skotið af hinum ýmsu vopnum, allt frá skammbyssum og upp í sprengjuvörpur. Einnig getur maður sprengt kjúkling eða belju en ég hafði nú ekki áhuga á því að drepa saklausa skepnu.

Ég byrjaði á að hita upp með skjóta 10 skotum úr skammbyssu áður en ég tók eina AK-47 í hönd. AK-47 var hönnuð af Mikhail Kalashnikov fyrir Sovetríkin árið 1947 og hefur verið mikið notuð um allan heim síðan þá. Ég skaut líka úr annarri rússneskri hríðskotabyssu áður en ég prufaði hina bandarísku M2 sem var stærsta byssan sem þeir höfðu á svæðinu. Síðast en ekki síst keypti ég handsprengju, tók pinnann úr og henti í litla tjörn. Vá!!, þvílík sprenging, jörðin hristist og ég fékk þvílíkt adrenalínkikk.

Eftir að hafa fengið næga útrás fór Joe með okkur á markað þar sem ég bragðaði á ýmsu góðgæti eins og engisprettum, kakkalökkum og tarantúlum. Mjög gómsætt alltsaman. Þeir éta allan andskotann hérna í Kambódíu og Laos, er nokkuð viss um að ég hafi étið hund einu sinni eða tvisvar. Stundum þarf maður að benda á eitthvað þegar fólkið talar ekki ensku og maður veit ekki alveg hvað maður er að láta upp í sig.

Nú var kominn tími til að yfirgefa Joe, Mike og höfuðborgina svo að ég fór til strandbæjarins Sihanoukville. Ég ætlaði að vera þar í viku en það byrjaði að rigna á fjórða degi og var áfram spáð rigningu þannig að ég fór aftur til Bangkok eftir fjóra daga.

Sihanoukville er mjög afslappaður bær og á meðan ég var þar gerði ég lítið annað en að borða humar og fá fótanudd á meðan ég lá á sólbekk á ströndinni. Hræódýrt auðvitað. En nú er ég enn og aftur í Bangkok og hef verið hér síðustu 3 daga. Ég er bara búinn að vera að slappa af á sundlaugarbakkanum á fína hótelinu mínu og bíða eftir fluginu heim. Dagurinn í dag er síðasti dagur heimsreisunnar og á morgun verð ég kominn heim í blíðuna á Íslandi.

Takk fyrir mig,
Skúli Pálmason

Vientiane – Ha Noi

Yfir 3000 km á þrem vikum: Rúnar Berg

18. maí 2008

Frá því seinasti pistill var skrifaður hef ég ferðast langan veg á stuttum tíma, eða frá Vientiane niður að kambódísku landamærunum á pallbílum, rútum og strumpastrætóum, frá landamærunum til Phnom Penh, Siem Reap og aftur til Phnom Penh í rútum, svo frá Phnom Penh í gegnum síðustu sprænur Mekong-fljótsins til Ho Chi Minh-borgar (Saigon fyrir þá sem horfa á gömlu stríðsmyndirnar um Víetnam) með bátum og bílum til skiptis og að lokum 40 klukkustundir í lest frá Ho Chi Minh-borg til Hanoi og stutt rútuferð þaðan að Ha Long flóanum og til baka til Hanoi. Þetta eru eflaust meira en 3000 kílómetrar og maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum einhver ætti að ferðast þessa vegalengd án þess að gefa sér meiri tíma eða hvað ég var að fara þennan útúrdúr því að auðveldlega er hægt að fara á einum degi beint frá Vientiane til Hanoi með rútu eða fljúga þangað hvenær sem er fyrir slikk á rétt rúmri klukkustund.

Tímaleysi er fyrsta svarið og röð misheppilegra óafturkræfra tilviljana það seinna. En óháð þessu var ég ekki mjög ánægður með kröfur, eða kröfuleysi, verkalýðsins í höfuðborg Laos 1. maí. Göturnar voru að vísu flaggaðar með gulum hamri og sigð á rauðum grunni (eins og alla aðra daga) en verkalýðsbaráttuna var hvergi að finna hjá fátæku stéttum borgarinnar. Kannski missti ég af því eða að fólk sé bara hreinlega of fátækt til að láta í sér heyra. Síðast þegar það var reynt af einhverjum krafti, eða í október 1999 (skv. mínum heimildum), voru mótmælin kramin niður af stjórnvöldum og sópuð undir teppi.

Þegar ég var kominn með vegabréfsáritun inn í Kambódíu fór ég í langa rútuferð suður frá höfuðborginni. Ég ætlaði alveg að kambódísku landamærunum en skoða nokkra hluti Laos-megin fyrst. Sawngthaew (lítill pallbíll með tveimur bekkjum meðfram síðum pallsins fyrir farþega) ók mig að forsmekk fyrir Angkor-rústunum. Wat Phou voru þær nefndar sem myndi íslenskast sem fjallahofið og eru sagðar merkilegustu rústir Angkor-veldisins utan Kambódíu. Sawngthaewinn skilaði mér í bæ 10 kílómetrum frá rústunum svo þá var lítið annað að gera en að leigja sér reiðhjól fyrir rúmar 90 krónur (sem er sanngjarnt verð á 24ja stunda reiðhjólaleigu í Laos) og hjóla restina. Ég vissi að ég ætti eftir að sjá Angkor Wat eftir nokkra daga en ég komst ekki hjá því að hrífast þessum nákvæmu og vel varðveittu veggjagröfum sem Khmer-veldið var svo frægt fyrir á 9.–13. öld. Svo og hreyfst ég líka yfir þeirri staðreynd að fyrir utan nokkra Tælendinga, sem höfðu skroppið yfir landamærin í leyfinu sínu, þá hafði maður rústirnar alveg útaf fyrir sig og gat gengið um og skoðað eins og manni sýndist. Ekki margar 1200 ára rústir í heiminum þar sem manni er treyst til þess.

Alveg syðst í Laos, við landamærin við Kambódíu, er svo einn merkilegur staður í viðbót sem er þess virði að heimsækja áður en maður fer yfir til Kambódíu. Það er staðurinn sem Mekong-fljótið breiðir úr sér í allt að 14 kílómetra og skilur í leiðinni eftir sig hundruð landbúta, eða eyjur, af öllum stærðum á miðju fljótinu. Þennan stað kalla þeir Si Phan Don, eða „Fjögur þúsund eyjur“. Á fáeinum eyjunum er að finna bæi og þykir þetta víst rosa merkilegt allt saman.

Rútan skilaði mér að árbakkanum og lítill kanói ferjaði mig og þrjá aðra túrista yfir að þeirri Mekong-eyju sem ég hafði helst viljað sjá, Don Det. Það tók mig fáeinar mínútur að finna mér kofa sem sneri að sólarupprásinni fyrir um 90 krónur nóttina. Og þá var komið að hinni fyrstu misheppilegu óafturkræfu tilviljun. Ég taldi það vera góða hugmynd að taka mér göngutúr um eyjuna berhöfðaður svona hálftíma fyrir hásæli. Eyjan var lítil en hún var tengd annarri með brú sem ég heyrði að maður gæti sér ferskvatnshöfrunga í bráðri útrýmingarhættu og fossa og svoleiðis. Auðvitað finn ég brúnna og geng á hinn endann á hinni eyjunni í steikjandi sólinni, vitandi að ég eigi ekki eftir að uppskera neitt nema sólsting fyrir þetta glapræði. Eftir svona klukkustund hafði ég fundið staðinn sem höfrungarnir eru sagðir halda sig á sá ég enga höfrunga. Sennilega hefði ég þurft bát til. En það skipti ekki máli, á leiðinni til baka ætlaði ég að sjá foss. Ég hafði ekki kort og gekk því tilfinningunni einni. Á leiðinni þurfti ég að ganga yfir vafasömustu brú sem ég hef á ævinni séð. Sett saman úr hundrað ára gömlum járnbrautateinum sem voru studdir með örþunnum jafngömlum járnplötum (oftar en ekki riðguðum í gegn) og síðast var svo einföld röð viðarplanka sem maður átti að nota til að ganga yfir herlegheitin. Þegar ég var kominn yfir brúnna hálftíma seinna leit ég til baka og skellti uppúr. Brúin var jafnvel verr á að líta hinum megin frá og hefði ég séð hana þaðan fyrst hefði ég reynt að finna mér aðra leið framhjá. Ég fann fossinn fyrr en varði og gat farið að finna brúnna yfir á eyjuna mína aftur. Ég komst svo í kofann minn og held ég hafi sofnað svona um það bil og ég komst inn um kofadyrnar. Ég hafði eflaust gengið svona 15 kílómetra frá því um hádeginu og var þar að auki steiktur eftir allt sólskinið.

Næsta dag var það svo Kambódía. Ég hafði keypt rútumiða til Siem Reap og komst að því eftir á að hann innihélt gistingu í Phnom Penh. Ég notaði þá þessa dvöl yfir nótt í höfuðborg Kambódíu til að koma vegabréfinu mínu í hendur hótels í von um að vera svo kominn með vegabréfsáritun til Víetnam þegar ég kæmi til baka. Hótelið reyndi svo að svindla á mér með því að ljúga að mér óhagstæðu gengi og reyndi að fá mig þannig til að borga 1700 krónum meira en ég ætti að borga. Ég endaði á að borga rétt verð með fyrsta tilgreinda gjaldmiðlinum (bandaríkjadölum) og skipti böhtunum mínum annarsstaðar fyrir þriðjungi hærra gengi en kauði á hótelinu hafði svarið upp á áður. Hótelið náði mér samt morguninn eftir með því að gefa mér 15 af umsömdum morgunverði en ég dvaldi heldur ekki aftur þar og mun ekki gera það framar.

Rútan hélt svo áfram næsta morgun og skilaði mér til Siem Reap um tvöleitið. Ég beið til 4:30 með Angkor-rústirnar því ég heyrði að maður gæti keypt miða eftir þann tíma sem myndi líka gilda morguninn eftir. Ég fékk því sólsetursupplifun af sjálfu Angkor Wat. Alveg mögnuð bygging sem fer ofarlega á listann hjá mér yfir mikilfenglegar byggingar. Ég reddaði mér hjóli í Siem Reap áður en ég fór að sofa og var svo mættur fyrstur inn um hliðin næsta morgun. Það var svo dimmt að ég hafði ekki hugmynd um hvaða rústir væru hvar né hvernig ég ætti að komast þangað. Svo ég sá einhversstaðar skuggamynd af pýramída, lagði við hliðiná og þreifaði mig upp píramídann. Þar á toppnum beið ég svo eftir sólarupprás þaðan sem ég gat fundið hvar ég væri og hjólað áfram og skoðað fleiri rústir. Alveg ótrúlegt hvað sumstaðar rústirnar eru látnar vera og maður getur vafrað um einn með sjálfum sér. Ég var kannski örlítið of lengi að vafra um hinar misjöfnu rústir svæðisins (misheppileg óafturkræf tilviljun nr.2) og sá sjálfan mig enn og aftur berhöfðaðan í miðdegissólinni.

Einar rústirnar sem ég hafði ákveðið að bíða með þar til seinast og voru sérstakar fyrir það að vera furðu lítið endurreistar og maður á að geta séð þær í bland við frumskóginn sem hylur þær og heldur þeim brengluðum saman. Nema bara að þessar tilteknu rústir voru yfirfullar af pakkatúristum þegar ég kom þangað og ekki hægt að hreifa sig þegar maður var kominn inn. Ég var ekki lengi að fá upp í kok af látunum í öllu fólkinu og þeirri staðreynd að ég gæti hvergi séð í rústirnar þar sem það stæðu alltaf hundrað manns fyrir. Nema bara að þegar ég ætlaði loks að láta mig hverfa, þá komst ég hvergi. Maður komst ekki einu sinni út, staðurinn var svo pakkaður, svona eins og Pöbbinn eftir Sjómannadagsballið, svo slæmt var ástandið.

Það síðasta sem ég gerði svo áður en ég hjólaði aftur til byggða var að skoða sjálft Angkor Wat, svona í síðasta skiptið. Og varð ekki fyrir vonbrigðum. Hofið var næstum tómt, jafnvel um eftirmiðdegið, og ég gat notið mín þarna klukkustund til viðbótar að lesa út gömlu hindúasögurnar sem eru greftruð í veggi hofsins.

9. maí var ég svo kominn aftir til Phnom Penh. Ég var farinn að fá afleiðingar þess að vera berhöfðaður í miðdegissólinni. Ég var kominn með einhvern versta höfuðverk sem ég hef nokkurntímann fengið. Ég gat hafið mig í að skoða Konungshöllina og Silfruðu pagóðuna sem voru byggð snemma á 20. öld og eru gulli skreytt mannvirki eins og konungum einum hæfir. Mjög fallegt alltsaman. En meira gat ég ekki skoðað og endurheimti því vegabréfið mitt og keypti mér þriggja daga pakka til Ho Chi Minh-borgar (eða Saigon fyrir þá sem horfa á gömlu stríðsmyndirnar um Víetnam) í gegnum svæðið sem Mekong-fljótið rennur til sjávar.

Pakkinn var lítt frá sögu færandi, fékk að sjá hversu mun iðnvæddari Víetnamar eru heldur en nágrannaþjóðirnar í austri en lítið meira. Hausverkurinn versnaði dag frá degi og hávaðinn jókst því nær sem ég dróst Ho Chi Minh-borg. Ég held án efa að Víetnam sé hávaðasamasta land í heimi. Í Phnom Penh er kannski mikið af mótorhjólum en í Víetnam eru göturnar bókstaflega fullar af mótorhjólum, svona jafnfullar og Lækjargata á Menningarnótt. Og á Indónesíu eru menn kannski óhræddir við að nota flautuna, en í Víetnam líða ekki 2 sekúndur án þess að maður heyri röð bíla flauta næstu 10. Og eitthvað hefur þessi hávaði frá umferðinni uppfært sig inn í hegðunina því Víetnamar tala sennilega manna hæst og margir í einu í sömu samræðunum auk þess að gera allt á sem hávaðasamasta máta og mögulegt er. Jafnvel hnerrarnir þeirra hljóma tífalt meiri en hnerrar íslenskra karlmanna. Og þannig getur 5 manna hópur Víetnama haft sömu læti og heilt kríuvarp. Alveg skelfilegt land til að vera með höfuðverk.

En hvers vegna eftir þetta, ákveð ég svo að fara í 40 tíma lestarferð upp gjörvalt landið frá Ho Chi Minh-borg til Hanoi án þess að stoppa neinsstaðar á leiðinni (tveir bæir þarna á milli eru til dæmis á heimsminjaskrá UNESCO)?

Ein ástæðan var sú að ég stóð þeirrar trúar að lestin væri rólegasti staðurinn í landinu og væri þar með kjörin til að losna við höfuðverkinn. En aðalástæðan var sú að flugbandalagið mitt tókst að misupplýsa mig um þá staðreynd að það væri ekki hægt að fljúga frá Hanoi, í Norðu-Víetnam, til London, heldur yrði ég að fljúga frá Ho Chi Minh og lét mig ekki vita af því fyrr en ég var kominn til Ho Chi Minh svo ég ákvað ljúka bara ferðalaginu norður strax af og skellti mér í lestina. Ég hefði getað keypt flug fyrir örlítið minna, en flug læknar ekki höfuðverki eins og lestin gerði. Reyndar svaf ég 40 stundirnar nánast samfleytt og hef sjaldan upplifað jafn langa ferð jafn stutta.

Þegar lestin kom til Hanoi var enn nótt svo ég ákvað að skella mér bara strax í tveggja daga ferð til Ha Long flóans sem merkilegur fyrir fjölmarga feikimagnaða kletta sem sumir hverjir innihalda hella og setti UNESCO svæðið á náttúruminjaskrá fyrir þetta sérstaka landslag sem hann hefur. Ég fór í ódýrusta 4 tíma túrinn sem ég fann til að skoða flóann sem innihélt hellaskoðun og siglingu um flóann. Túrinn innihélt auðvitað bara heimamenn að mér undanskildum og fór því fram á víetnömsku eingöngu. Ég einangraði mig frá hávaðasamri restinni uppi á þaki þar sem ég fékk líka útsýni á meðan báturinn sigldi um flóann fræga. Hellirinn sem við heimsóttum var meira eins og sirkús þar sem búið var að upplýsa hann með öllum regnbogans litum og skreyta með svona hella-goshver og hella-snák. En það var samt merkilegt hversu stór og víður hellirinn var og svo var bara landslag flóans nógu fallegt til að gera þetta allt þess virði. Svo hef ég bara verið að fíla mig í Hanoi sem er furðu heillandi borg þrátt fyrir öll mótorhjólin.

Ha Noi – Van Gia

Made in Vietnam: Rúnar Berg

29. maí 2008

Ég hef verið að gramsa í þessum örlitla fataskáp, eða poka öllu heldur, sem ég hef borið síðustu 9 mánuðina. Af forvitni ákvað ég að skoða litla hvíta miðann á dótinu mínu. Sá þar að flestar eignir mínar eru „made in Vietnam“, þar með talinn 16.000 króna gore-tex regngalli keyptur í Útilíf áður en ég fór út. Og þar sem allt sem ég á er víetnamskt að uppruna fannst mér við hæfi að endurnýja fataskápinn (eða pokann) með ósviknum víetnömskum gæðavörum svona áður en ég myndi snúa heim sem tilvonandi námsmaður — hvers litla orlof eru einu peningarnir sem hann á eftir.

Ég lét sérsníða á mig glæný jakkaföt úr gæðaefni með vesti, silkibindi og skyrtu og auka buxur fyrir sama pening og made in Vietnam-regnstakkinn sem ég keypti í Útilíf. Auk þess keypti ég annað silkibindi á rúmar 300 kr. „Ósviknar“ Levis gallabuxur á rúmar 700 krónur, „alvöru“ Lacoste pólóbol á rúmar 300 og að lokum, það besta, „ekta“ Adidas sólgleraugu (made in USA) á 90 kall. Auk þess lét sérsauma á mig eftirlíkingu af skóm sem myndu kosta svona 9-10 kall heima, skó sem væru þá saumaðir eftir staðli hérna í Víetnam hvort eð er. Nema ég borgaði rúmar 2000 krónur fyrir og fékk þá afhenta næsta dag. Ég hef aldrei átt skó sem passa svona vel á mig og svo er mjög gott að losna undan léttgönguskónum sem ég keypti á 12.000 kall í Útilíf (Made in Vietnam) sem hafa verið að slitna jafnt og þétt og bera viðeigandi táfýlu sem á það til að myndast eftir 9 mánaða notkun.

Við þetta er pokinn minn orðinn svo gott sem troðinn. Uppgötvunin um að ég sé að fara heim eftir minna en viku fékk mig til að hala inn örfáum minjagripum og hlutum sem ég veit að koma sér vel heima en kosta einn áttunda hérna, til dæmis lítinn marmara-Búdda á 70 krónur. Ég átti öll þessi kaup í heimsminjabænum Hoi An sem hefur einnig verið ánefndur: „Staðurinn sem þú lætur gera á þig helling af fötum“ — því það kostar allt samasem ekki neitt þarna.

Af öllum þessum tugum, ef ekki hundruð, klæðskerabúðum sem hanna flest allt, eða kópera öllu heldur, eftir óskum túristans frátöldum þá innihalda einstaka blöndu af víetnömskum, kínverskum, japönskum og evrópskum arkitektúr frá allt að 16. öld og það var það — en ekki klæðskerabúðirnar — sem fékk UNESCO til að setja bæinn á heimsminjaskrá.

Það er svo önnur stétt sem er reiðubúinn að fara mjög ítarlega eftir óskum túristans sem hefur blossað upp hérna í Víetnam. Stétt sem kallar sig upp á enskuna easy rider og ég kýs að íslenska sem „léttreiðknapar“. Þetta eru mótorknapar sem aka um borgir og bæi í leit af túristum til að hoppa upp á bak með sér og keyra þá um sveitir og stórborgir frá einum degi og upp í margar vikur.

Ég hafði nýsloppið úr 12 tíma rútunni frá Hanoi til heimsminjabæjarins Hue þegar léttreiðknapi að nafni Hieu kom eins og riddari ríðandi á mótorhjóli og reddaði mér 5 dala gistingu. Hann kynnti mér fyrir dagsferðum sem hann stæði fyrir svo maður gæti séð helstu merkisstaði þessarar gömlu höfuðborgar (sem fékk útnefninguna frá UNESCO vegna leifa frá Nguyen-tímabilinu (1802–1945) þar sem stjórnvöld þess tíma settu Hue sem höfuðborg Víetnam þess tíma og skildu eftir sig fullt af mögnuðum stórvirkjum) og eftir að hafa séð að Íslendingar höfðu mælt með honum á móðurmálinu okkar í bók sem hann bar þá ákvað ég að slá til í einn stuttan reiðtúr.

Hieu ók mig milli fjölda virkja, grafreita og pagóða. Fékk að sjá hvernig víetnamskir munkar biðja og bandarísk skotvirki frá 7. áratug síðustu aldar sem innihéldu einnig magnað útsýni yfir Ilm-ána svonefndu (Perfume River) til að byrja með. Hieu sagði mér að Bandaríkjamenn hafi skemmt ilminn — sem fyrrnefnd á dregur nafnið sitt af — með sprengjunum sínum í bandaríska stríðinu (sem er vesturlandabúar kalla Víetnam-stríðið).

Hieu ók mig líka að grafreitnum fræga sem inniheldur grafir helstu keisara Nguyen-tímabilsins þar sem gröf Tu Duc er hvað frægust. Hieu sagði mér að Tu Duc hafi verið frægur fyrir að hafa samið (eða sagst hafa samið) yfir 4000 ljóð en hann hefði verið skelfilegur keisari og fullt af fólki hefði dáið vegna skipana hans um að taka það af lífi fyrir minnstu sakir. Undir lok dagsins ók Hieu mig um sveitirnar í kring um Hue þar sem bæjarbúar voru á fullu að uppskera hrísgrjón. Af einhverjum ástæðum fannst þeim mjög eðlilegt að stafla grösunum á miðjan vegin (sem var svo mjór að hann myndi varla flokkast undir hjólreiðastíg heima) en þetta var allt mjög sérstakt.

Hieu endaði svo reiðtúrinn á því að sýna mér „japanska“ brú frá 18. öld, sem er í raun víetnömsk kópering af frægri alvöru japanskt hannaðri brú í Hoi An. En eins og Víetnömum einum sæmir var eftirlíkingin hreint ekki svo slæm og sýnir það og sannar að í yfir 200 ár hafa Víetnamar alltaf verið bestir í eftirlíkingunum.

Það var nú eitt í viðbót sem Hieu sýndi mér áður en hann fór með mig í sveitirnar í kring, að frátöldu sjálfu borgarvirkinu sem Hieu benti mér á að hefði verið að mestu sprengt í bandaríska stríðinu, en það var 400 ára gömul pagóða sem komst í heimspressuna 1963 þegar munkur frá pagóðunni, Thich Quang Duc, ók á blárri Austin bifreið frá Hue alla leið til Saigon, settist þar á götuna í lótusstellingunni, hellti yfir sig bensíni og brenndi sig lifandi í mótmælaskini. Ástæðan var harðræði Diem, sem var þáverandi forseti Suður-Víetnam og er bendlaður við dauða yfir 50 þús. manna. Munkurinn lést við mótmælin og er hann grafin undir stúpu í hofinu auk þess sem Austin-bifreiðin og nokkrar myndir af atburðinum eru til sýnis í hofinu. Meðal annars mynd af hjartanu hans sem Hieu sagði mér að hafði sloppið óskemmt frá brunanum. Það þarf greinilega meira en smá bruna til að gott og hugrakt hjarta eins og hjarta Thich Quang Duc beri skaða af.

Eftir þennan dagreiðtúr með mótorknapanum Hieu tókst honum að sannfæra mig að kannski væri sniðugara að fara til Hoi An aftan á hjólinu hans heldur en í rútu. Þannig varð þessi dagreiðtúr að þriggja daga túr.

Við lögðum af stað snemma um morguninn eftir góða núðlusúpu með tófú í morgunmat á aðeins 36 krónur (í Víetnam getur maður víða fundið heitar máltíðir á undir 20 krónum, fullnægjandi 4ra rétta grænmetismáltíðir á 36 krónur og kalda drykki á rétt yfir tíkall en oftast fylgir íste frítt með hverjum máltíðum). Við komum til Hoi An rétt áður en það byrjaði að kvölda en á leiðinni stoppuðum við nokkrum sinnum til að sjá til dæmis magnaða paradísaströnd sem var alveg tóm, bandarísk og frönsk skotvirki, fílalaug og marmarafjall með urmul af hellum og tveimur pagóðum uppi.

Marmarafjallið fannst mér hvað merkilegast af deginum þar sem hellarnir innihéldu hver sín Búddalíkneski sem hafði verið skorin úr hellisveggnum, einn þeirra ábyggilega 10 metrar á hæð. Mjög merkilegt að sjá þetta inni í svaka víðum hellissalnum þar sem eina lýsingin kom í gegnum örlítið gat á toppnum. Hieu sagðist halda að um 20 munkar lifðu á fjallinu í þeim tveim pagóðum sem þarna eru. Hieu náði að redda mér $5 gistingu í Hoi An, þó hann hefði þurft að leita dálítið fyrst því gistingar eru almennt ekki mjög ódýrar í Víetnam, þá sérstaklega ekki á túristastöðum eins og Hoi An. Næsta morgun var Hieu svo mættur fyrir utan hótelið klukkan 5:30 um morguninn til að skutla mér að Cham-rústunum í My Son sem er 40 kílómetrum frá Hoi An. En rústirnar eru víst nokkuð vinsælar meðal ferðamanna (enda á heimsminjaskrá UNESCO) svo það er vissara að mæta snemma bæði til að vera á undan túristaskaranum og hitanum. Rústirnar voru svona eins og við var að búast af 9. alda hindúahofum menningar sem síðar feldi Khmer-veldið (sem byggði Angkor) og átti svo eftir að vera hrakin til Kambódíu af Víetnömum og snúast þar til íslam.

Þessar rústir mörkuðu svo endirinn á þriggja daga reiðtúr með léttreiðknapanum Hieu hvers helsti kostur var að vita alltaf hvernig maður átti að fara sem ódýrast að hlutunum. Hann ók mig til baka reynandi að sannfæra mig um að fara með honum í 6 daga til viðbótar til Da Lat nær Ho Chi Minh borginni en ég ákvað frekar að spara með því að taka næturrútuna til Nha Trang 3 dögum seinna og eyða sparnaðinum í fatakaup í Hoi An seinna sama dag.

Ég kom semsagt með mótorhjóli frá Hue til Hoi An og með rútu frá Hanoi til Hue. En áður en ég fór í rútuna til Hue þá pantaði ég mér þriggja daga pakka til bæjar sem heitir Sa Pa og er á hálendinu við kínversku landamærin. Sa Pa er þekktur fyrir minnihlutahópa í nálgum dölum af öðrum kynstofnum en þeim víetnamska en eiga það sameiginlegt að koma öll frá Kína á mismunandi tímabili síðustu 2000 árin.

Víetnam hefur þá sérstöðu að það er í raun ódýrara að kaupa sér pakka en að ferðast sjálfstætt, nema gallinn er bara sá að maður þarf þá að ferðast með hópi og gera allt eftir fyrir fram ákveðnu plani. Ég lét mig hafa það að þessu sinni enda alltaf að spara og keypti semsagt pakka sem innihélt lestarferð til og frá Sa Pa, gistingu á flottasta hóteli sem ég hef gist á, mat, tvær leiðsagðar gönguferðir samtals einungis 20 kílómetra og heimagistingu í þorpi í miðri seinni gönguferðinni. Þetta var allt voðalega auðvelt og smá túristalegt, þó ekki jafn slæmt og gangan sem ég fór í frá Chieng Mai í norður-Tælandi.

Veðrið þótti mér merkilegast þarna en það var eiginlega bara ískalt þarna þegar það var alskýjað. Við fórum í fyrstu gönguna strax þegar við komum úr lestinni um morguninn. Fengum að sjá þorp, hrísgrjónaakra og annað slíkt. Þessir minnihlutahópar þarna virðast halda vel í menningarnar sínar en þau voru flest klædd sínum hefðbundnu skrúðum og töluðu flest sín eigin tungumál þrátt fyrir að nær öll samskipti og kennsla barnanna fari fram á víetnömsku. Þorpin sem við sáum voru samt hefðbundin bóndabýli sem maður hefur séð svo oft áður, lítið um rafmagn og allt voða gamaldags svona. Svo var gengið aftur upp á hótel og tekið heita sturtu. Ég var alveg búinn að gleyma notalegheitunum sem fylgja heitri sturtu. Ein stelpa sem var með mér í göngunni sagði mér svo frá því hvernig hún hafði séð hund vera slátrað seinna um daginn. Hún sagði mér hvernig hún hafi séð hund fastann með höfuðið í rimlagirðingu og svo hvernig kona hafi komið út með barefli. Af skiljanlegum ástæðum leit hún undan og svo hafi hún heyrt mikið væl í hundinum sem svo hætti. Líklegast hefur svo verið snætt á hundinum seinna sama dag en eins og vitað er er allt borðað í Víetnam. Framandi matur eins og hundur, snákur eða skjaldbaka þykir þó svaka fínn matur og menn þurfa ekki að óttast að borða slíkt óviljandi þar sem maður myndi sjá það á formlegheitunum eða á verðinu.

Seinni tveir dagar pakkans voru svipaðir þeim fyrsta. Við gengum um, sáum hrísgrjónaakra og þorp. Nema í þessari seinni gönguferð var gist í heimagistingu í einu þorpinu. Það var samt ekki jafn spennandi og það hljómar þar sem það var risa-stór vist með tveim öðrum hópum þar inni. Svo var farið inn á hótel og beðið til kvölds þegar lestin lagði af stað aftur til Hanoi og undir morgun fjórða dags var ég kominn í þriðja sinn í þessa höfuðborg Víetnam.

Núna er ég hins vegar í bæ að nafni Van Gia sem er ágætlega nálægt Ho Chi Minh borginni í sunnanverðu landinu. Ég frétti að Ingi Björn, annar Grindvíkingur, væri hérna hjá frænda sínum að nafni Björn. Ég hafði samband við Inga Björn og fékk að dvelja hjá frænda hans í þessum bæ. Van Gia sér ekki mikið af vestrænu fólki. Það er greinilegt á fólkinu sem horfir á mann og börnunum sem hlaupa á eftir manni. En bærinn er fallegur. Alveg við sjóinn með eyjum og fjöllum í kringum sig auk hellings af bátum og húsum á fljótandi fiskeldi. En hérna verð ég þangað til á laugardaginn, fer þá til Ho Chi Minh borgarinnar þaðan sem ég flýg til Lundúna með tveggja tíma stoppi í Hong Kong á mánudaginn næstkomandi.

Ho Chi Minh – London

Ferðalok: Rúnar Berg

3. júní 2008

Jæja, þá er þetta búið, Ég var nokkra daga í Ho Chi Minh-borg sem ég notaði aðallega til að slaka á, enda var þetta í annað skiptið mitt í borg sem ein heimsókn ætti að vera meira en nóg. Og ég get ekki sagt annað en mér var farið að hlakka svolítið til að komast heim. Það sem átti að vera 8 mánaða reisa til um fimmtán landa, endaði sem 9 mánaða ferð um yfir 20 lönd í 6 heimsálfum. Það er svolítið magnað.

Eg kem líklegast breyttur maður heim, Níu mánuðir með svona reynslu að baki hlýtur að breyta manni. Það sá ég vel í Lundúnum þar sem ég skoðaði Brittis museum í rólegheitum á meðan ég beið eftir fluginu mínu heim.

Fyrir 9 mánuðum síðan, hefðum við Skúli hafið reisuna í þessu merka safni —sem safnar gripum allstaðar af úr heiminum—, þá hefði ég eflaust gengið í gegnum það, lesið af spjöldunum og hugsað með mér, „úhh, ahhh, en sniðugt.“ En núna, með allan hnöttinn að baki, hafandi heimsótt flesta þá staði sem safnið hefur sína gripi frá, séð stytturnar á Raba Nui í eigin persónu, indjánaskart í Kostaríka, hindúa greftrun í Angor Wat og fleira, að þegar ég sé þetta til sýnis, hálfum hnetti í burtu frá upprunanum, til sýnis fyrir evrópskan almúgann, svo hann geti tekið sýnar ljósmyndir í einum tube í burtu frá heimillinu sínu, þá líður mér undarlega. Af hverju er Moai í Londun en ekki Raba Nui, þar sem hann var búin til?

En jæja, þetta var bara smá hugleiðing sem ég átti í lokin. Áður en ég kveð þá vill ég nýta tækifærið og kvetja alla til að ferðast, ferðast í burtu á framandi slóðir, ekki bara til Benedorm eða Brittish Museum. Að ferðast til að upplifa ævintýri, villast upp á fjöllum á Súmötru, detta niður eldfjall í Níkaragva, læra tangó í Argentínu, kenna börnum ensku í Kambódíu.

Líklegast er þetta ekki það síðasta sem þið munuð heyra frá mér. Ég mun aftur halda í aðra eins reisu og safna mér fleiri ævintýrum til að segja frá. Það sama gildir líklegast um Skúla. Þegar maður er komin með ferðabaktríuna svökölluðu, þá er ekki aftur snúið. — En þangað til þá, þá kveð ég.

Ég þakka öllum sem fylgst hafa með
Rúnar Berg Baugsson