Við erum enn í miðju alheimsins

eftir: Rúnar Berg Baugsson Sigríðarson

Ótrúlegt hvað maðurinn álítur sig ennþá sem miðju alheimsins, 150 árum eftir Darwin og 500 árum eftir Kópernikus. Við erum kannski ekki staðsett í miðjunni á hina þrívíða rúmi alheimsins, þar sem allt snýst í kring um okkur. En við lýtum samt á okkur sem miðju alheimsins á annan hátt.

Það eru nefnilega fleiri leiðir til að líta á staðsetningu í alheiminum en bara rúmfræðilega. Maður getur til dæmis litið á staðsetningu í tíma, „Ég er skrifa þetta staddur í klukkan 22:17 GMT 6. febrúar 2014,“ eða, „Þegar maðurinn steig fyrst á tunglið vorum við stödd árið 1969.“ Einnig getum við skoðað rúmfræðilega nákvæmni. Við getum horft á hlutina nær, eða fjær, í víðari eða nánari mynd. Maður getur fært sjónarhornið utar, og horft á fólkið í lautarferðinni, borgina, landslagið, heimshvelið, jörðina, sólkerfið, vetrarbrautina, alheiminn, eða við getum horft á hönd mannsins í lautarfeðinni, húðlögin, hvítt blóðkorn, kjarnasýru þess, tiltekna kolefnissameind, eða kjarna eins atóms þess. Hérna er myndband eftir Charles og Ray Eames sem útskýrir útskýrir betur hvað ég á við (nánari upplýsingar um myndbandið hér.)

Við erum ennþá stödd í miðju alheimsins þegar kemur að stjórn. Því sama hvort sem við lítum frá útvíðu sjónarhorni—á heildirnar sem einstaklingurinn er hluti af—eða frá nánu sjónarhorni—á einingarnar sem mynda heildina „einstaklingur“—þá stjórnar einstaklingurinn í báðar áttir. Sjáðu til, saman mynda margir mennskir einstaklinar fyrirtæki, tískubylgjur, borgir og ríki, samfélagslegar heildir. Þessum heildum er stjórnað af mönnum, það efast enginn um. Tja, ekki stjórna þær okkur? Við erum þau sem ákveðum hverju við klæðumst, mennskir stjórnmálamenn stjórna ríkjum, mennskir kapítalistar stjórna fyrirtækjum en ekki öfugt. Við stjórnum umhverfinu okkar, en umhverfið stjórnar okkur ekki. Örlög jarðarinnar eru í okkar höndum.

Ef við förum svo í hina áttina. Ef við skoðum heiminn í þrenngri mynd, sjáum þær einingar sem mynda hvern mennskan einstakling, þá færist stjórnin allt í einu í það að vera ofan frá. Allir hugsa: „mind over matter,“ en það hugsar engin, „matter over mind“. Ég stjórna samdrætti vöðvanna, hreyfingu líkamshluta, skynjun sársauka og beiningu athyglinnar. Ef eitthvað fór framhjá mér í tíma, þá er það vegna þess að ég tók ekki nógu vel eftir, ekki það hegðun taugafrumna í heilanum mínum hafi verið með þeim hætti einbeitning á orðum kennarans lágmarkaðist. Það er heildin ég sem stjórna, frekar en einingarnar sem mynda mig.

Tvær heimssýn
Tveir mis-raunhæfir möguleikar á alheiminum. Þessi til vinstri setur manninn í miðju alheimsins, þessi til hægri gerir ráð fyrir að hlutir geti haft áhrif hvor á annan.

Þannig að það er sama hvort maður lítur þröngt eða vítt, á einingar eða heildir, maðurinn stjórnar í báðar áttir. Maðurinn er alltaf í miðju alheimsins. Ég spyr hvort ekki sé mál að taka upp nýja, raunhæfari heimsmynd. Að heildirnar stjórni einingunum jafn mikið og einingarnar stjórni heildunum. Hvort sem þú lítur út frá manninum, á heimilin, háskólana, borgirnar, löndin — eða inn að manninum, á líffæri, taugaklasana, próteinin, kjarnasýrurnar, að áhrifin eru töluverð í báðar áttir. Að hugurinn hafi jafn mikil áhrif á lýsisneyslu og lýsisneysla hafi á hann.